Hoppa yfir valmynd
22. desember 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 514/2022 Úrskurður

 

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 22. desember 2022 er kveðinn upp svohljóðandi 

úrskurður nr. 514/2022

í stjórnsýslumálum nr. KNU22110038 og KNU22110039

 

Beiðni [...] og [...] um endurupptöku

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með úrskurðum nr. 439/2018 og 440/2018, dags. 20. nóvember 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 2. júlí 2018, um að synja [...], fd. [...], ríkisborgara Svartfjallalands (hér eftir K), og [...], fd. [...], ríkisborgari Kósóvó og Serbíu (hér eftir M), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Kærendur eignuðust barn hér á landi í september 2019.

Með úrskurði kærunefndar nr. 562/2018, dags. 13. desember 2018 var réttaráhrifum úrskurða kærunefndar í málum kærenda frestað. Hinn 12. október 2020 lögðu kærendur fram beiðni um endurupptöku til kærunefndar. Með úrskurði nr. 414/2020, dags 3. desember 2020 var beiðni kærenda um endurupptöku mála þeirra hafnað. Hinn 11. desember 2020 lögðu kærendur að nýju fram beiðni um endurupptöku málanna. Með úrskurði nr. 437/2020, dags. 17. desember 2020 var beiðni kærenda um endurupptöku mála þeirra hafnað. Hinn 13. maí 2022 lögðu kærendur fram þriðju beiðni sína um endurupptöku málanna. Með úrskurði 209/2022, dags. 2. júní 2022, var beiðni kærenda um endurupptöku mála þeirra hafnað.  

Hinn 14. febrúar 2019 var mál kærenda gegn íslenska ríkinu til ógildingar á úrskurði kærunefndar frá 20. nóvember 2018 og ákvörðun Útlendingastofnun frá 2. júlí 2018 þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur. Með dómi Héraðsdóms [...], í máli nr. [...], voru íslenska ríkið og Útlendingastofnun sýknuð af kröfum kærenda. Máli kærenda var áfrýjað til Landsréttar. Með dómi Landsréttar [...], í máli nr. [...], var dómur Héraðsdóms Reykjavíkur staðfestur.

Hinn 9. nóvember 2022 lögðu kærendur að fram í fjórða sinn beiðni um endurupptöku mála sinna ásamt fylgigögnum. 

Af beiðni kærenda um endurupptöku á málum þeirra verður ráðið að þau reisi kröfu sína á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993

II. Málsástæður og rök kærenda

Kærendur gera kröfu um endurupptöku mála sinna á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga og að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Með beiðninni leggja kærendur fram ný gögn sem þau telja að varpi skýrara ljósi á alvarleika veikinda K og dóttur hennar og skýri betur hvers vegna flutningur þeirra til heimaríkis ekki raunhæfur kostur. 

Kærendur vísa til þess að frá upphafi hafi legið ljóst fyrir að dóttir þeirra glími við alvarleg veikindi og að hún þurfi nauðsynlega á þróaðri og sérhæfðri þjónustu að halda sem til staðar sé á Barnaspítala Hringsins, ásamt því að þurfa á halda sérhæfðri endurhæfingu hjá barnasjúkraþjálfara og eftirliti hjá barnataugalækni á Barnaspítala Hringsins. Kærendur vísa til þess að samkvæmt niðurstöðum athugana Smábarnateymis Ráðgjafar- og greiningarmiðstöðvar, dags. 18. október 2022, sem fylgja með beiðninni, séu þarfir dóttur þeirra fyrir stuðning og meðferð miklar. Þá vísa kærendur til þess að samkvæmt barnalækni sem undirriti niðurstöður Smábarnateymisins megi ekki gera hlé á meðferð dóttur kæranda því annars muni ástand hennar versna og sé fyrirhugaður flutningur til Svartfjallalands, þar sem hún njóti ekki sjúkratryggingar í að minnsta kosti fyrstu sex mánuðina, algjörlega óviðunandi fyrir barn í hennar stöðu. 

Kærendur vísa til þess að það liggi fyrir að í dag sé K ekki sjúkratryggð í heimaríki sínu, Svartfjallalandi, og hafi þar af leiðandi ekki aðgang að heilbrigðisþjónustu. Þá hafi M ekki aðgengi að heilbrigðisþjónustu í heimaríki sínu, Kósóvó, þar sem ríkið haldi ekki úti heilbrigðiskerfi eins og er. Þá sé K barnshafandi, komin 28 vikur á leið, og er meðganga hennar talin vera áhættumeðganga og samkvæmt framlögðu læknisvottorði, dags. 13. október 2022, megi hún alls ekki fljúga. 

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. 

Með úrskurðum kærunefndar í málum kærenda, dags. 20. nóvember 2018, var komist að þeirri niðurstöðu að kærendur uppfylltu ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ættu þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kærenda í heimaríkjum þeirra væru ekki með þeim hætti að veita bæri þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Líkt og áður greinir lögðu kærendur fram beiðni um endurupptöku máls þeirra 12. október 2020. Byggðu kærendur þá beiðni á því að þau hefðu eignast dóttur í desember 2019 sem hefði fæðst eftir rúmlega 25 vikna meðgöngu. Lögðu kærendur fram afrit af bréfi ritað af sérfræðingi á Barnaspítala Landspítalans til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, dags. 24. september 2020. Í bréfinu hafi meðal annars komið fram að dóttir kærenda væri með ákveðin einkenni um óeðlilegan hreyfitaugaþroska, gæti ekki setið sjálf og ætti erfitt með að vera í magalegu. Við meðferð málsins tók kærunefnd til skoðunar aðstæður í heilbrigðiskerfum Svartfjallalands og Kósovó og hvernig þær horfðu við aðstæðum dóttur kærenda. Hinn 3. desember 2020 úrskurðaði kærunefnd, með úrskurði nr. 414/2020, um framangreinda beiðni. Í úrskurðinum kemur fram að það hafi verið mat kærunefndar eftir skoðun á skýrslum um aðstæður í Svartfjallalandi og Kósovó það væri markmið hjá báðum ríkjunum að greina snemma hvers konar þroskaskerðingar hjá börnum og beita snemmbærri íhlutun til að takmarka frekari skaða og efla einstaklingana til sjálfstæðis. Þá var það mat kærunefndar að kærendur hefðu ekki sýnt fram á að dóttir þeirra sé í meðferð hér á landi sem sé læknisfræðilega óforsvaranlegt að rjúfa. Samkvæmt gögnum um heimaríki kærenda væri ljóst að aðgangur að viðeigandi meðferð og stuðningi fyrir dóttur kærenda væri fyrir hendi í heimaríkjum þeirra og var það mat kærunefndar að kærendur væru þess fullbær að leita eftir slíkri þjónustu fyrir dóttur sína. Ítrekaði kærunefnd framangreint mat sitt í úrskurði sínum nr. 437/2020, uppkveðnum 17. desember 2020. 

Líkt og áður greinir höfðuðu kærendur mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til ógildingar á úrskurðum kærunefndar í málum þeirra. Var íslenska ríkið sýknað af kröfum kærenda með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur [...]. Áfrýjuðu kærendur dómnum til Landsréttar. Með dómi sínum [...] féllst Landsréttur ekki á að rannsóknarregla stjórnsýsluréttar hefði verið brotin við meðferð mála kæranda né að rökstuðningi úrskurða kærunefndar, nr. 439/2018 og 440/2018, hefði verið ábótavant. Þá var það mat Landsréttar að kærunefnd hefði fjallað um þær breyttu aðstæður er vörðuðu heilsufar dóttur kærenda í tveimur úrskurðum þar sem endurupptökubeiðnum þeirra var hafnað. Þá hefði ekkert verið fært fram í málinu sem veitti vísbendingar um að sjúkdómur dóttur kærenda væri skyndilegur, lífshættulegur eða meðferð við honum ekki aðgengileg í heimaríkjum kærenda. Væri því ekki séð að fyrir hendi væru sérstök verndarsjónarmið sem leiddu til þess að talið yrði að aðstæður kærenda vegna veikinda dóttur þeirra hefðu breyst þannig að þær næðu alvarleikastigi samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærendur byggja fjórðu endurupptökubeiðni sína á því að dóttir þeirra þurfi nauðsynlega á að halda þróaðri og sérhæfðri þjónustu sem til staðar sé á Barnaspítala Hringsins, ásamt því að þurfa á halda sérhæfðri endurhæfingu hjá barnasjúkraþjálfara og eftirliti hjá barnataugalækni á Barnaspítala Hringsins. Þá vísa kærendur til þess að samkvæmt barnalækni megi ekki gera hlé á meðferð dóttur kæranda því annars muni ástand hennar versna og sé fyrirhugaður flutningur til Svartfjallalands þar sem hún njóti ekki sjúkratryggingar í að minnsta kosti fyrstu sex mánuðina algjörlega óviðunandi fyrir barn í hennar stöðu. Þá sé K barnshafandi og sé hún í eftirliti áhættumæðraverndar. Hafi sérfræðilæknir á Landspítalanum mælt eindregið gegn því að hún færi í millilandaflug á meðgöngunni. 

Að mati kærunefndar verður ekki séð af bréfi Ráðgjafar- og greiningarmiðstöðvarinnar að dóttir kærenda sé í læknisfræðilegri meðferð sem óforsvaranlegt sé að rjúfa. Fram kemur að dóttir kærenda, sem sé þriggja ára, þurfi samþætta þjónustu innan skóla-, félags- og heilbrigðisþjónustu með leikskólaþjónustu og félagslegum stuðningi, ásamt sértæku eftirliti barnalæknis og reglulegri sjúkra- og iðjuþjálfun. Þá kemur fram að endurmat á þroska skuli fara fram við fimm til sex ára aldur hennar. 

Að mati kærunefndar er beiðni kærenda um endurupptöku byggð á samskonar málsástæðum og gögnum og byggt var á í endurupptökubeiðnum kærenda 12. október og 3. desember 2020. Líkt og að framan er rakið hafnaði kærunefnd endurupptöku á málum kærenda á þeim grundvelli með úrskurðum 3. desember og 17. desember 2020. Ný gögn um heilsufar dóttur kærenda raska því ekki fyrra mati kærunefndar um að til staðar sé viðeigandi þjónusta og úrræði í heimaríkjum kærenda til að takast á við þann heilsufarsvanda sem dóttir þeirra glímir við. Eins og áður segir ber læknisvottorð dóttur kærenda ekki með sér að hún sé í meðferð hér á landi sem sé læknisfræðilega óforsvaranlegt að rjúfa. Þá eru kærendur almennt hraust og vinnufær og ættu að vera fullfær um að leita eftir viðeigandi stuðningi og heilbrigðisþjónustu í heimaríkjum sínum fyrir dóttur sína. Við þetta mat hefur kærunefnd stuðst við verklagsreglur kærunefndar um mat á hagsmunum barna sem sækja um alþjóðlega vernd sem aðgengilegar eru á vefsíðu nefndarinnar og litið til ákvæða 3., 6. og 23. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (Barnasáttmálinn) sbr. lög nr. 19/2013, og íslenskrar löggjafar um börn.

Hvað varðar málsástæðu kærenda þess efnis að K sé ekki sjúkratryggð í heimaríki sínu, Svartfjallalandi, þá hefur kærunefnd skoðað upplýsingar um sjúkratryggingakerfi í heimaríkjum kærenda. Samkvæmt heimsíðu sjúkratryggingasjóðs Svartfjallalands og 3. gr. svartfellskra laga um sjúkratryggingar, nr. 006/16, með breytingum, er skyldubundin sjúkratrygging hluti af sjúkratryggingakerfinu sem veitir öllum borgurum lýðveldisins Svartfjallalands og öðrum einstaklingum rétt til heilbrigðisþjónustu. og önnur réttindi, í samræmi við lög. Þá á barn sjúkratryggðs einstaklings rétt á skyldubundinni sjúkratryggingu samkvæmt 12. gr. laganna. Þá er börnum undir 18 ára aldri tryggð heilbrigðisþjónusta í Kósovó óháð stöðu sjúkratrygginga samkvæmt 7. gr. kósovóskra laga um sjúkratryggingar, nr. 04/L-249. Kærendur hafa rétt til þessarar sjúkratryggingar þegar þau snúa aftur til heimaríkja sinna og fara að vinna þar. Fram að þeim tíma er þeim fært að kaupa sérstaka sjúkratryggingu frá einkaaðilum. Þá er það mat kærunefndar að framangreint gagn um þjónustu- og meðferðarþörf dóttur kærenda bendi ekki til þess að flutningur hennar til heimaríkis foreldra sinna og mögulegt rof á þjónustu muni hafa í för með sér óafturkræfar eða verulegar afleiðingar fyrir heilsu hennar sem réttlæt geti veitingu dvalarleyfis af mannúðarástæðum hér á landi skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Á grundvelli framlagðs vottorðs um að ekki sé ráðlegt að K fari í flug vegna þess að hún er barnshafandi og njóti þjónustu og eftirlits vegna áhættumeðgöngu er ljóst að kærendur geta ekki yfirgefið landið fyrr en eftir fæðingu barns þeirra. Þá er rétt að gefa fjölskyldunni eðlilegan tíma til þess að jafna sig eftir fæðingu barns þeirra áður en þeim er gert að yfirgefa landið. Þær upplýsingar eru þó að mati kærunefndar ekki til þess fallnar að aðstæður þeirra teljist verulega breyttar þannig að rétt sé að endurupptaka mál þeirra hjá kærunefnd.

Að mati kærunefndar breyta þau gögn sem kærendur hafa lagt fram við meðferð þessa máls ekki fyrri afstöðu nefndarinnar. 

Samantekt

Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að atvik í máli kærenda hafi ekki breyst verulega frá því að úrskurðir kærunefndar frá 20. nóvember 2018 voru kveðnir upp þannig að taka beri mál þeirra upp að nýju á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er ekkert sem bendir til þess að niðurstaða í máli kærenda hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

 

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um endurupptöku er hafnað. 

The request of the appellants to re-examine their cases is denied

 

 

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Sindri M. Stephensen Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

  

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta