Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Nýjar vinnureglur til að sporna við misnotkun ofvirknilyfja

Teknar hafa verið upp nýjar reglur um lyfjaskírteini og hert á tilkynningarskyldu til landlæknis til að sporna við misnotkun metýlfenidatslyfja. Í sama skyni er stefnt að því að fela geðsviði Landspítalans umsjón með frumgreiningu ADHD (ofvirkni og athyglisbresti) hjá fullorðnum og eftirlit með meðferð og vinnur landlæknir að nánari útfærslu þess í samstarfi við framkvæmdastjóra geðsviðs og formann Geðlæknafélags Íslands.

Heilbrigðisráðherra skipaði vinnuhóp 1. september 2010 til að skipuleggja aðgerðir sem draga úr ofnotkun og koma í veg fyrir misnotkun lyfja gegn athyglisbresti og ofvirkni. Þetta eru einkum lyf sem innihalda metýlfenidat, svo sem rítalín og concerta. Vinnuhópurinn skilaði ráðherra tillögum sínum um aðgerðir í nóvember 2010 og var ákveðið að hrinda þeim þegar í framkvæmd.

Ljóst er að grípa þurfti til aðgerða vegna stóraukinnar notkunar þessara lyfja hér á landi. Á fjórum árum jókst notkun þeirra um tæp 50% og er nú mun meiri en hjá öðrum þjóðum. Árið 2004 voru dagskammtar af metýlfenidatlyfjum 7,53 á hverja 1.000 íbúa hér á landi en voru komnir í 11,15 árið 2008. Á Norðurlöndunum er notkunin næstmest í Noregi, 4,40 dagskammtar á hverja 1.000 íbúa árið 2008. Samhliða aukinni notkun hafa útgjöld Sjúkratrygginga Íslands vegna þessara lyfja aukist verulega, úr 190 milljónum króna árið 2006 í 544 milljónir króna árið 2010.

Aukningin hér á landi hefur fyrst og fremst verið meðal fullorðinna og eru þeir rúm 40% allra sem fá lyfið (eldri en 20 ára). Lyfin eru þó fyrst og fremst ætluð börnum en geta gagnast fullorðnum með ákveðnum skilyrðum.

Lyfjaefnið metýlfenidat flokkast sem ávana- og fíkniefni og er því vandmeðfarið. Fram hefur komið að einstaklingar sem koma til meðferðar hjá SÁÁ eru í vaxandi mæli fíklar á metýlfenidati. Sömu þróunar hefur orðið vart hjá fíklum sem leita til bráðamóttöku Landspítala.

Ábendingar Alþjóðafíkniefnaráðs Sameinuðu þjóðanna

Alþjóðafíkniefnaráð Sameinuðu þjóðanna ritaði íslenskum heilbrigðisyfirvöldum bréf 21. desember síðastliðinn þar sem vakin er athygli á þeirri staðreynd að notkun metýlfenidats er hvergi í heiminum meiri en á Íslandi. Bent er á að misnotkun efnisins sé vel þekkt meðal þjóða þar sem lyfið er mjög aðgengilegt og eru heilbrigðisyfirvöld hvött til árvekni. Vakta þurfi útbreiðslu lyfsins, fylgjast með hvernig því sé ávísað af hálfu lækna til að fyrirbyggja ofnotkun og vera á verði gagnvart ólöglegri dreifingu þess og misnotkun.

Aðgerðir heilbrigðisyfirvalda

Aðgerðir sem heilbrigðisyfirvöld hafa gripið til í þeim tilgangi að stemma stigu við notkun metýlfenidats eru:

  • Breyttar reglur Sjúkratrygginga Íslands um útgáfu lyfjaskírteina til að koma í veg fyrir að einstaklingur geti fengið ávísað metýlfenidati frá mörgum læknum.
  • Umsjón með frumgreiningu á ADHD hjá fullorðnum og eftirlit með meðferð verður bundin við geðsvið Landspítala.
  • Einungis geðlæknar, barna- og unglingageðlæknar, barnalæknar og taugalæknar sjá um frumgreiningu á ADHD og geta hafið og skipulagt meðferð í framhaldi af greiningu.
  • Aukið eftirlit landlæknis með ávísunum lækna á lyfjum sem innihalda metýlfenidat.

Auk þessa hefur landlækni verið falið að endurskoða leiðbeiningar landlæknis frá 2007 um greiningu og meðferð vegna ADHD.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum