Hoppa yfir valmynd
27. október 2022 Innviðaráðuneytið

Starfshópur skipaður um mótun borgarstefnu

Ingvar Sverrisson formaður starfshóps um borgarstefnu og Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur skipað starfshóp til að móta borgarstefnu. Markmiðið er að efla stærstu þéttbýlissvæði landsins, Reykjavík og Akureyri, og styrkja samkeppnishæfni þeirra og hlutverk í byggðaþróun landsins. Starfshópurinn mun vinna á grundvelli aðgerðar C.4 (Borgarstefna) í byggðaáætlun, sem Alþingi samþykkti fyrr á árinu.

Hlutverk hópsins er tvíþætt. Annars vegar að skilgreina hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar og stuðla að aukinni alþjóðlegri samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins. Hins vegar að skilgreina hlutverk og uppbyggingu Akureyrar sem svæðisborgar og að hún geti boðið upp á meiri fjölbreytni í þjónustu, menningu og atvinnutækifærum.

„Það er mjög mikilvægt að hlutverk og skyldur Reykjavíkur og Akureyrar séu skoðuð í samhengi. Í almennri umræðu er það full áberandi hversu mikið er ýtt undir ríginn milli borgar og landsbyggðar. Akureyri og Reykjavík eiga margt sameiginlegt og mikilvægt að rækta samband og samskipti þessara tveggja staða auk þess sem horft er á hvernig þær þjóna nærsvæðum sínum og öfugt. Ég bind miklar vonir til þess að starf hópsins verði frjótt og efli landið allt,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.

Formaður starfshópsins er Ingvar Sverrisson, framkvæmdastjóri Aton.JL. Aðrir í starfshópnum eru Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi í Reykjavík, Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi á Akureyri, Lára Halldóra Eiríksdóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra og Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Starfsfólk innviðaráðuneytisins og Byggðastofnunar munu starfa með hópnum. Í tengslum við skipun starfshópsins var gerður  samningur við Aton.JL um að veita sérfræðiþjónustu vegna hópsins.

Gert er ráð fyrir að starfshópurinn ljúki störfum eigi síðar en í árslok 2023.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum