Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Vísindanefnd S.þ. um loftslagsbreytingar samþykkir tímamótaskýrslu

Ban Ki-Moon, aðalritari S.þ. á Suðurskautslandinu fyrr í þessum mánuði þar sem hann skoðaði áhrif loftslagshlýnunar.
Ban Ki-Koon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna.

Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) hefur samþykkt samantekt á 4. yfirlitsskýrslu sinni um loftslagsbreytingar. Viku löngum fundi nefndarinnar lauk í Valencia á Spáni í dag. Samantektin er ætluð stefnumótendum og í henni eru dregnar saman helstu upplýsingar um stöðu vísindalegrar þekkingar á loftslagsbreytingum ? orsökum þeirra, umfangi og afleiðingum, en einnig varðandi aðgerðir til að draga úr loftslagsbreytingum og aðlagast þeim. Skýrslan hefur komið út í þremur áföngum á þessu ári og er byggð á vinnu 2.500 vísindamanna. Hún er því viðamesta vísindalega samantekt sem gerð hefur verið um loftslagsbreytingar.

Meginniðurstöður nefndarinnar eru þessar:

  • Hlýnun jarðar er staðreynd.
  • Vísindaleg vissa um loftslagsbreytingar af mannavöldum hefur aukist.
  • Spáð er 1,8-4°C hlýnun á þessari öld.
  • Sjávarborð mun hækka um aldir; Norður-Íshafið verður nálega íslaust á sumrin fyrir aldarlok.
  • Golfstraumurinn mun veikjast, en litlar líkur eru á stórfelldum breytingum á straumakerfi hafsins.
  • Losun gróðurhúsalofttegunda heldur áfram að aukast.
  • Miklir möguleikar eru á að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda á hagkvæman hátt.
  • Aðgerðir næstu 2-3 áratugi til að draga úr nettólosun skipta miklu um árangur.


Hér má nálgast yfirlit yfir helstu niðurstöður skýrslunnar. (pdf-skjal)

Hér má nálgast lengri útdrátt úr skýrslunni. (pdf-skjal).


Þriðja yfirlitsskýrsla IPCC kom út 2001 og hefur haft mikil áhrif á alþjóðlega umræðu um loftslagsmál. Fjórða skýrslan mun verða kynnt á komandi aðildarríkjaþingi Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Balí í desember næstkomandi og mun liggja til grundvallar í komandi samningaviðræðum um framhald alþjóðlegrar samvinnu í loftslagsmálum eftir að gildistíma Kýótó-bókunarinnar lýkur árið 2012.

Heimasíða Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum