Hoppa yfir valmynd
26. september 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðherra fundar í Finnlandi um málefni barna

Ásmundur Einar ásamt Tuomas Kurttila, umboðsmanni barna í Finnlandi - myndVelferðarráðuneytið

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, átti í dag fund með umboðsmanni barna í Finnlandi auk þess að hitta sérfræðinga og verkefnastjóra í finnska félagsmálaráðuneytinu sem vinna að tveimur viðamiklum verkefnum sem tengjast málefnum barna. Ásmundur er staddur í Finnlandi og hefur í vikunni fundað með þarlendum stjórnvöldum meðal annars um húsnæðismál, jafnréttismál og fjölskyldumál en dagurinn í dag var helgaður málefnum barna.

Verkefnin sem ráðherra voru kynnt í dag fela í sér metnaðarfullar áætlanir um aukna samhæfingu milli kerfa sem starfa að málefnum barna og bætta yfirsýn, auk þess að sníða þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra betur að þörfum þeirra en gert hefur verið í gildandi kerfi.

Í viðræðum aðila kom fram að bæði Finnland og Ísland virðast glíma við sambærilegan vanda á þessu sviði, þar sem þjónusta við börn og fjölskyldur þeirra þykir brotakennd, ekki síst vegna skorts á samvinnu milli ólíkra kerfa sem koma að því að veita börnum þjónustu. Ásmundur Einar hefur lýst yfir áformum um að brjóta niður múra milli kerfa, brúa bil á milli þeirra og setja börnin í öndvegi. Finnar vinna að sama marki og því var áhugavert fyrir fulltrúa þjóðanna tveggja að fræðast um framgang þessara mála í hvoru landi fyrir sig. Í Finnlandi er lagt upp úr samstarfi ráðherra og ráðuneyta til að vinna að framgangi þessara markmiða og hið sama gildir á Íslandi, en nýverið undirrituðu fimm ráðherrar, auk sambands íslenskra sveitarfélaga, sameiginlega viljayfirlýsingu í þessu skyni.

Finnar og Íslendingar deila sambærilegri sýn á þau markmið sem að framan er lýst og þann ávinning í þágu barna sem vænta má af vel grunduðum breytingum: „Við eigum að líta á þá fjármuni sem reiddir eru af hendi í þjónustu við börn sem fjárfestingu fremur en kostnað“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra. Hann segir einnig mikilvægt að taka mið af rannsóknum sem gefi til kynna að fjármunir sem varið er í þjónustu við börn, ekki síst með snemmtækri íhlutun, leiði til sparnaðar til lengri tíma litið. Með góðri þjónustu sem veitt er á réttum tíma megi fyrirbyggja ýmis vandamál þegar börnin vaxa úr grasi og það sé allra hagur.

Ásmundur segir að viðræður sem hann hefur átt síðustu daga við finnsk stjórnvöld verði mikilvægt innlegg í þá vinnu sem framundan er hjá íslenskum stjórnvöldum, undir forystu félags- og jafnréttismálaráðherra: „Ætlunin er að skapa raunverulega barnvænt samfélag og stefna að því metnaðarfulla takmarki að árið 2030 verði hvergi betra að vera barn en á Íslandi“ segir ráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum