Hoppa yfir valmynd
25. mars 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 130/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 25. mars 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 130/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21020033

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 11. febrúar 2021 kærði einstaklingur sem kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Gíneu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. janúar 2021, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá er þess krafist að endurmat fari fram á aldri kæranda.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 16. nóvember 2019. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun hinn 12. mars 2020. Með ákvörðun, dags. 11. júní 2020, komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi skyldi sendur til Portúgal á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 704/2013 (Dyflinnarreglugerðin). Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 29. júní 2020. Með úrskurði kærunefndar, dags. 3. september 2020, var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi vegna annmarka á málsmeðferð í máli kæranda, sbr. 2. mgr. 23. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Lagt var fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar. Efnisviðtöl við kæranda fóru fram hjá Útlendingastofnun dagana 4. og 20. nóvember 2020 og 7. janúar 2021. Með ákvörðun, dags. 26. janúar 2021, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun birt fyrir kæranda hinn 28. janúar 2021 og kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 11. febrúar 2021. Kærunefnd barst greinargerð kæranda hinn 25. febrúar 2021 og frekari upplýsingar frá kæranda hinn 8. mars 2021.

III.        Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna trúarbragða sinna.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.        Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi yfirgefið heimaríki vegna slæmrar meðferðar sem múslimar hafi orðið fyrir í heimabæ hans, [...], af hendi hóp kristinna einstaklinga. Heimili þeirra og moska hafi verið brennd. Þá hafi faðir kæranda verið myrtur. Kærandi og fleiri í bænum hafi lagt á flótta og farið í felur í fjalllendi, en einhverjir sem eftir urðu hafi verið haldið nauðugum og verið þvingaðir til að ganga um bæinn naktir. Kærandi hafi yfirgefið fjalllendið til að finna mat fyrir sig og fjölskyldu sína en hann hafi ekki séð þau síðan árið 2014. Kærandi hafi ekki leitað aðstoðar yfirvalda í heimaríki þar sem honum hafi ekki verið kunnugt um hvernig hann gæti haft samband við þau.

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður og ástand mannréttindamála í Gíneu með vísan til skýrslna alþjóðlegra stofnana og mannréttindasamtaka. Meðal helstu vandamála á sviði mannréttinda í Gíneu séu handahófskenndar handtökur og óhófleg valdbeiting af hálfu öryggissveita landsins, takmarkanir á tjáningar- og fjölmiðlafrelsi og nauðungarvinna barna. Þá séu handahófskenndar árásir almennings (e. mob violence) þekkt vandamál í Gíneu, m.a. vegna vantrausts almennings á refsivörslukerfinu.

Þess er krafist að endurmat fari fram á aldri kæranda. Til stuðnings þeirri kröfu vísar kærandi til umfjöllunar í greinargerð til Útlendingastofnunar, dags. 10. mars 2020, um ónákvæmni röntgenrannsókna á tönnum til ákvörðunar um aldur. Kærandi telur ljóst að vafi leiki á um aldur hans og að sá vafi skuli túlkaður honum í hag. Fram kemur í greinargerð að gengið sé út frá því í umfjöllun um aðstæður kæranda að hann sé fæddur árið 2003.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur ljóst að hann uppfylli skilyrði fyrri hluta 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, verði hann sendur aftur til heimaríkis. Kærandi óttist hóp kristinna einstaklinga í heimaríki sem vilji skaða múslima. Faðir kæranda hafi verið myrtur og árásarmennirnir hafi brennt fólk, hús og mosku bæjarins. Þá hafi kærandi orðið fyrir hrottalegu ofbeldi og átt við ramman reip að draga í fjallendi. Kærandi telur að fyrirliggjandi heimildir um handahófskenndar árásir almennings í Gíneu kunni að styðja við frásögn hans af framangreindri árás og skort á lögregluvernd.

Kærandi telur að með endursendingu hans til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingu (non-refoulement), sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun muni brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Varakrafa kæranda er byggð á því að hagsmunir hans og afar erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki mæli eindregið með því að honum verði veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi sé fæddur árið 2003 og hafi komið hingað til lands án fylgdar foreldris eða forráðamanns. Hafi hann því sannarlega verið fylgdarlaust barn við komu til landsins, sbr. 11. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, og einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu skv. 6. tl. sömu greinar. Taka þurfi sérstakt tillit til þess við meðferð málsins og við mat á því hvort rík þörf sé á vernd í tilviki kæranda. Eins og að framan greinir hafi kærandi misst föður sinn og lagt einn á flótta frá heimaríki eftir erfiða lífsbaráttu í fjallendi. Kærandi hafi ekki verið í samskiptum við móður sína um árabil og eigi hann því ekki í nein hús að venda í heimaríki. Með hliðsjón af stöðu kæranda, sem fylgdarlaust barn á flótta, yrði honum aukin hætta búin á því að verða fyrir ofbeldi og misneytingu á götum úti. Þá geti hann ekki, með vísan til heimilda um aðstæður í heimaríki, reitt sig á vernd yfirvalda þar í landi. Auk þess telur kærandi að líta verði til þess hvaða áhrif Covid-19 veiran hafi haft og það ástand sem hún hafi skapað á stöðu hans í heimaríki. Í ljósi framangreinds telur kærandi að skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt og beri því að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

V.         Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn til að sanna á sér deili og leysti stofnunin því úr auðkenni kæranda á grundvelli trúverðugleikamats. Að mati Útlendingastofnunar þótti ekki ástæða til að vefengja að kærandi væri ríkisborgari Gíneu og var það því lagt til grundvallar við úrlausn málsins. Kærunefnd hefur ekki forsendur til að draga í efa það mat Útlendingastofnunar og er því lagt til grundvallar að kærandi sé ríkisborgari Gíneu. Að öðru leyti sé auðkenni hans óljóst.

Aldursgreining                                                                          

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að Útlendingastofnun hafi undir höndum fjölda fæðingardaga sem kærandi hafi veitt bæði íslenskum og erlendum stjórnvöldum. Þegar kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 16. nóvember 2019 hafi hann gefið upp fæðingardaginn [...]. Fimm dögum síðar, í þjónustuviðtali hjá móttökuteymi Útlendingastofnunar, hafi hann gefið upp fæðingardaginn [...]. Þá hafi kærandi, í viðtali hinn 12. mars 2020, borið því við að hann væri fæddur […]. Í upplýsingum frá Ítalíu, Þýskalandi og Portúgal komi fram að kærandi hafi greint frá því að vera fæddur […], […] og […]. Þá sé hann þekktur í þeim löndum sem [...] eða [...]. Enn fremur hafi kærandi, í viðtali hinn 20. nóvember 2020, greint frá því að hann hafi verið […] ára að aldri þegar hann yfirgefið heimaríki sitt árið 2014 og svarað því játandi hvort hann væri fæddur árið […]. Í yfirlestri viðtalsins hafi kærandi hins vegar breytt framburði sínum á þá leið að hann væri fæddur árið […]. 

Kærandi undirgekkst aldursgreiningu á göngudeild Tannlækningardeildar Háskóla Íslands hinn 10. janúar 2020 sem fólst í rannsókn tannfræðilegra gagna. Í aldursgreiningarskýrslu kemur fram að það sé mat þeirra tannlækna sem hana skrifa að kærandi sé eldri en 18 ára. Tekið er fram að niðurstaðan af aldursgreiningu sé byggð á sameiginlegu mati á sjúkrasögu, klínískri skoðun, aldursútreikningum og mati á röntgenmyndum. Þá er athygli vakin að því að þroskaviðmiðum sé lokið og að þau breytist ekki síðar á ævinni. Af aldursgreiningarskýrslunni má sjá að fjórar aðferðir hafa verið notaðar til þess að komast að niðurstöðu um aldur kæranda. Samkvæmt fyrstu aðferðinni sé aldur kæranda að minnsta kosti […] ár og staðalfrávik 1,0 ár. Samkvæmt annarri aðferðinni sé aldur kæranda að minnsta kosti […] ár og staðalfrávik 1,0 ár. Samkvæmt þriðju aðferðinni sé aldur kæranda að minnsta kosti […] ár og staðalfrávik 2,09 ár. Samkvæmt fjórðu aðferðinni geti aldur kæranda verið […] ár. Þá er tekið fram að þroskaferli allra endajaxla sé lokið með lokun rótarenda og sé aldur metinn af aðstæðum í munni eldri en 18 ára.

Í greinargerð, dags. 10. mars 2020, gerði kærandi athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar um aldur kæranda, en kærandi taldi að leggja hefði átt til grundvallar við meðferð málsins að hann væri fæddur […]. Í tölvubréfi til Útlendingastofnunar, dags. 11. mars 2020, var uppgefinn fæðingardagur hins vegar leiðréttur og því haldið fram að kærandi væri fæddur í […]. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hinn 12. mars 2020 var kæranda greint frá niðurstöðum aldursgreiningarinnar og honum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum og andmælum. Kærandi kvaðst vera fæddur [...]. Aðspurður kvaðst kærandi ekki hafa greint yfirvöldum á Ítalíu að hann væri fæddur […] eða yfirvöldum í  Þýskalandi frá að hann væri fæddur […]. Þá kvað kærandi yfirvöld í Portúgal hafa skráð fæðingardag hans sem […] í samræmi við það sem kæmi fram á fæðingarvottorðinu hans. Aðspurður hvort hann gæti framvísað einhverjum gögnum sem styddu frásögn hans um að hann væri yngri en 18 ára kvað kærandi að fyrrnefnt fæðingarvottorð væri því til sönnunar. Hins vegar gæti hann ekki framvísað vottorðinu þar sem það væri of mikið vesen fyrir móður hans í Gíneu að senda það. Þá gæti hún ekki sent honum afrit af vottorðinu þar sem hún ætti bara takkasíma. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda í viðtalinu að lagt yrði til grundvallar í málinu að hann væri fullorðinn.

Í 1. mgr. 113. gr. laga um útlendinga er tekið fram að niðurstaða úr líkamsrannsókn til þess að ákvarða aldur útlendings skuli metin í samhengi við önnur atriði málsins og vafi metinn umsækjanda í hag. Þá kemur m.a. fram í 39. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 að við ákvörðun á aldri skuli fara fram heildstætt mat á aðstæðum einstaklings og frásagnar hans af ævi sinni.

Með tölvubréfi, dags. 8. mars 2021, barst kærunefnd svar frá talsmanni kæranda vegna fyrirspurnar nefndarinnar um Facebook reikning kæranda sem sé undir því nafni sem hann hafi gefið upp þegar hann hafi sótt um alþjóðlega vernd á Ítalíu, Portúgal og Þýskalandi. Í svari talsmanns kæranda kom fram að rétt nafn kæranda væri [...]og að fæðingardagur hans væri [...]. Kærandi hafi gefið upp rangt nafn og fæðingardag hér á landi af ótta við að vera sendur aftur til Portúgal og verða fangelsaður þar í landi að nýju.

Kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem sýna fram á aldur hans. Þá hefur hann verið margsaga um aldur sinn, bæði hér á Íslandi og hjá erlendum stjórnvöldum, en á Ítalíu og Þýskalandi er kærandi til að mynda skráður með fæðingarárið […].

Kærunefnd hefur farið yfir öll gögn málsins er lúta að aldri kæranda. Er það mat nefndarinnar að ekki sé ástæða til að gera athugasemd við mat Útlendingastofnunar á aldri kæranda. Kærunefnd fær ekki séð, með vísan til framangreinds og allra gagna málsins, að vafi leiki á því að kærandi hafi verið eldri en 18 ára þegar hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi, enda hefur kærandi ekki lagt fram haldbær gögn eða skýringar sem hnekki því mati. Verður því lagt til grundvallar við úrlausn málsins mat Útlendingastofnunar á aldri kæranda.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Gíneu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • BTI 2020 Country Report – Guinea (Bertelsmann Stiftung, 2020);
  • Country Cooperation Strategy at a glance: Guinea (World Health Organization, maí 2015);
  • Freedom in the World – Guinea (Freedom House, 4. mars 2020);
  • Guinea 2019 Crime & Safety Report (OSAC, 3. apríl 2019);
  • Mental Health and Psychosocial Support in Guinea-Conakry (International Medical Corps, desember 2015);
  • Human Rights in Africa: Review of 2019 – Guinea (Amnesty International, 8. apríl 2020);
  • Situation of human rights in Guinea (United Nations High Commissioner for Human Rights, 17. janúar 2017);
  • The World Factbook – Guinea (CIA, uppfært 9. mars 2021);
  • World Directory of Minorities and Indigenous Peoples – Guinea (Minority Rights Group International, janúar 2018);
  • World Report 2021: Guinea (Human Rights Watch, 13. janúar 2021);
  • Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (https://coronavirus.jhu.edu/map.html, sótt 22. mars 2021);
  • 2019 Country Report on Human Rights Practices: Guinea (U.S. Department of State, 11. mars 2020) og
  • 2019 Report on International Religious Freedom: Guinea (U.S. Department of State, 10. júní 2020);

Gínea er stjórnarskrárbundið lýðveldi með um 13 milljónir íbúa. Gínea var nýlenda Frakklands fram að sjálfstæði þess árið 1958 og sama ár gerðist ríkið aðili að Sameinuðu þjóðunum. Árið 1989 gerðist ríkið aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þá gerðist ríkið aðili að alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1978 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2013.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2019, um ástand mannréttindamála í Gíneu, kemur m.a. fram að helstu mannréttindabrot í ríkinu snúi að óhóflegri valdbeitingu fulltrúa yfirvalda gegn almennum borgurum, pyndingum til að ná fram játningum, handahófskenndum handtökum og spillingu á öllum stigum ríkisvalds. Refsileysi meðal opinberra starfsmanna sé vandamál en yfirvöld hafi gripið til aðgerða í þeim tilgangi að lögsækja og sakfella embættismenn sem brotið hafi af sér. Þá kemur fram að varnarmálaráðuneyti Gíneu hafi eftirlit með liði herþjálfaðra lögreglumanna (e. gendarmerie) og öryggismálaráðuneyti ríkisins hafi eftirlit með ríkislögreglunni. Bæði lögregluembættin fari með það hlutverk að tryggja almennt öryggi innanlands. Her landsins beri ábyrgð á öryggi ríkisins út á við en fari jafnframt með ákveðnar skyldur innanlands. Þá hafi yfirvöld viðhaldið góðri stjórn á öryggissveitum landsins.

Samkvæmt framangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins mælir stjórnarskrá Gíneu fyrir um sjálfstæði dómstóla. Þó sé mikil spilling innan dómsvaldsins sem einkennist helst af frændhygli sem takmarki skilvirkni dómsvaldsins. Þá sé skortur á fjármagni og hæfum lögfræðingum, auk þess sem refsilöggjöf ríkisins sé úrelt. Oft hafi dómsúrskurðum jafnframt ekki verið framfylgt af yfirvöldum. Íbúar treysti margir hverjir á gamalgróið dómskerfi innan síns þorps eða hverfis. Skilin á milli hins formlega og óformlega dómsvalds í ríkinu séu óljós og í sumum tilvikum hafi yfirvöld vísað málum frá hinu formlega dómsvaldi til hins óformlega dómskerfis. Að sama skapi geti málsaðilar leitað réttar síns innan formlega dómsvaldsins sé mál þeirra ekki leyst innan hins óformlega dómskerfis.

Í framangreindum skýrslum, þ. á m. skýrslum BTI og bandaríska utanríkisráðuneytisins um trúfrelsi frá 2020, kemur fram að meginþorri landsmanna í Gíneu séu múslimar, eða um 85 % þjóðarinnar. Múslimar séu í miklum meirihluta í öllum fjórum héruðum (e. region) landsins. Kristnir séu um 8 % af þjóðinni og búi aðallega í stórum borgum, þ. á m. Conakry, höfuðborg landsins. Stjórnarskrá Gíneu leggi bann við mismunun á grundvelli trúarbragða og kveði á um að þegnum landsins sé frjálst að ákveða hverrar trúar þeir séu. Þá kveði landslög á um að skrifstofa trúarmála (e. The Secretariat General of Religious Affairs – SRA) skuli samþykkja umsóknir allra trúarhópa sem hafi verið greitt fyrir og séu rétt útfylltar. 

Samkvæmt The World Factbook og skýrslu Minority Rights Group International er Fulani þjóðarbrotið (Peuhl) fjölmennasta þjóðarbrot Gíneu, eða tæplega 34 % af íbúum landsins. Stjórn landsins hafi aldrei verið í höndum einstaklings af þjóðarbroti Fulani, en þjóðarbrotið hafi átt fulltrúa á öðrum stigum stjórnkerfisins. Þá sé þjóðarbrotið ráðandi á Fouta Djallon svæðinu og hafi önnur fámennari þjóðarbrot á því svæði verið undirokuð af Fulani.

Í skýrslu alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (e. World Health Organization, WHO) kemur fram að heilbrigðiskerfið í Gíneu hafi tekið miklum breytingum frá árinu 1984. Yfirvöld hafi þá, í samstarfi með WHO og alþjóðabankanum, hafið umfangsmikla umbótavinna á heilbrigðiskerfi landsins. Langtíma aðgerðaráætlun hafi verið tilkynnt árið 2014 (e. National Health Development Plan for the period 2015-2024) sem tryggja eigi að allir ríkisborgarar landsins hafi aðgang að fullnægjandi heilbrigðisþjónustu. Þá kemur fram í skýrslu International Medical Corps frá 2015 að þungamiðja heilbrigðiskerfisins í Gíneu sé fyrsta stigs heilbrigðisþjónusta. Algengustu umönnunarúrræði utan höfuðborgar landsins séu heilsugæslustöðvar í dreifbýlum og geti um 90 % landsmanna nálgast heilbrigðisþjónustu sem þar sé veitt.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi kveðst hafa yfirgefið Gíneu vegna slæmrar meðferðar sem aðrir múslimar hafi orðið fyrir í heimabæ hans, [...], af hendi hóp kristinna einstaklinga. Hópurinn hafi myrt föður kæranda og brennt fólk, heimili þeirra og mosku bæjarins. Kærandi kvað að kristnir einstaklingar væru í meirihluta í Gíneu. Þá kvaðst kærandi ekki hafa leitað aðstoðar yfirvalda í heimaríki þar sem honum hafi ekki verið kunnugt um hvernig hann gæti haft samband við þau.

Kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem styðja við frásögn hans af þeim atvikum sem hann hefur lagt til grundvallar umsókn sinni um alþjóðlega vernd. Í ljósi frásagnar kæranda sjálfs um að hann hafi yfirgefið heimaríki árið 2014 vegna framangreindra atburða er að mati kærunefndar ekki ósanngjarnt að gera kröfu um að kærandi leggi fram einhver gögn er leggi grunn að málsástæðum hans.

Þá var frásögn kæranda í viðtölum hjá Útlendingastofnun óskýr og í ósamræmi við upplýsingar um aðstæður í Gíneu, einkum hvað varðar skiptingu trúarbragða. Líkt og að framan er rakið bera heimildir með sér að meginþorri íbúa í Gíneu, eða um 85%, aðhyllist íslamstrú, og að um 8% íbúa séu kristinnar trúar. Þá gefa þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér ekki til kynna að múslimar í […] eða öðrum landshlutum Gíneu hafi orðið fyrir, eða eigi á hættu, árásir eða meðferð af hendi minnihlutahóp kristinna einstaklinga vegna trúarskoðana þeirra sem nái því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mæli fyrir um. Auk þess var verulegt innra og ytra misræmi í frásögn kæranda um atriði sem hann ætti að geta verið staðfastur um. Til að mynda um aldur hans, líkt og að framan er rakið, hvenær hann hafi yfirgefið heimaríki og um fjölskylduhagi, þ. á m. hversu mörg systkini hann eigi, aldur þeirra og hvenær hann hafi síðast átt í samskiptum við fjölskyldu sína. 

Með hliðsjón af framangreindu er það mat kærunefndar að frásögn kæranda af málsatvikum sem hann kveður að leitt hafi til flótta hans frá heimaríki sé, heildstætt metið, ótrúverðug og verður hún því ekki lögð til grundvallar í málinu. Samkvæmt framansögðu verður því ekki unnt að leggja til grundvallar í málinu að kærandi eigi á hættu ofsóknir af hendi kristinna einstaklinga í heimaríki vegna trúarskoðana sinna. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi ástæðu til að óttast ofsóknir í heimaríki hans af öðrum ástæðum.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 4. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. jafnframt 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlending

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í greinargerð kæranda er því haldið fram að hagsmunir hans og afar erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki mæli eindregið með því að honum verði veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Við mat á því hvort rík þörf sé á vernd í tilviki kæranda beri m.a. að líta til þess að hann sé fylgdarlaust barn og geti ekki reitt sig á aðstoð umönnunaraðila í heimaríki.

Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli.

Samkvæmt skýringum kæranda til kærunefndar, dags. 8. mars 2021, sagði hann ósatt um aldur og auðkenni við meðferð máls hans hjá Útlendingastofnun. Ber kærandi því nú við að hann sé […] og sé því […] ára að aldri. Líkt og að framan er rakið leggur kærunefnd til grundvallar, með vísan til niðurstöðu framangreinds trúverðugleikamats og aldursgreiningar, að kærandi sé fullorðinn einstaklingur. Sem slíkur verður ekki talið að hann þurfi að reiða sig á umönnunaraðila í heimaríki. Þá hefur kærandi ekki sýnt fram á að aðstæður hans í heimaríki séu, að öðru leyti, erfiðar í skilningi ákvæðisins. Með vísan til framangreinds telur kærunefnd að félagslegar aðstæður kæranda við endurkomu til heimaríkis séu ekki slíkar að þær geti talist erfiðar í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi glíma við magavandamál. Samkvæmt framlögðum heilsufarsgögnum leitaðist kærandi síðast eftir heilbrigðisþjónustu hér á landi hinn 18. febrúar 2020. Af framlögðum gögnum verður ekki ráðið að kærandi glími við skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm eða sé í meðferð sem óforsvaranlegt sé að rjúfa. Þá verður ekki annað ráðið af gögnum um heimaríki kæranda en að hann hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu þar í landi.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, en við mat á því hefur kærunefnd litið til ungs aldurs kæranda. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration in the case of the appellant is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                                    Sindri M. Stephensen

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum