Hoppa yfir valmynd
5. maí 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar komið á fót

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, flytur ávarp á ársfundi Veðurstofu Íslands.  - myndVeðurstofan

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra greindi frá því á ársfundi Veðurstofu Íslands, sem haldinn var í dag, að komið verði á fót nýrri skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands. Skrifstofan, hefur mjög mikilvægu hlutverki að gegna en henni er ætlað að vera vettvangur til að styðja við stefnu stjórnvalda um aðlögun vegna loftslagsbreytinga sem nú er í smíðum og ákvarðanatöku varðandi aðlögun. Skrifstofan mun þjónusta brýn verkefni á sviði aðlögunar, vinna sviðsmyndir að loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra, auk vöktunar á afleiðingum.

Atburðir undanfarinna missera hafa leitt í ljós hversu viðkvæmt samfélagið er fyrir náttúruvá og að þegar slæmar sviðsmyndir ganga eftir, líkt og gerðist í aurflóðunum á Seyðisfirði nú í haust, þá skipta innviðir, stofnanaumgjörð og undirbúningur lykilmáli. Loftslagsbreytingar eru náttúruvá og þeim fylgja margháttaðar áskoranir og ljóst er að um langt skeið verður þörf á vöktun á umfangi þeirra og víðtækri aðlögun að áhrifum þeirra. Ef samfélagið mætir þessum áskorunum á skipulegan hátt má draga úr því tjóni sem loftslagsbreytingar valda, og nýta þjóðinni til hagsbóta þær breytingar sem gefa tilefni til slíks.

„Með stofnun þessa vettvangs er ætlunin að tryggja aðgengi allra þeirra sem þurfa að taka ákvarðanir eða skipuleggja aðlögunaraðgerðir að haldgóðum upplýsingum um mögulega þróun áhrifa loftslagsbreytinga,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Aðlögun felur í sér að huga að ótal afleiddum samfélagslegum áhrifum og margskonar mögulegu tjóni. En aðgerðir til aðlögunar geta líka búið til ný störf og ef rétt er á málum haldið eiga þær að skapa okkur sterkari innviði og loftslagsþolnara samfélag en ella, þar sem áhætta á samfélagslegum skaða vegna áhrifa loftslagsbreytinga er lágmörkuð.“

Skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar verður samstarfsvettvangur háskólasamfélagsins, Rannís, fagstofnana og hagaðila. Veðurstofan, Hafrannsóknastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Skipulagsstofnun eru þær fagstofnanir sem hafa hvað skýrast hlutverk þegar kemur að aðlögun vegna loftslagsbreytinga og er það byggt á niðurstöðum Loftslagsskýrslunnar frá 2018. Hjá þessum aðilum starfar fólk sem sinnir vöktun og rannsóknum vegna áhrifa loftslagsbreytinga. Framlag þeirra mun mynda grunninn að þeim rannsóknum, mælingum, fróðleik og öðrum gögnum sem skrifstofan mun nýta til að sinna hlutverki sínu. Auk þess mun skrifstofan sinna samstarfi við alþjóðastofnanir á sviði aðlögunar og miðlun um áhrif loftslagsbreytinga til hagsmunaaðila og almennings.

  • Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, ásamt þátttakendum í pallborðsumræðum. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum