Hoppa yfir valmynd
12. mars 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 93/2020 Úrskurður

 

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 12. mars 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 93/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20020046

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.          Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 14/2020, dags. 16. janúar 2020, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. september 2019, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu.

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 9. ágúst 2019. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 20. janúar 2020. Þann 27. janúar 2020 lagði kærandi fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað þann 7. febrúar 2020. Þann 21. febrúar 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku máls hans ásamt greinargerð. Þá bárust frekari gögn þann 5. mars 2020.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir á því að ákvörðun í máli hans hafi verið byggð á ófullnægjandi og röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurður kærunefndar útlendingamála nr. 14/2020 byggi á þeirri forsendu að kærandi sé umsækjandi um alþjóðlega vernd á Ítalíu og hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að staðfesta bæri ákvörðun Útlendingastofnunar um að vísa bæri kæranda úr landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til fylgiskjals með beiðni sinni um endurupptöku, en um sé að ræða dvalarleyfisskírteini sem sýni að hann sé með alþjóðlega vernd á Ítalíu og sé ákvörðun Útlendingastofnunar því ekki byggð á réttu lagaákvæði. Því sé ljóst að ákvörðun Útlendingastofnunar sé í andstöðu við lögmætisreglu og sé því ógildanleg. Stjórnvöldum beri skylda til að byggja allar sínar ákvarðanir á fullnægjandi lagagrundvelli og sé sú krafa skilyrðislaus og skýr. Í máli kæranda hafi stjórnvöld ekki byggt ákvörðun sína á viðeigandi réttarheimildum og teljist málsmeðferðin gölluð að því leyti, óháð þeim aðstæðum sem kunni að liggja að baki. Sé það jafnframt til marks um brot á rannsóknarreglunni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Hefði málið verið rannsakað með fullnægjandi hætti hefðu stjórnvöld komist að annarri niðurstöðu.

Kærandi byggir jafnframt á því að aðstæður hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin í máli hans, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Í viðbótargögnum sem bárust kærunefnd, dags. 5. mars 2020, kemur fram að í úrskurði kærunefndar sé lagt mat á þáverandi aðstæður á Ítalíu. Ítalía hafi nú verið lýst sem hættusvæði vegna COVID-19 veirunnar og hafi almannavarnadeild ríkislögreglustjóra lýst yfir hættuástandi og varað við ferðum til Ítalíu. Ljóst sé að aðstæður á Ítalíu séu nú breyttar frá því að kærunefnd tók ákvörðun í málinu og mat kærunefndar á aðstæðum á Ítalíu eigi því ekki lengur við. Endursending til Ítalíu sé ekki lengur tæk niðurstaða og þess krafist að mál kæranda verði endurupptekið.

Með hliðsjón af lögmætisreglu og rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, hagsmunum þeim sem í húfi séu í málinu og hvernig þessar upplýsingar kunni að breyta niðurstöðu málsins sé ljóst að fullt tilefni sé til endurupptöku málsins.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 16. janúar 2020. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að heimilt væri að krefja ítölsk yfirvöld um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Ítölsk yfirvöld höfðu ekki svarað beiðni um endurviðtöku innan tilskilins frests og því væri ábyrgð Ítalíu á umsókn kæranda byggð á 7. mgr. 22. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þá var það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið að nærtækast væri að hann fái hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Til stuðnings beiðni um endurupptöku lagði kærandi fram afrit af dvalarleyfisskírteini frá Ítalíu, með gildistíma til 23. október 2019. Um er að ræða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða (í. motivi umanitari) og því ekki hægt að fallast á með kæranda að skjalið sýni að hann sé með alþjóðlega vernd á Ítalíu, líkt og haldið er fram í beiðni hans um endurupptöku.

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að taka umsókn um alþjóðlega vernd ekki til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin), sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014. Líkt og áður hefur komið fram lagði kærandi fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 9. ágúst 2019. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum á Ítalíu. Þann 15. ágúst 2019 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda á Ítalíu, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þar sem ekki barst svar innan tilskilins tímafrests litu íslensk stjórnvöld svo á að ítölsk stjórnvöld hefðu samþykkt viðtöku, sbr. 7. mgr. 22. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, og sendi Útlendingastofnun ítölskum yfirvöldum bréf þess efnis, dags. 5. september 2019. Á grundvelli þessarar málsmeðferðar taldi kærunefnd ljóst að ítölsk stjórnvöld bæru ábyrgð á afgreiðslu umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar.

Kærunefnd telur ljóst að hið nýja gagn breyti ekki lagagrundvelli ákvörðunar Útlendingastofnunar og úrskurðar kærunefndar, enda hefur kærandi fengið útgefið dvalarleyfi þar í landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, eins og fram kemur á dvalarleyfisskírteini því sem kærandi lagði fram með endurupptökubeiðni sinni, en ekki dvalarleyfi á grundvelli þess að honum hafi verið veitt alþjóðleg vernd þar í landi. Þrátt fyrir að nú sé ljóst að kærandi hafi fengið útgefið dvalarleyfi á Ítalíu telur nefndin að heimilt hafi verið að krefja Ítalíu um að taka við kæranda á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Ítölsk stjórnvöld bera þá enn ábyrgð á afgreiðslu umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar.

Kærunefnd bendir til hliðsjónar á að í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Í 12. gr. reglugerðarinnar er fjallað um útgáfu dvalarskjala. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að sé umsækjandi handhafi gilds dvalarleyfis skuli aðildarríkið, sem gaf út skjalið, bera ábyrgð á meðferð umsóknar hans um alþjóðlega vernd. Þá kemur fram í 4. mgr. sömu greinar að sé umsækjandi handhafi dvalarleyfis, sem hefur runnið út á síðustu tveimur árum, gildir 1. mgr. um þann tíma sem umsækjandi hefur ekki yfirgefið yfirráðasvæði aðildarríkjanna.

Kærandi byggir jafnframt á því að aðstæður hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin í máli hans, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, vegna þeirra aðstæðna sem nú séu á Ítalíu í ljósi útbreiðslu COVID-19 veirunnar. Lagt var til grundvallar í úrskurði nefndarinnar nr. 14/2020 að kærandi eigi sama rétt til lögboðinnar heilbrigðisþjónustu og ítalskir ríkisborgarar, og vísar kærunefnd til umfjöllunar um heilbrigðisþjónustu í fyrri úrskurði sínum. Kærandi hefur ekki lagt fram nein ný gögn með beiðni sinni. Er það mat kærunefndar að þær málsástæður sem hafi verið lagðar fram varðandi aðstæður á Ítalíu með hliðsjón af útbreiðslu veirunnar séu ekki þess eðlis að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að úrskurður í máli kæranda var kveðinn upp. Þá er rétt að árétta að skv. 7. mgr. 104. gr. laga um útlendinga annast lögregla og Útlendingastofnun framkvæmd ákvarðana um frávísun og brottvísun. Útlendingastofnun er þá heimilt, skv. 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga, að fresta um hæfilegan tíma framkvæmd ákvörðunar sem felur í sér að útlendingur skuli yfirgefa landið ef það telst nauðsynlegt vegna sérstakra aðstæðna hans eða ómögulegt er að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

Í ljósi framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála nr. 14/2020 frá 16. janúar 2020, hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp, sbr. 1.og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.


 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda er hafnað.

 

The request of the appellant is denied.

 

 

 

 

Áslaug Magnúsdóttir

 

 

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                              Bjarnveig Eiríksdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum