Hoppa yfir valmynd
21. maí 2010 Utanríkisráðuneytið

Markaðsátak ferðaþjónustunnar: Inspired by Iceland

Vegna öskufalls frá eldgosinu í Eyjafjallajökli og vandamála í alþjóðlegum flugsamgöngum er uppi alvarleg staða í íslenskri ferðaþjónustu. Komum ferðamanna til landsins fækkaði um 22% í apríl og haldi fram sem horfir gæti erlendum ferðamönnum fækkað um meira en 100 þúsund á þessu ári miðað við í fyrra. Það hefði í för með sér tugmilljarða króna lækkun gjaldeyristekna miðað við það sem áætlanir hafa gert ráð fyrir.

Til þess að bregðast við þessu fordæmislausa ástandi hefur iðnaðarráðuneytið í samstarfi við Icelandair, Reykjavíkurborg, Iceland Express, Útflutningsráð og Samtök ferðaþjónustunnar (um 70 fyrirtæki)  ákveðið að ráðast í snarpt markaðsátak í maí og júní 2010. Þá hafa markaðsstofur landshlutanna einnig lagt átakinu lið. Framlag til átaksins nemur alls 700 millj. kr. Framkvæmdanefnd með fulltrúum þessara aðila stýrir átakinu.

Ítarleg framkvæmdaáætlun liggur nú fyrir og gerðar hafa verið birtingaráætlarnir á helstu markaðssvæðum íslenskrar ferðaþjónustu í samstarfi við sérstaka verkefnisstjórn sem heyrir undir framkvæmdanefndina.

Útflutningsráð mun hafa umsjón með fjárreiðum átaksins og nýtur við það fulltingis Skrifstofu rannsóknastofnana atvinnuveganna (SRA). Í þessu felst m.a innheimta framlaga samningsaðila, bókhald fyrir verkefnið og greiðsla reikninga vegna kostnaðar við verkefnið. Útflutningsráð skilar fjárhagslegu lokauppgjöri vegna verkefnsins til annarra samningsaðila 1. ágúst 2010.

Áfangastaðurinn Ísland

Markaðsátakið ber heitið Inspired by Iceland og er hið stærsta sem efnt hefur verið til á þessu sviði.  Áherslur átaksins snúa að Íslandi sem ferðamannastað og öllu því sem það hefur upp á bjóða s.s. menningu, náttúru, mat, afþreyingu og vellíðan. Engin fyrirtæki verða sérstaklega kynnt heldur er áherslan á áfangastaðinn ÍSLAND.


Markmið átaksins eru:

  • draga úr neikvæðum áhrifum á trausta markaði sem tekið hefur langan tíma að byggja upp
  • styrkja ímynd Íslands og skapa tækifæri úr þeirri umfjöllun sem landið hefur fengið á erlendum vettvangi
  • kynna landið í heild svo ferðaþjónustufyrirtæki um land allt njóti góðs af því
  • hvetja til bókana strax svo unnt verði að lágmarka tjónið á núverandi ferðamannatímabili.

Í myndefninu er síðan vísað til þess að lífið gangi sinn vanagang; fólk fari á fjöll og hafi
það notalegt sem fyrr – hingað sé margt að sækja.

Markaðsátakið Inspired by Iceland byggir á því að allir sem hafa taugar til Íslands fái tækifæri til að leggja lóð sitt á vogarskálarnar, bæði Íslendingar og þeir sem hafa heimsótt landið eða dreymir um að sækja það heim. Með því að nota þau samskiptanet sem til eru og hvetja til þess að fólk nýti þau til að koma skilaboðum um Ísland á framfæri er hægt að snúa vörn í sókn: Þannig er sú athygli sem Ísland hefur fengið á undanförnum vikum nýtt til að kynna kraftinn í stórbrotinni náttúru okkar.

Vefsíða með sögum

Átakið skiptist í nokkra hluta. Annars vegar er um að ræða prentauglýsingar, útvarpsauglýsingar, útimiðla og vefborða. Hins vegar er mikil áhersla lögð á að nýta samskiptaleiðir eins og Facebook, Twitter og fleiri leiðir sem einstaklingar og fyrirtæki hafa byggt upp.

Bakgrunnurinn  í allri herferðinni er síðan vefsíðan  InspiredByIceland.com og vísa allar auglýsingar inn á hana. Þangað getur fólk sótt allar helstu upplýsingar um Ísland, en ekki síst er takmarkið að nýta hana til að fólk geti sett þar inn eigið efni þar sem  það lýsir Íslandi og hvaða máli það skiptir fyrir það. Auk sjálfsprottinna framlaga verður þar einnig efni sem unnið er sérstaklega fyrir vefinn og sýnir viðhorf þekktra vina Íslands til landsins.

Nú þegar er á www.inspiredbyiceland.com frásögn Viggo Mortensen af upplifun sinni af Íslandi, David Byrne bloggar um landið á síðu sinni journal.davidbyrne.com, Stephen Fry skrifaði á Twitter: Despite what you might think, Iceland is as alive and charming as ever og vísar á Facebooksíðuna Inspired by Iceland.  Simon Calder ritstjóri ferðablaðs Independent segir á inspiredbyiceland.com að aldrei hafi verið betri tími til að koma til Íslands og Eric Clapton segir frá kynnum sínum af Íslandi á inspiredbyiceland innan skamms. Áfram er unnið að því að fá fleiri til að taka þátt. Þessi myndbönd og textar munu verða áberandi á www.inspiredbyiceland.com til að draga athyglina að síðunni. Meginuppistaðan verða svo myndbönd og efni frá aðdáendum Íslands, íslenskum sem erlendum.

Stefnt er að því að halda útitónleika fyrri hluta júnímánaðar á Suðurlandi og senda þá beint út á vefnum.

Þjóðarátak og myndbandssending

Þann 3. júní verður stór stund þegar efnt verður til þjóðarátaks.  Ætlunin er að senda fólki um allan heim skilaboð um að aldrei hafi verið betri tími til að heimsækja landið. Það verður væntanlega undirbúið deginum áður með sérstökum sjónvarpsþætti. Í framleiðslu er sérstakt myndband sem þátttakendur í þjóðarátakinu geta sent vinum,kunningjum og samstarfsfólki erlendis. Þá verður gerð heimildamynd um þjóðarátakið. Með  þessum gjörningi er undirstrikað mikilvægi þess að allir taki þátt og sýni samtakamátt íslensku þjóðarinnar.

Ísland í vefmyndavél

Vefsíðan http://www.inspiredbyiceland.comer nú þegar komin í gang en þann 27. maí mun hún verða fullbúin. Þá getur fólk farið inn á síðuna, séð Ísland í gegnum vefmyndavélar sem  komið er fyrir á þekktum ferðamannastöðum, sett myndbönd, myndir og texta á síðuna, fengið upplýsingar um Ísland, hlustað á tónlist frá Íslandi og svo má áfram telja. Þangað til getur fólk hlaðið efni inn á Facebook síðu herferðarinnar: www.facebook.com/inspiredbyiceland.

Kynningarfundir og blaðamannaheimsóknir

Haldnir verða kynningarfundir á helstu markaðssvæðum í næstu viku. Fundirnir verða fyrir blaðamenn og ferðaþjónustuaðila í Mílanó, Barcelona, Frankfurt, París, Amsterdam, Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og í Osló. Á fundunum munu sendiherrar Íslands á viðkomandi stöðum, jarðfræðingar og fulltrúar íslenskrar ferðaþjónustu lýsa Íslandi sem áningarstað ferðafólks í sumar.

Sérstök áhersla verður lögð á að fá hingað  blaðamenn til þess að skrifa um Ísland sem áfangastað svo og á heimsóknir fólks á vegum ferðaheildsala til þess að kynna sér ástand mála á landinu af eigin raun.

Allt efni sem verður til í markaðsátakinu er aðgengilegt á netinu og geta fyrirtæki og einstaklingar í ferðaþjónustu nýtt sér það.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum