Hoppa yfir valmynd
11. maí 2016 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra ávarpar öryggisráð SÞ

Lilja Alfreðsdóttir ávarpar öryggisráðið. - mynd

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra ávarpaði í dag öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, en haldinn var opinn fundur í ráðinu um öfgahyggju og hryðjuverk. Í máli sínu lagði ráðherra áherslu á samvinnu og heildstæða nálgun í baráttunni gegn öfgaöflum. Sagði ráðherra engar einfaldar lausnir í boði, en mikilvægt væri að ráðast að rótum vandans. „Ég benti ennfremur sérstaklega á samfélagsmiðla sem hryðjuverkasamtök á borð við ISIL notast við, en Youtube hefur t.a.m. lokað 14 milljón myndbanda á síðustu tveimur árum og Twitter lokað fyrir rúmlega 2000 áskrifta á síðustu mánuðum sem rekja má til samtakanna," segir Lilja.

Utanríkisráðherra átti fund með Jan Eliasson, varaframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, og voru jafnréttismál, loftslagsmál, umbætur á starfsemi stofnunarinnar og tilnefning nýs framkvæmdastjóra, sem nú er í ferli, meðal annars til umfjöllunar. Á fundi með Lakshmi Puri, varaframkvæmdastjóra UN Women, áréttaði Lilja áframhaldandi stuðning Íslands við stofnunina, en Ísland er meðal helstu framlagaríkja UN Women og er stofnunin meðal fjögurra helstu samstarfsaðila á sviði þróunarsamvinnu. Þá átti ráðherra fund með Richard Wright, yfirmanni svæðisskrifstofu Palestínuflóttamannaaðstoðar SÞ, UNRWA, í New York, og fékk kynningu á starfsemi stofnunarinnar sem Ísland hefur stutt við bakið á en hún starfar m.a. í Jórdaníu, Líbanon, á Gaza og Vesturbakkanum.

Lilja flutti einnig lokaorð á málþingi um mikilvægi þátttöku kvenna í friðarviðræðum og sáttaumleitunum, en Norðurlöndin hafa hrundið af stað átaki um að fjölga konumsem taka virkan þátt í friðarviðræðum og uppbyggingu á alþjóðavettangi og styrkja stöðu kvenna meðal sáttasemjara í stríðshrjáðum löndum. Sagði Lilja konur ekki einungis eiga skýlausan rétt á að taka þátt í friðarumleitunum sem helmingur mannkyns, heldur hefðu þær mikilsverða þekkingu og hæfni fram að færa. Einnig sagði ráðherra mikilvægt að brjóta niður múra í jafnréttisbaráttunni og fá karlmenn til að taka þátt í umræðunni um jafnan hlut kynja, en Ísland hefur á undanliðnum mánuðum staðið fyrir svokölluðum Rakarastofuráðstefnum hjá Sameinuðu þjóðunum og Atlantshafsbandalaginu í því augnamiði. „Tölurnar tala sínu máli. Á síðustu tveimur áratugum hafa konur einungis skrifað undir 4% friðarsamninga og konur leitt samningaviðræður í 9% tilvika. Hér virðist dropinn ekki hola steininn. Sérstaka hugarfarsbreytingu þarf til og ég bind vonir við að átak Norðurlandanna beri árangur", segir Lilja.

Ræða utanríkisráðherra í öryggisráði SÞ

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum