Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 162/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 4. apríl 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 162/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19030050

 

Beiðni […] og barna hennar um endurupptöku

I.             Málsatvik

Þann 12. febrúar 2019 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 6. desember 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir einstaklings er kveðst heita […], vera fædd […] og vera ríkisborgari Afganistan (hér eftir nefnd kærandi) og barna hennar, […], fd. […], ríkisborgara Afganistan (hér eftir A) og […], fd. […], ríkisborgara Afganistan (hér eftir B), um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa þeim frá landinu. Úrskurður kærunefndar var birtur kæranda þann 18. febrúar 2019 og þann 25. febrúar 2019 barst kærunefnd beiðni kæranda og barna hennar um frestun réttaráhrifa. Tekin verður afstaða til þeirrar beiðni í sérstökum úrskurði.

Þann 22. mars 2019 barst kærunefnd beiðni kæranda og barna hennar um endurupptöku auk fylgigagna.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi og börn hennar krefjast aðallega endurupptöku máls fjölskyldunnar og að felldar verði úr gildi ákvarðanir Útlendingastofnunar og stofnuninni gert að taka umsóknir þeirra til efnislegrar meðferðar hér á landi. Krafa um endurupptöku er reist á þeim grundvelli að aðstæður hafi breyst verulega frá því ákvörðun var tekin, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Til vara er þess krafist að kærunefnd útlendingamála fresti framkvæmd endanlegrar ákvörðunar um brottvísun.

Í endurupptökubeiðni kæranda og barna hennar kemur fram að á þeim tíma sem fjölskyldan hafi dvalið hér á landi hafi hún myndað sterk tengsl við land og þjóð. Börnunum, og þá einkum A, hafi gengið vel hér á landi og þá hafi A myndað sterkt og öflugt tengslanet í grunnskóla sínum. Í umsögn skólastjóra grunnskóla A, sem sé meðfylgjandi beiðni þessari, komi m.a. fram að A hafi aðlagast aðstæðum á Íslandi vel, eignast góða vini, sé góður námsmaður, mæti á viðburði og sé virkur þátttakandi í skólalífinu. Þá sé nýleg undirskriftasöfnun skólafélaga hennar tvímælalaust til marks um þau sterku tengsl sem hún hafi myndað hér á landi. Fyrir liggi rúmlega 600 handskrifaðar undirskriftir frá skólafélögum hennar auk rúmlega 6.000 rafrænna undirskrifta og séu þær meðal fylgigagna málsins.

Kærandi bendir á að í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segi að taka skuli umsókn til efnislegrar meðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef aðrar sérstakar ástæður mæla með því. Kærandi telur að ljóst sé af umsögn skólastjórans og þeim öfluga og mikla stuðningi sem A njóti frá skólafélögum sínum að hún hafi myndað sérstök tengsl við landið. Það sé því full ástæða til að mál hennar og fjölskyldunnar allrar verði tekið til efnislegrar meðferðar í samræmi við framangreint lagaákvæði. Þá megi einnig halda því fram að undirskriftirnar sem slíkar feli í sér aðrar sérstakar ástæður sem mæli með efnismeðferð.

Í beiðninni kemur fram að það væri mjög þungbært fyrir bæði börnin að hafa fengið tækifæri til að aðlagast íslensku samfélagi til þess eins að vera rifin upp með rótum og send úr landi með einstæðri móður sinni, í erfiðar aðstæður í Grikklandi. Það sé ómannúðlegt að vísa þeim úr landi við þær aðstæður sem séu uppi í málinu og þá aðlögun sem þegar hafi farið fram. Hafa þurfi í huga að börn séu sérstaklega viðkvæmur hópur og að íslenskum stjórnvöldum beri að hafa hagsmuni þeirra að leiðarljósi við alla ákvarðanatöku, líkt og fram komi í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013.

Þá er áréttuð varakrafa kæranda og barna hennar um að nefndin samþykki frestun réttaráhrifa þannig að fjölskyldan geti dvalið hér á landi á meðan dómstólar komist að endanlegri niðurstöðu.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og að framan greinir byggir beiðni kæranda um endurupptöku á því að kærandi og börn hennar, sérstaklega A, hafi myndað sérstök tengsl við landið. Er í því sambandi vísað til þess að A hafi aðlagast íslensku samfélagi vel og myndað öflugt tengslanet í skóla hér á landi. Með beiðni kæranda fylgdu undirskriftir frá skólafélögum A og öðrum einstaklingum hér á landi til stuðnings umsókn hennar og vitnisburður frá skólastjóra.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda og barna hennar þann 12. febrúar 2019, sbr. úrskurð nr. 56/2019. Af þeim gögnum sem lágu fyrir hjá kærunefnd áður en úrskurður nr. 56/2019 var kveðinn upp var ljóst að kærendur A og B stunduðu nám í skólum hér á landi. Jafnframt lá fyrir að A og B hefðu gengið í skóla í Grikklandi frá því í desember 2017 og þar til skólaárinu þar lauk, auk þess sem þau hefðu haft aðgang að sumarnámskeiðum í grísku á vegum Sameinuðu þjóðanna sumarið 2018. Jafnframt kom fram í gögnunum að samkvæmt frásögn kæranda hefði A bjargað sér í Grikklandi og átt þar vinkonur. Í úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 56/2019 kemur m.a. fram að kærandi hafi ekki lýst tengslum við landið í viðtali hjá Útlendingastofnun og að eiginmaður kæranda og faðir barna hennar njóti alþjóðlegrar verndar í Grikklandi. Það væri mat kærunefndar að ekkert í gögnum málsins benti til þess að kærandi og börn hennar hefðu slík tengsl við landið að beita bæri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í athugasemdum sem fylgdu 36. gr. frumvarps þess er varð að lögum um útlendinga kemur m.a. fram að ákvæðinu væri ætlað að taka m.a. til þeirra tilfella þegar umsækjendur ættu ættingja hér á landi en ekki í því ríki sem þeir yrðu aftur sendir til. Þetta gæti einnig átt við í öðrum tilfellum þar sem tengsl væru ríkari en við viðtökuríki, svo sem vegna fyrri dvalar. Að mati kærunefndar eru þau gögn sem kærandi hefur lagt fram ekki þess eðlis, að því er varðar tengsl kærenda við landið, að þau bendi til þess að úrskurður í málinu hafi verið byggður á atvikum sem hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í því sambandi er áréttað að þrátt fyrir upplýsingar um aðlögun kærenda hér á landi benda gögnin ekki til þess að kærendur hafi ríkari tengsl við Ísland en við Grikkland.

Í áðurnefndum úrskurði í málum kærenda var það niðurstaða kærunefndar að endursending kæranda og barna hennar til Grikklands fæli ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga auk þess sem að ekki væru fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæltu með því að mál þeirra yrðu tekin til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Vegna athugasemda sem fylgdu beiðni kæranda um endurupptöku tekur kærunefnd fram að mat á því hvort sérstakar ástæður eru fyrir hendi í málum er byggt á málefnalegum sjónarmiðum sem hafa mótast í framkvæmd stjórnvalda. Að mati nefndarinnar getur niðurstaða um sérstakar ástæður ekki verið byggð á undirskriftalista sem gefur til kynna stuðning tiltekins hóps við umsækjanda um alþjóðlega vernd. Þá áréttar nefndin það mat, sem er lýst í úrskurðinum, að endursending kærenda til Grikklands komi ekki til með að fela í sér ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð, sbr. 3. mgr. 36. gr. og 42. gr. laga um útlendinga. Í úrskurðinum var vísað til ákvörðunar Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013, þar sem kemur m.a. fram að veruleg skerðing lífsgæða sé ekki nægjanleg til að teljast ómannúðleg eða vanvirðandi meðferð, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmálans, nema sérstaklega sannfærandi mannúðarástæður mæli gegn endursendingu. Eins og að framan greinir var það mat kærunefndar að slíkar sérstaklega sannfærandi mannúðarástæður væru ekki fyrir hendi í máli kærenda og benda gögn sem fylgdu beiðni um endurupptöku ekki til þess að aðstæður kærenda að því er varðar breytingar á högum þeirra við flutning til Grikklands hafi breyst verulega að því leyti.

Kærunefnd tekur jafnframt fram að í úrskurði nr. 56/2019 var gerð grein fyrir mati nefndarinnar á hagsmunum barnanna A og B. Í úrskurðinum er m.a. vísað til 32. gr. a reglugerðar um útlendinga þar sem fram koma sérviðmið er varða börn og ungmenni. Var það niðurstaða kærunefndar að flutningur fjölskyldunnar til Grikklands samrýmdist hagsmunum barnanna þegar litið væri m.a. til öryggis þeirra, velferðar og félagslegs þroska, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Þá var það einnig mat kærunefndar að gögn málsins bentu til þess að það væri ekki andstætt réttindum A og B að umsóknir þeirra yrðu ekki teknar til efnismeðferðar hér á landi. Það er mat kærunefndar að framangreind fylgigögn með beiðni þessari beri ekki með sér að mat kærunefndar á hagsmunum barnanna í úrskurði nefndarinnar nr. 56/2019 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Að teknu tilliti til frásagnar kæranda og gagna málsins, þ.m.t. þeirra gagna sem lögð voru fram með beiðni um endurupptöku, er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar nr. 56/2019 hafi verið byggður á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kröfu kæranda og barna hennar um endurupptöku málsins er því hafnað.

Hvað varðar varakröfu kæranda og barna hennar um að kærunefnd fresti réttaráhrifum úrskurðar nefndarinnar tekur kærunefnd fram að slík beiðni hefur þegar komið fram af hálfu kæranda og verður leyst úr henni í sérstökum úrskurði.

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda og barna hennar er hafnað.

 

The request of the appellant and her children is denied.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Anna Tryggvadóttir                                                                                        Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum