Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 374/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 5. nóvember 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 374/2020

í stjórnsýslumálum nr. KNU20070038 og KNU20070039

 

Kæra […],

[…] og barna þeirra

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 28. júlí 2020 kærðu einstaklingar er kveðast heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Palestínu (hér eftir M) og […], vera fædd […] og vera ríkisborgari Marokkó (hér eftir K) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 7. júlí 2020, um að synja þeim og börnum þeirra, […], fd. […], ríkisborgara Marokkó (hér eftir A) og […], fd. […], ríkisborgara Marokkó (hér eftir B), um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Þess er aðallega krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að M verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá verði K, A og B veitt alþjóðleg vernd samkvæmt 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að kærendum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málin til meðferðar að nýju, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

K sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 23. nóvember 2019 ásamt A og var þá barnshafandi af B. Þá sótti M um alþjóðlega vernd hér á landi þann 5. desember 2019. Kærendur komu m.a. í viðtöl hjá Útlendingastofnun þann 20. apríl 2020 ásamt talsmanni sínum og þá kom K til framhaldsviðtals þann 11. maí 2020. Með ákvörðunum, dags. 7. júlí 2020, synjaði Útlendingastofnun kærendum og börnum þeirra um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru þær ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 28. júlí 2020. Kærunefnd barst greinargerð kærenda þann 19. ágúst 2020 og fylgiskjöl með henni þann 24. ágúst 2020. Þá bárust viðbótargögn þann 21. september 2020.

III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að M byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna almennra aðstæðna þar í landi og að K byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé í hættu í heimaríki sínu vegna ótta við áreiti af hálfu fjölskyldu sinnar.

Niðurstöður ákvarðana Útlendingastofnunar í málum kærenda voru þær að kærendur séu ekki flóttamenn og þeim skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barna kærenda, kom fram að þau væru svo ung að árum að ekki yrði talið tilefni til að taka viðtal við þau. Fram kom að umsóknir barna kærenda væru grundvallaðar á framburði foreldra þeirra og þeim hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðunum foreldra hefði jafnframt verið tekin afstaða til aðstæðna barnanna og hvernig þær aðstæður horfi við einstökum þáttum ákvörðunarinnar. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í málum foreldra þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, laga um útlendinga og barnaverndarlaga, að börnum kærenda væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til þeirra landa þar sem þau hafa dvalarleyfi.

Kærendum var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kærendum jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð kærenda er vísað til viðtala M og K hjá Útlendingastofnun. Í viðtali M hafi hann lýst því að hann sé Palestínumaður og hafi fæðst í […] flóttamannabúðunum í Líbanon. Þar hafi hann búið alla tíð þar til hann hafi flúið til Grikklands árið 2011. Þá sé M ekki handhafi ríkisfangs í Líbanon heldur hafi hann búið þar alla sína tíð réttindalaus líkt og aðrir Palestínumenn þar í landi. Þá sé hann handhafi skírteinis frá Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) og hafi afhent afrit af því til Útlendingastofnunar. Í viðtali K hjá Útlendingastofnun hafi komið fram að hún sé fædd og uppalin í Marokkó. Þaðan hafi hún flúið árið 2015 vegna ótta við föður sinn og föðurfjölskyldu eftir að hún hafi kynnst M í gegnum síma, m.a. gegnum samfélagsmiðla. M hafi greitt fyrir ferð K til Grikklands þar sem þau hafi hist í fyrsta sinn í persónu. Í Grikklandi hafi þau gengið í hjúskap. Þá sé K barnshafandi af þriðja barni þeirra hjóna.

Í greinargerð kemur fram aðalkrafa kærenda um að M verði veitt viðbótarvernd hér á landi í skilningi 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga sökum almenns öryggisástands í heimaríki M og þess skaða sem hann kunni að verða fyrir við endursendingu þangað. Er þess auk þess krafist að K, A og B verði veitt alþjóðleg vernd með vísan til fjölskyldusameiningar við M, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Vísa kærendur til ýmissa ákvarðana Útlendingastofnunar til stuðnings aðalkröfu sinni. Þá kemur fram varakrafa um að kærendum og börnum þeirra skuli veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, m.a. vegna andlegs heilsufars M og vegna hagsmuna A og B. Þá ítreka kærendur þrautavarakröfu sína um að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og málin send til nýrrar meðferðar hjá stofnuninni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Í greinargerð komi fram ýmsar athugasemdir við ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum þeirra, m.a. varðandi möguleika M á flutningi innan þess svæðið sem UNRWA starfar, möguleika fjölskyldunnar til að setjast að á svæði UNRWA, hvort UNRWA vernd M hafi fallið niður og um það hvort M geti fengið dvalarleyfi í Marokkó.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Eins og fram er komið eiga kærendur tvö börn auk þess sem K er barnshafandi. Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.

Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.

Óumdeilt er að börn hafa sjálfstæðan rétt til alþjóðlegrar verndar. Þegar um er að ræða börn í fylgd með foreldrum sínum hefur Útlendingastofnun afgreitt mál hvers einstaklings í sérstakri ákvörðun en í rökstuðningi í málum barna er um ákveðin atriði vísað til rökstuðnings með ákvörðunum foreldra. Þegar þessi leið er farin verða ákvarðanir fjölskyldunnar í heild sinni þó ávallt að uppfylla reglur stjórnsýslulaga um rökstuðning og vera að öðru leyti settar fram á þann hátt að af lestri þeirra megi ráða að í reynd hafi farið fram skyldubundið mat á hagsmunum barnanna á viðhlítandi grundvelli.

Í þessu máli kom A með móður sinni K hingað til lands þann 23. nóvember 2019 og faðir þeirra M kom hingað til lands þann 5. desember 2019. Þá fæddist B þann [...]. Í ákvörðunum A og B kemur fram að engin ástæða sé til þess að draga í efa að þær séu börn foreldra sinna M og K og því staddar með þeim hér á landi. Kærunefnd hefur ekki forsendur til annars en að staðfesta það mat Útlendingastofnunar að M og K séu foreldrar A og B og umsóknir þeirra því samhangandi umsóknum M og K í ljósi meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar.

Líkt og að framan greinir eru börnin A og B ung að árum og byggjast umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd á framburði foreldra þeirra um málsástæður enda var framburður foreldra þeirra talinn fullnægjandi grundvöllur ákvarðananna. Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli M er hvorki að finna umfjöllun um aðstæður barna í heimaríki hans né í flóttamannabúðum á vegum UNRWA og þá er ekki að finna umfjöllun um einstaklingsbundnar aðstæður A og B á þeim stöðum. Þá hefur Útlendingastofnun ekki tekið afstöðu til þess hvort M gæti farið aftur í flóttamannabúðirnar í Líbanon eða heimaríkis hans heldur aðeins vísað til þess að hann gæti sameinast K í heimaríki hennar […]og ætti möguleika á að leita eftir aðstoð í öðrum úrræðum UNRWA. Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli K kemur fram að heimildir um heimaríki hennar beri með sér að staða og réttindi barna hafi batnað á undanförnum árum þar í landi og að yfirvöld þar séu t.a.m. aðilar að öllum helstu mannréttindasamningum til varnar barnavinnu og barnaþrælkun. Að öðru leyti er ekki fjallað um aðstæður barna í heimaríki K og enga sjálfstæða umfjöllun að finna um einstaklingsbundnar aðstæður A og B í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hennar, svo sem í tengslum við 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Segir enn fremur í ákvörðunum M og K að þau hafi ekki lagt fram nein gögn eða aðrar upplýsingar sem eru til þess fallnar að sýna fram á að þau eigi ekki þess kost að dvelja og sameinast í heimaríki K, annað hvort á grundvelli hjúskapar þeirra eða á grundvelli annars konar dvalarleyfis M. Var það niðurstaða stofnunarinnar að K, A og B standi til boða viðeigandi aðstoð og vernd í heimaríki K auk þess sem M standi til boða viðeigandi aðstoð og vernd í þeim ríkjum þar sem UNRWA sé starfrækt.

Kærunefnd hefur yfirfarið ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum M, K, A og B og að mati nefndarinnar verður ekki ráðið af þeim að umsóknir A og B um alþjóðlega vernd hafi verið metnar sjálfstætt. Engin umfjöllun er um aðstæður barna í tengslum við umsókn M og lítil sem engin umfjöllun um aðstæður barna í tengslum við umsókn K. Ekki verður séð að afstaða hafi verið tekin til aðstæðna A og B og hvernig þær aðstæður hafi horft við einstökum þáttum ákvörðunarinnar líkt og segir berum orðum í ákvörðunum stofnunarinnar í málum A og B. Uppfylla ákvarðanir stofnunarinnar að því leyti ekki skilyrði 22. gr. stjórnsýslulaga um rökstuðning og óljóst á hverju stofnunin byggir niðurstöðu sína að þessu leyti. Þá verður af ákvörðunum Útlendingastofnunar auk þess með engum hætti ráðið að mál A og B hafi verið metin í ljósi sérsjónarmiða laga um útlendinga er varða börn, sem þó er skýr lagaskylda, sbr. m.a. 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Það er því ljóst að málsmeðferð Útlendingastofnunar og rökstuðningur ákvarðananna í málum A og B er að mati kærunefndar ekki í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar, m.a. 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum er málsmeðferðin því haldin annmarka, sá annmarki telst alvarlegur og ekki verður bætt úr honum á kærustigi.

Með vísan til framangreinds telur kærunefnd að rétt sé að fella úr gildi ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og vísa málunum til nýrrar meðferðar hjá stofnuninni. 

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál þeirra til nýrrar meðferðar.

The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellants are vacated. The Directorate is instructed to re-examine their cases.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                              Sandra Hlíf Ocares

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum