Hoppa yfir valmynd
22. mars 2018 Utanríkisráðuneytið

Um 124 milljónir búa við alvarlegan matarskort

Um 124 milljónir manna í 51 þjóðríki búa við alvarlegan matarskort, segir í árlegri yfirlitsskýrslu Landbúnaðar- og matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) sem kom út í dag. Í skýrslunni – Global Report on Food Crises 2018 – kemur fram að átök eru meginskýring matarskorts í 18 löndum þar sem 74 milljónir manna draga fram lífið. Loftslagsbreytingar hafa líka leitt til matarskorts.

Í sambærilegri skýrslu á síðasta ári var talið að 108 milljónir manna hafi liðið matarskort í 48 löndum. Samanburður í 45 löndum sem fjallað er um í báðum skýrslunum sýnir að einungis í þeim löndum fjölgaði hungruðum um 11 milljónir en milli ára nemur heildarfjölgunin 16 milljónum.

Ástandið var verst á síðasta ári í austurhluta Nígeríu, Sómalíu, Jemen og Suður Súdan. Í þessum löndum voru 32 milljónir við hungurmörk stóran hluta ársins og í febrúar á síðasta ári var lýst yfir hungursneyð í Suður Súdan. Með mikilli mannúðaraðstoð tókst að forða hungursneyð en eins og tölurnar bera með sér þarf gífurlega mikinn áframhaldandi stuðning í mannúðaraðstoð til að mæta vaxandi þörf.

Eftir áratuga fækkun hungraðra í heiminum hefur á síðustu árum sigið á ógæfuhliða með fjölgun þeirra sem eiga ekki til hnífs og skeiðar. Samkvæmt skýrslu FAO fer enginn heimshluti varhluta af þessari þróun. Átök innan Afríku, meðal þjóða í Mið-Austurlöndum og á svæðum í sunnanverði Asíu hafa leitt til matarskorts og þurrkar á Horni Afríku, flóð í Asíu og fellibyljir í Rómönsku Ameríku og Karíbahafi hafa ennfremur leitt til þess að fólk býr við sáran sult.

Skýrslan í heild (pdf)

 

  • Um 124 milljónir búa við alvarlegan matarskort - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum