Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 156/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 7. apríl 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 156/2022

í stjórnsýslumálum nr. KNU22030022 og KNU22030038

 

Beiðni um frestun réttaráhrifa og endurupptöku í máli […]

 

  1. Málsatvik

    Hinn 24. febrúar 2022 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. október 2021, um að synja […], fd. […], ríkisborgara Trínidad og Tóbagó, (hér eftir nefndur kærandi) um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Úrskurður kærunefndar var birtur fyrir kæranda hinn 7. mars 2022. Hinn 14. mars 2022 barst kærunefnd beiðni um endurupptöku og frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Hinn 24. mars 2022 barst kærunefnd greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum.

    Kærandi byggir endurupptökubeiðni sína á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá krefst kærandi þess að réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar útlendingamála verði frestað á meðan hann fari með mál sitt fyrir dómstóla, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

  2. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann krefjist þess aðallega að mál hans verið tekið upp að nýju hjá kærunefnd útlendingamála á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, að kærunefnd felli ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn hans um alþjóðlega vernd úr gildi og að nefndin veiti honum alþjóðlega vernd hér á landi samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga vegna stöðu hans sem flóttamanns, sbr. 1. mgr. 37. gr. sömu laga. Kærandi byggir á því í aðalkröfu sinni að við mat á 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga hafi kærunefnd útlendingamála byggt á ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Ekkert tillit hafi verið tekið til huglægs ótta kæranda við ofsóknir sem samkvæmt almennum heimildum sé ástæðuríkur.

Til vara krefst kærandi þess að réttaráhrifum úrskurðar nr. 110/2022, í stjórnsýslumáli KNU21110032, dags. 24. febrúar 2022, verði frestað í samræmi við 2. málsl. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga svo hann geti borið mál sitt undir dómstóla. Kærandi hyggi á málshöfðun fyrir íslenskum dómstólum til ógildingar á nefndum úrskurði kærunefndar og telji ljóst að aðstæður hans í Trínidad og Tóbagó muni svipta hann réttinum til réttlátrar málsmeðferðar sem og réttinum til að bera mál sitt undir dómstóla sem varinn sé í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Ísland nr. 33/1944.

Í greinargerð kæranda kemur fram að samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga eigi aðili máls rétt á því að fá mál sitt tekið til meðferðar á ný þegar ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Kærandi telur að kærunefnd útlendingamála hafi farið offörum við mat sitt á trúverðugleika kæranda í úrskurði nefndarinnar frá 24. febrúar 2022. Hafi kærunefnd m.a. haft uppi ýmis gífuryrði um frásögn kæranda en gleymt um leið kjarna frásagnarinnar, nánar tiltekið þeim óbreytanlegu staðreyndum sem íslensk stjórnvöld hafi sjálf jafnvel ekki dregið í efa, þ.e. að kærandi sé samkynhneigður einstaklingur með HIV. Kærandi telur ekki deilt um það áreiti sem hinsegin einstaklingar og þeir sem greindir séu með HIV verði fyrir í Trínidad og Tóbagó. Hins vegar mótmælir kærandi harðlega þeirri lagalegu túlkun að áreitið nái ekki alvarleikastigi ofsókna í skilningi laga um útlendinga. Við þá túlkun taki kærunefnd útlendingamála ekki nægjanlegt tillit til leiðbeiningarreglna nr. 9 frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sem vísað hafi verið sérstaklega til í greinargerð þáverandi talsmanns til nefndarinnar. Kærandi telur að kærunefnd hafi láðst að taka tillit til huglægs ótta hans, en í handbók Flóttamannastofnunar um réttarstöðu flóttamanna segi að þar sem ótti sé huglægur, feli skilgreiningin í sér að tekið sé tillit til huglægs ástands þess sem sæki um viðurkenningu sem flóttamaður. Jafnvel þótt kærunefnd útlendingamála telji frásögn kæranda aðeins ýkjukennda telji kærandi sig einungis hafa sýnt þá ofsahræðslu sem hann hafi við þá tilhugsun að snúa aftur til heimaríkis síns. Það sé honum óbærilegt að snúa aftur til heimaríkis í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Í því samhengi vísar kærandi til handbókar Flóttamannastofnunar þar sem fram komi að mat á huglægum þáttum hjá umsækjanda sé óaðskiljanlegur hluti af almennu mati á persónuleika hans því sálræn viðbrögð mismunandi einstaklinga geti verið ólík við nákvæmlega sömu aðstæður. Að teknu tilliti til framangreinds telur kærandi að mat kærunefndar á huglægu ástandi hans hafi verið ófullnægjandi. Þá telur kærandi að ótti hans við ofsóknir í heimaríki sé ástæðuríkur. Í því sambandi vísar kærandi til heimilda um aðstæður hinsegin einstaklinga og HIV smitaðra einstaklinga í heimaríki og framlagðra gagna.

Fram kemur í greinargerð kæranda að hann telji sig ekki geta gætt hagsmuna sinna hér á landi verði honum gert að fara aftur til heimaríkis síns, bæði vegna fjarlægðar sem og andlegs ástands hans. Kærandi minni á stjórnarskrárbundinn rétt hans til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og telji þann rétt virtan að vettugi fái hann ekki að berjast fyrir réttindum sínum hér á landi. Kærandi telji veruleg álitamál uppi í tengslum við mat stjórnvalda á umsókn hans um alþjóðlega vernd á Ísland, einkum varðandi túlkun og mat huglægs ótta sem hafi áhrif umfram hans eigin mál.

Ásamt greinargerð lagði kærandi fram heilsufarsgögn frá geðsviði Landspítala, dags. 8. febrúar 2022, og bréf frá Samtökunum ´78, dags. 17. mars 2022.

  1. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

  1. Beiðni um endurupptöku

    Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

    Með úrskurði kærunefndar í máli kæranda, dags. 24. febrúar 2022, var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

    Kærandi byggir kröfu sína um endurupptöku einkum á því að kærunefnd hafi ekki tekið nægjanlegt tillit til huglægs ótta hans, auk þess sem ekki hafi verið tekið nægjanlegt tillit til leiðbeiningarreglna nr. 9 frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.

    Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

    Á blaðsíðum 18-20 í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna er fjallað nánar um orðasambandið, þ. á m. hvað felist í mati á huglægum þáttum hjá umsækjanda. Í 37. efnisgrein á blaðsíðu 18 í handbókinni kemur m.a. fram að þar sem ótti sé huglægur, feli skilgreiningin á flóttamanni í sér að tekið sé tillit til huglægs ástands þess sem sæki um viðurkenningu sem flóttamaður. Við ákvörðun um stöðu flóttamanns beri því fyrst og fremst að leggja mat á framburð umsækjanda fremur en aðstæður í ættlandi hans. Í 38. efnisgrein segir jafnframt að við „ótta“, sem sé hugarástand og byggist á huglægum þáttum, sé bætt kröfunni um að hann sé „ástæðuríkur“. Ákvörðun um réttarstöðu flóttamanns byggi þannig ekki aðeins á hugarástandi viðkomandi, heldur skuli hugarástandið stutt af hlutlægum aðstæðum. Þá kemur m.a. fram í 41.-42. efnisgrein handbókarinnar að við mat á huglægum þáttum umsækjanda sé óhjákvæmilegt að leggja mat á framburð og trúverðugleika hans.

    Í úrskurði kærunefndar, dags. 24. febrúar 2022, fór fram ítarlegt mat á huglægum þáttum kæranda, þ.m.t. framburði og trúverðugleika kæranda. Þrátt fyrir að lagt hafi verið til grundvallar að kærandi væri samkynhneigður og greindur með HIV þá var það mat nefndarinnar, bæði með hliðsjón af einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. huglægu mati hans, og hlutlægum þáttum, þ.e. upplýsingum um almennar aðstæður í heimaríki hans, að aðstæður kæranda væru ekki slíkar að hann teldist hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

    Við mat sitt á aðstæðum kæranda horfði kærunefnd til leiðbeininga Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna nr. 9 er lúta að umsóknum einstaklinga um alþjóðlega vernd sem byggjast á kynhneigð og/eða kynvitund. Lagði kærunefnd til grundvallar að kærandi, sem samkynhneigður einstaklingur, teldist til sérstaks þjóðfélagshóps, sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Það eitt að teljast til sérstaks þjóðfélagshóps er þó ekki talið leiða sjálfkrafa til þess að einstaklingur teljist eiga rétt á alþjóðlegri vernd heldur verður að skoða hvert mál fyrir sig og meta aðstæður og stöðu einstaklingsins í heimaríki. Í framangreindum leiðbeiningum kemur m.a. fram að jafnvel þótt lögum, sem leggi bann við ástarsamböndum samkynja einstaklinga, sé sjaldan eða nokkurn tímann beitt í framkvæmd verði samt sem áður að skoða hvort þau geti skapað hættu fyrir einstaklinga í þeirri stöðu.

    Í máli kæranda var það mat kærunefndar að kæranda stæði ekki hætta af lögum í heimaríki hans, um bann við kynferðislegum athöfnum samkynja einstaklinga, þar sem þau voru dæmd ógild af hæstarétti landsins árið 2018. Auk þess báru gögn með sér að lögunum hafi fyrir það almennt ekki verið beitt í framkvæmd. Kærunefnd bendir á að í máli kæranda var lagt til grundvallar að réttindum og aðstæðum hinsegin einstaklinga væru að mörgu leyti ábótavant. Hins vegar báru landaupplýsingar ekki með sér að um kerfisbundnar ofsóknir væri að ræða gagnvart hinsegin einstaklingum. Frásögn kæranda bar jafnframt ekki með sér að hann hafi upplifað kerfisbundna mismunun eða ofsóknir í heimaríki sínu. Þá kemur fram í framangreindum leiðbeiningum að höfnun eða vanþóknun af hálfu fjölskyldu eða samfélags vegna kynhneigðar umsækjanda geti ein og sér ekki talist til ofsókna. Með vísan til framangreinds var kærandi ekki talinn hafa uppfyllt skilyrðið um að ótti hans við ofsóknir væri ástæðuríkur í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

    Samhliða greinargerð sinni lagði kærandi fram gögn frá geðdeild Landspítala og Samtökunum ´78. Í gagninu frá Landspítala kemur m.a. fram að kærandi hafi verið greindur með ótilgreinda svefnröskun í nóvember 2021 og hafi verið ráðlagt að taka tiltekin lyf við henni. Hinn 8. febrúar 2022 hafi kærandi mætt á bráðamóttöku geðsviðs og óskað eftir viðtali. Hann hafi greint frá því að hann upplifi endurminningar og skapstyggð og þjáist af áfalli sem hann hafi upplifað. Kæranda var m.a. ráðlagt að sækja frekari meðferð hjá heilsugæslunni ef þörf væri á. Í bréfi frá Samtökunum ‘78 kemur m.a. fram að kærandi hafi tjáð ráðgjafa samtakanna að hann væri andlega og líkamlega örmagna. Kærandi hafi einnig virst vera í uppnámi vegna stöðu umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd hér á landi. Kærandi hafi greint frá því að hafa upplifað sjálfsvígshugsanir og að hann hefði tilhneigingu til að hugsa mikið um liðna atburði sem hann hafi upplifað í heimaríki sínu í daglegu lífi. Jafnframt hafi kærandi greint frá því að þjást af geðhvarfasýki sem hrjái hann einkum hér á landi. Að mati ráðgjafans gæti verið skaðlegt fyrir líkamlega og andlega heilsu kæranda að fara aftur til heimaríkis síns.

    Við efnismeðferð máls kæranda lágu fyrir upplýsingar um að kærandi ætti erfitt með svefn og að hann tæki lyf við því. Þá lágu fyrir heilsufarsgögn, m.a. frá sálfræðingi, sem kváðu á um að fortíð hans í heimaríki hans hefði neikvæð áhrif á heilsu hans. Það er mat kærunefndar að hin framlögðu gögn frá Landspítala og Samtökunum ‘78 hafi aðeins að geyma nýrri og ítarlegri upplýsingar um andlega heilsu kæranda og séu aðeins til fyllingar þeim upplýsingum sem lágu fyrir við meðferð máls hans hjá nefndinni. Þá má ráða af framlögðu bréfi frá Samtökunum ‘78 að andleg heilsa kæranda sé tengd stöðu hans hér á landi. Kærunefnd telur að ekki sé um að ræða nýjar upplýsingar sem gefi tilefni til þess að endurupptaka málið. Í úrskurði kærunefndar frá 24. febrúar 2022 fjallaði kærunefnd um heilbrigðiskerfið í Trínidad og Tóbagó og lagði nefndin til grundvallar að kæranda stæði til boða endurgjaldslaus heilbrigðisþjónusta þar í landi.

    Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 24. febrúar 2022, hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður var kveðinn upp, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

  1. Krafa um frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar útlendingamála samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga

Í íslenskum rétti gildir sú meginregla að málskot til dómstóla frestar ekki réttaráhrifum endanlegra ákvarðana stjórnvalda, sjá til hliðsjónar 2. málsl. 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Reglan er áréttuð í 1. málsl. 6. mgr. 104. laga um útlendinga nr. 80/2016 en þar segir að málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun á stjórnsýslustigi um að útlendingur skuli yfirgefa landið fresti ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess, sbr. 2. málsl. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Frestun á réttaráhrifum skal bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að málið hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Niðurstaða um hvort ástæða sé til að fresta réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar ræðst af heildstæðu mati á hagsmunum kæranda af því að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað og sjónarmiðum sem mæla gegn slíkri frestun. Meðal þeirra sjónarmiða sem líta ber til við þetta mat er hvort framkvæmd úrskurðarins valdi kæranda óafturkræfum skaða, hvort framkvæmdin feli í sér verulegar hindranir á aðgengi kæranda að dómstólum, hvort aðstæður sem þýðingu geta haft fyrir málið hafi breyst verulega eða hvort þörf sé á sérstakri varúð, m.a. með tilliti til hagsmuna barna. Þá lítur kærunefnd til þess hlutverks stjórnvalda að tryggja skilvirka framkvæmd laga um útlendinga. Kærunefnd hefur jafnframt litið til þess að heimild til frestunar réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar er undantekning frá meginreglu sem aðeins sé ætlað að ná til tilvika þar sem ástæða er til þess að fresta framkvæmd. Réttaráhrifum úrskurðar verði því ekki frestað af þeirri ástæðu einni að úrskurðurinn verði borinn undir dómstóla heldur þurfi að vera fyrri hendi tilteknar aðstæður í fyrirliggjandi máli svo kærunefnd fallist á slíka beiðni.

Í beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa kemur fram sú afstaða hans að framkvæmd úrskurðar kærunefndar útlendingamála um að hann skuli yfirgefa landið takmarki möguleika hans til að fá endurskoðun úrskurðarins hjá dómstólum og njóta þar réttlátrar málsmeðferðar, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Ljóst er að vera kæranda á landinu er ekki forsenda fyrir því að mál sem hann höfðar til ógildingar á úrskurði kærunefndar sé tækt til meðferðar hjá dómstólum. Þá hefur kærandi möguleika á að gefa skýrslu fyrir dómi þótt hann sé ekki hér á landi, sbr. 2. mgr. 49. gr. og 3. og 4. mgr. 51. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í því ljósi og með vísan til aðstæðna kæranda að öðru leyti er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé ástæða til að fresta réttaráhrifum úrskurðar í máli kæranda á þeim grundvelli að framkvæmd úrskurðarins valdi málatilbúnaði hans tjóni fyrir dómstólum eða skerði réttindi sem honum eru tryggð samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig dóma Héraðsdóms Reykjavíkur í málum nr. E-2434/2017, frá 23. maí 2018, og E-6830/2020, frá 15. desember 2020.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála hefur verið tekin afstaða til málsástæðna kæranda varðandi umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og komist að niðurstöðu um að synja umsókn hans. Kærunefnd ítrekar það sem kemur fram í úrskurði í máli kæranda að athugun nefndarinnar hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að ætla að aðstæður í heimaríki séu þess eðlis að endursending kæranda þangað sé í andstöðu við 1. og 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd telur að gögn sem kærandi lagði fram með beiðni um frestun réttaráhrifa séu ekki þess eðlis að ástæða sé til að ætla að þau breyti niðurstöðu nefndarinnar varðandi þetta mat. Í samræmi við framangreint er það jafnframt mat kærunefndar að kærandi eigi ekki á hættu að verða fyrir óafturkræfum skaða snúi hann aftur til heimaríkis.

Tiltölulega skammur tími er liðinn síðan nefndin úrskurðaði í máli kæranda. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að aðstæður kæranda eða aðstæður í heimaríki hans hafi breyst verulega síðan nefndin úrskurðaði í málinu á þann hátt að nefndin telji að það gæti haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins. Í því sambandi er tekið fram að nefndin hefur kynnt sér þau gögn sem fylgdu beiðni um frestun réttaráhrifa. Eftir skoðun á beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa telur kærunefnd að athugasemdir sem þar koma fram varðandi málsmeðferð og efnislegt mat kærunefndar í málinu séu ekki þess eðlis að ástæða sé til að ætla að niðurstaða kærunefndar í málinu sé haldin annmarka sem leitt gæti til ógildingar úrskurðarins.

Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að ekki sé ástæða til að fallast á beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar í máli hans.

Kærunefnd leggur áherslu á að mál þetta snýst um hvort ástæða sé til að fresta réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar í því skyni að bera mál undir dómstóla, en ekki hvort skilyrði frestunar framkvæmdar með vísan til lokamálsliðar 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga séu fyrir hendi, m.a. í ljósi Covid-19 faraldursins. Kæranda er leiðbeint um að berist honum boð um flutning til heimaríkis eða annars ríkis þar sem hann hefur rétt til dvalar er honum heimilt að vekja athygli kærunefndar á því en kærunefnd getur þá ákveðið að fresta framkvæmd úrskurðar, sbr. framangreint ákvæði, séu skilyrði til þess uppfyllt.

Athygli kæranda er einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt er að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

Samantekt

Samkvæmt framansögðu eru hvorki forsendur til að endurupptaka mál kæranda á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga né fresta réttaráhrifum samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

 

 

 


 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

Kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa er hafnað.

 

The appellant’s request to re-examine the case is denied.

The appellant’s request for suspension of legal effects is denied.

 

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

 


 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum