Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2007 Innviðaráðuneytið

Gjaldtaka verði heimiluð af umferð og flokkun vega breytt

Frumvarp til nýrra vegalaga er nú til meðferðar á Alþingi en meðal breytinga sem þar eru lagðar til má nefna almenna heimild til gjaldtöku af umferð, breytingar á flokkun og veghaldi á vegum, nýmæli varðandi skipulag, hönnun og öryggi í umferð og ýmis nýmæli er varða kostnaðarskiptingu vegna aðgerða til að draga úr áhrifum frá umferðarhávaða.

Fram kom í framsöguræðu Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra að við undirbúning frumvarpsins hefði komið fram sú hugmynd að safnvegir og hluti tengivega yrðu nefndir sveitarfélagavegir og veghald þeirra flutt til sveitarfélaga. Einnig að þeim yrði séð fyrir nauðsynlegu fjármagni vegna verkefnisins. Nefnd sem undirbjó frumvarpið klofnaði í afstöðu til þessarar hugmyndar og lögðust fulltrúar sveitarfélaga gegn henni. Samgönguráðherra sagði að ákveðið hefði verið að fara þá leið að Vegagerðinni yrði heimilað að fela sveitarstjórn veghald ákveðinna vega innan sveitarfélags, svokallaðra héraðsvega, ef þess væri óskað af hálfu viðkomandi sveitarstjórnar. Jafnframt rynnu fjárveitingar sem ætlaðar væru slíkum vegum til sveitarfélagsins. Þannig væri komið til móts við sveitarfélög sem óskuðu eftir að taka að sér veghald í sínu umdæmi.

Lagt er til í frumvarpinu að almenn heimild verði til gjaldtöku af umferð um þjóðvegi og verði því ekki þörf á að afla sérstakrar heimildar í hvert sinn eins og nú er í lögum. Samgönguráðherra tók fram í ræðu sinni að í þessu fælist þó ekki almenn gjaldtökuheimild fyrir veghaldara heldur yrði slíkt að koma fram í samgönguáætlun sem fengi samþykki Alþingis hverju sinni. Væri með þessu gert ráð fyrir að fjallað verði um alla þætti fjármögnunar þjóðvega innan ramma samgönguáætlunar.

Ákvæði um kostnaðarskiptingu vegna hávaðavarna

Lagðar eru til nokkrar breytingar á ákvæðum er varða ábyrgð og kostnað á aðgerðum vegna umferðarhávaða. Um þetta atriði sagði ráðherra meðal annars í framsöguræðu sinni: ,,Í frumvarpinu eru lögð til ýmis nýmæli sem eiga að fara bil beggja og vera nokkurs konar málamiðlun milli mismunandi sjónarmiða um skiptingu kostnaðar við mannvirkjagerð sem er nauðsynleg til að skýla byggð fyrir umferðarhávaða. Er ákvæðum þessum ætlað að stuðla að sátt um skiptingu þessa kostnaðar milli Vegagerðarinnar og sveitarfélaga og má í stórum dráttum segja að skiptingin byggi á því hvort nauðsyn hávaðavarna verði rakin til aðgerða við vegi eða skipulag byggðar.

Til að skýra þetta nánar má taka sem dæmi ef nýr vegur er lagður um byggð sem fyrir er. Þá má segja að nauðsyn hávaðavarna verði rakin beinlínis til vegarins og því eðlilegt að veghaldarinn kosti þær. Þegar hins vegar nauðsynlegt er að grípa til hávaðavarna vegna byggðar sem skipulögð er að vegi sem fyrir er eða hefur verið ákveðinn á skipulagi er eðlilegt að sveitarfélagið, sem ber ábyrgð á skipulaginu, kosti varnirnar. Má því segja að frumvarpið geri ráð fyrir þeirri meginreglu að saman fari ábyrgð á kostnaði og forræði á skipulagi.”

Þá er í lagafrumvarpinu lagt til að kveða á um hlutverk Vegagerðarinnar í sérstöku ákvæði en í gildandi vegalögum er hlutverk hennar ekki skilgreint sérstaklega heldur er það að finna í einstökum ákvæðum víða í löggjöfinni. Hlutverk Vegagerðar verður áfram framkvæmd vegamála og veghald en breytingarnar endurspeglast einkum í ákvæðum þar sem áhersla er lögð á umferðaröryggissjónarmið þar sem Vegagerðinni er falið ákveðið hlutverk.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum