Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2007 Innviðaráðuneytið

Kjartan Magnússon nýr formaður Umferðarráðs

Skipaður hefur verið nýr formaður Umferðarráðs og er það Kjartan Magnússon borgarfulltrúi. Kjartan tekur við af Óla H. Þórðarsyni sem lét af embættinu síðastliðið haust.

Sturla Böðvarsson hefur skipað Kjartan Magnússon formann Umferðarráðs.
Sturla Böðvarsson hefur skipað Kjartan Magnússon formann Umferðarráðs.

Kjartan Magnússon hefur verið borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1999. Hann hefur meðal annars átt sæti í samgöngunefnd Reykjavíkur, umhverfisráði, framkvæmdaráði og skipulagsráði og hefur þannig víðtæka reynslu af umferðarmálum. Þá var hann formaður nefndar um gerð gildandi umferðaröryggisáætlunar Reykjavíkur 2002-2007.

Megin hlutverk Umferðarráðs er að beita sér fyrir auknu umferðaröryggi og bættum umferðarháttum. Skal ráðið vera ráðherra til ráðgjafar um gerð umferðaröryggisáætlunar og framkvæmd hennar, svo og um fræðslu og upplýsingamiðlun, og vera samráðsvettvangur þeirra sem fjalla um umferðarmál og láta sig umferðaröryggi varða. Umferðarstofa leggur Umferðarráði til starfsaðstöðu.

Kjartan sat fyrsta fund sinn sem formaður Umferðarráðs í dag.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum