Hefja á endurskoðun á siglingalögum
Ákveðið hefur verið að ráðast í endurskoðun á lögum nr. 34/1985, siglingalögum. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hyggst á næstunni skipa starfshóp sem falið verður að leggja fram tillögur um hugsanlegar lagabreytingar.
Í kjölfar nokkurra alvarlegra mengunar- og umhverfisslysa sem urðu víða um heim vegna skipsskaða kringum árið 2000 var talið brýnt af alþjóðasamfélaginu að endurskoða allar alþjóðlegar reglur um siglingaleiðir og ábyrgð vegna slíkra slysa.
Við endurskoðun laganna, sem verið hefur í undirbúningi um alllangt skeið, er einnig talið brýnt að líta til þess samhengis sem alþjóðlegir samningar og reglur, sem Ísland er aðili að, gætu haft varðandi siglingamál og mengunarvarnir í kjölfar óhappa og slysa.