Hoppa yfir valmynd
23. maí 2022 Utanríkisráðuneytið

Tuttugu og þrír nemendur útskrifast frá Jafnréttisskóla GRÓ

Glaðlegir útskriftarnemendur - myndLjósmynd: Kristinn Ingvarsson

Jafnréttisskóli GRÓ (GRÓ-GEST) útskrifaði 23 sérfræðinga frá 15 löndum á föstudag, en þá var útskrift fjórtánda nemendahóps skólans frá upphafi fagnað í hátíðarsal Háskóla Íslands. Alls hafa nú 195 nemendur, frá 34 löndum útskrifast frá Jafnréttisskólanum með diplóma á meistarastigi í alþjóðlegum jafnréttisfræðum. Í ár voru í fyrsta sinn nemendur við skólann frá Moldóvu, Pakistan og Simbabve.

Í útskriftinni fengu tveir nemendur verðlaun fyrir lokaverkefni sem kennd eru við Vigdísi Finnbogadóttur verndara Jafnréttisskólans. Að þessu sinni féllu verðlaun fyrir hagnýtt verkefni í skaut Nicole Wasuna. Verkefni hennar fjallar um morð á konum í heimalandi hennar Kenía en einkum að stofnun kvenmiðaðrar miðstöðvar um réttlæti og ábyrgð. Verðlaun fyrir rannsóknarverkefni hlaut Sandani N. Yapa Abeywardena, en hún fjallaði um meðferð kynferðisbrotamála fyrir dómstólum í Sri Lanka. Hún skoðaði dóma í nauðgunarmálum, alvarlegum kynferðisafbrota- og áreitnimálum og hvernig dómarar líta á kynferði við túlkun laga um kynbundið ofbeldi og trúverðugleika fórnarlamba.

Ávörp fluttu Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, sem færði nemendum hamingjuóskir Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra, Dr. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, en Jafnréttisskólinn er hýstur af hugvísindasviði Háskólans, og Dr. Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður Jafnréttisskóla GRÓ. Diana Motsi, nemandi frá Zimbabwe flutti áhrifamikið ljóð, sem hún samdi sjálf og Maame Adwoa Amoa-Marfo frá Gana flutti ávarp fyrir hönd nemenda. Nemendur tóku við skírteinum sínum frá Ólöfu Garðarsdóttur, forseta Hugvísindasviðs HÍ, og Nínu Björk Jónsdóttir, forstöðumanni GRÓ Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu.

Jafnréttisskólinn er einn fjögurra skóla sem GRÓ Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu starfrækir á Íslandi undir merkjum UNESCO. Hinir skólarnir eru Jarðhitaskólinn, Sjávarútvegsskólinn og Landgræðsluskólinn, en GRÓ er hluti af alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Samtals hafa nú 1.536 nemendur, frá rúmlega 100 löndum, lokið námi við skólana fjóra. Að auki hafa fjölmörg styttri námskeið verið haldin á vettvangi. Einnig veitir GRÓ skólastyrki til útskrifaðra nemenda til meistara- og doktorsnáms við íslenska háskóla.

  • Verðlaunahafarnir Nicole Wasuna frá Kenía og Sandani N. Yapa Abeywardena frá Sri Lanka. - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum