Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2008 Innviðaráðuneytið

Víða hægt að auka öryggi vegfarenda með einföldum aðgerðum

Niðurstöður rannsóknir á gæðum á 2.540 km á íslenska vegakerfiinu liggja nú fyrir. Meðal niðurstaðna er að á 720 km af þessum 2.450 km er of hátt fall eða bratti við hlið vega, slitlagsbreidd er undir 6 metrum á 1.106 km og fram kemur að víða er hægt að auka öryggi vegfarenda á tiltölulega einfaldan og ódýran hátt.

Ólafur Guðmundsson greinir frá gæðamati á íslenskum vegum.
Ólafur Guðmundsson greinir frá gæðamati á íslenskum vegum.

Gæðamatið er unnið eftir stöðlum EuroRap og hefur Félag íslenskra bifreiðaeigenda annast matið með stuðningi Umferðarstofu fyrir hönd samgönguráðuneytisins. Nokkur fyrirtæki hafa einnig stutt verkefnið. Matið fór fram árin 2006 og 2007 og á þessu ári heldur verkefnið áfram og verða þá jarðgöng einnig metin.

Ólafur Guðmundsson verkefnisstjóri kynnti niðurstöðurnar á blaðamannafundi í dag en í matinu eru vegum og umhverfi þeirra gefnar stjörnur. Algengast er að vegirnir fái 3 stjörnur, eða 77% af vegum sem kannaðir hafa verið, 22,7% fá 2 stjörnur og mjög fáir vegarkaflar fá 4 stjörnur. Þannig fær tvöfaldi kaflinn á Reykjanesbraut 3 stjörnur en væru vegrið til beggja handa og milli akbrautanna fengi vegurinn 4 stjörnur.

Þá kom fram í máli Ólafs að margir góðir kaflar væru á vegakerfinu, til dæmis á Skeiðarársandi, enda væru vegir þar á sléttlendi og lítið um varasama kafla.

Meðal helstu niðurstaðna könnunarinnar eru þessar:

1. Á 720 af 2.450 km er of hátt fall eða of mikill bratti til hliðar við veginn.

2. Breidd vegar er víðast hvar of lítil og má nefna sem dæmi að á 1.106 af 2.450 km er slitlagsbreidd undir 6 metrum en samkvæmt stöðlum EuroRap dregur svo mjór vegur gæði og öryggi vegarins töluvert niður.

3. Víða er hægt að auka öryggi vegfarenda á tiltölulega einfaldan og ódýran hátt með því að fjarlægja grjót og aðrar fyrirstöður í nágrenni vega, slétta úr, fylla upp í skurði o.s.frv.

4. Hægt er að auka öryggi vega töluvert með því að setja upp ljósa- og skiltastaura sem brotna auðveldlega við árekstur.

5. Tvöfaldur kafli Reykjanesbrautar fær 3 stjörnur af 4 mögulegum í athugun EuroRap. Að mati EuroRap fengi brautin 4 stjörnur ef sett yrðu upp vegrið til sitt hvorra hliða brautarinnar og á milli akbrauta, jafnvel þótt leyfður hámarkshraði yrði aukinn um 20 km.

Fram kom í máli Ólafs að víða er unnið að úrbótum og nefndi hann sem dæmi að Vegagerðin hefði undanfarin ár sett upp vegrið þar sem þeirra væri þörf og víða lengt vegrið sem fyrir eru.

Verkefni til framtíðar

Kristján L. Möller samgönguráðherra flutti ávarp við upphaf fundarins og sagði hann að EuroRap-verkefnið væri að komast af eins konar tilraunastigi og það ætti hikstalaust að vera verkefni til framtíðar.

Í ávarpi sínu sagði samgönguráðherra einnig: ,,Staðlað gætamat á vegakerfinu sem hefur þann tilgang að sýna fram á beina kosti þess og galla er nauðsynlegt. Þetta er blákalt mat á því hvort vegir og önnur umferðarmannvirki eru örugg og ef svo er ekki þá er með rökum sýnt fram á hvað unnt er að gera til úrbóta. Allt miðar þetta að því að auka öryggi með því að draga úr afleiðingum hugsanlegra slysa, draga úr afleiðingum þess þegar eitthvað fer úrskeiðis, að mannvirkin auki ekki á meiðsli manna heldur draga úr þeim.

Í fundarboðinu var varpað fram nokkrum spurningum sem leitað verður svara við hér í dag. Ein spurningin er þessi: Er ástand og umhverfi vega meðvirkur þáttur í umferðarslysum á Íslandi? Ég hygg að þau geti verið það og EuroRap-matið getur hjálpað okkur til að svara því.

Önnur spurningin var þessi: Er með litlum og einföldum lagfæringum hægt að auka öryggi íslenskra vega til muna? Við fáum svör við þessu hjá Ólafi Guðmundssyni hér á eftir en ég er nokkuð viss um að hver og ein aðgerð sem lagt er í til að lagfæra vegakerfið eykur öryggi veganna.

Þá er það þriðja spurningin um ökuhraðann: Er hægt að hækka leyfðan hámarkshrað á tvöföldum kafla Reykjanesbrautar án þess að auka slysahættu? Við vitum alveg að aukinn hraði þýðir aukna áhættu. Hún er kannski ekki eins mikil á tvöfaldri braut og einfaldri en ég spyr er einhver ástæða til að auka leyfðan hámarkshraða? Hversu miklu munar í tíma þegar ekið er á 90 km eða 110 þessa tæpu 30 km leið sem tvöföld brautin verður? Það munar minna en fjórum mínútum. Ég trúi ekki að þær mínútur skipti sköpum í lífi okkar. Án þess að segja af eða á þá tel ég að við eigum að vera nokkuð íhaldssöm í þessum efnum.”

Í lokin sagði ráðherra að framundan væri nokkurt verk við endurbætur á vegakerfinu, það væri þegar hafið og yrði áfram á verkefnaskrá.

Kristján L. Möller ávarpar blaðamannafund um niðurstöður EuroRap.
Kristján L. Möller flytur ávarp á blaðamannafundi um EuroRap gæðamatið. Lengst til vinstri eru Birgir Hákonarson og Karl Ragnars og til hægri Ólafur Guðmundsson.


Vegrið við veg sem liggur nálægt sjó.
Hér er vegrið við veg sem liggur að sjó sem er nauðsynlegt samkvæmt stöðlum EuroRap.




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum