Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 80/2019 Úrskurður

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 28. febrúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 80/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU18120072

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 24. desember 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari Bandaríkjanna (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. nóvember 2018, um að hafna umsókn hennar um dvalarleyfi vegna náms, sbr. 65. gr. laga um útlendinga.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og henni verði veitt heimild til að dvelja hér á landi á meðan umsókn hennar er til meðferðar, sbr. 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Þann 10. febrúar 2017 birti Útlendingastofnun kæranda tilkynningu um hugsanlega brottvísun og endurkomubann vegna ólögmætrar dvalar en kærandi hafði þá samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar dvalið án dvalarleyfis á Íslandi frá því í júlí 2016. Þar sem kærandi yfirgaf landið af sjálfsdáðum var hætt við brottvísun. Kærandi sótti um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli skorts á starfsfólki þann 20. febrúar 2017 og var þeirri umsókn synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. maí 2017. Þann 31. maí 2018 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli náms ásamt beiðni um heimild til dvalar á landinu á meðan umsóknin væri til meðferðar. Þann 25. júlí 2018 var kæranda sent bréf þar sem Útlendingastofnun óskaði eftir skriflegri greinargerð frá kæranda þar sem tilgreind væri dvöl hennar á Schengen-svæðinu á árunum 2017 og 2018. Þann 18. september 2018 barst stofnuninni greinargerð frá kæranda. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. nóvember 2018, var umsókn kæranda hafnað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 13 desember 2018 og kærði hana þann 24. desember 2018 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum barst kærunefnd þann 13. janúar 2019.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að í 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga komi fram að útlendingur sem sæki um dvalarleyfi í fyrsta skipti skuli sækja um leyfið áður en hann komi til landsins og sé honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hafi verið samþykkt. Frá þessu sé heimilt að víkja skv. a-c. lið 1. mgr. 51. gr. laganna. Þá væru útlendingum sem undanþegnir eru áritunarskyldu heimilt að dvelja í 90 daga frá komu til landsins, sbr. 49. gr. laganna og 8. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Samkvæmt gögnum málsins hefði kærandi lagt fram umsókn sína eftir að 90 daga heimild hennar til dvalar hér á landi var runnin út og án þess að hafa dvalið í 90 daga utan Schengen-svæðisins áður en hún kom aftur, sbr. 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga. Hefði kærandi því verið í ólögmætri dvöl hér á landi þegar umsóknin var lögð fram og hefði henni ekki verið það heimilt skv. 51. gr. laganna. Þá væri ekkert í gögnum málsins sem benti til þess að aðstæður kæranda væru slíkar að þær teldust ríkar sanngirnisástæður í skilningi ákvæðis 3. mgr. 51. gr. né að óviðráðanlegar aðstæður hafi varnað kæranda frá því að yfirgefa landið. Hafnaði Útlendingastofnun því umsókn kæranda á grundvelli 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hún hafi komið fyrst til landsins þann 25. maí 2016 og farið aftur 1. júní sama ár. Á þeim tíma hefði hún kynnst íslenskum ríkisborgara sem hafi leitast eftir því að hún kæmi aftur til landsins til þess að hefja sambúð með honum. Hafi kærandi komið aftur til landsins þann 27. júní 2016 og hafið sambúð með manninum. Hafi hann beitt kæranda grófu og andlegu ofbeldi auk þess að beita hana hótunum og kúgunum. Með dómi héraðsdóms þann […] í máli […] var maðurinn dæmdur fyrir ofbeldi gagnvart kæranda. Vísar kærandi til þess að Útlendingastofnun hafi tilkynnt henni þann 10. febrúar 2017 að henni væri ekki heimilt að dvelja hér lengur þar sem hún hefði dvalið síðan í júlí 2016. Byggir kærandi á því að ástæða þess að hún hafi ekki yfirgefið landið hafi verið það ofbeldisfulla samband sem hún hafi verið í en maðurinn hafi beitt hana ofbeldi og þvingunum og meinað henni að yfirgefa landið. Kærandi hafi síðan farið af landi brott og komið aftur í nokkur skipti eftir það, og sé búin að slíta samvistum við manninn.

Kærandi byggir á því að hún hafi eignast vini hér á landi og heillast af landi og þjóð. Hafi hún því ákveðið að hefja nám við Háskóla Íslands og hafi því sótt um dvalarleyfi á grundvelli náms, sbr. 65. gr. laga um útlendinga. Hafi hún komið til landsins vegna þessa þann 27. nóvember 2017 og dvalið til 21. maí 2018 á meðan hún hafi verið að afla gagna fyrir umsókn sína og finna sér húsnæði. Hafi hún yfirgefið landið 30. maí 2018 til heimaríkis og komið aftur 28. júlí 2018 til þess að leggja fram frekari gögn. Hafi hún svo farið aftur til heimaríkis þann 11. ágúst 2018 og komið til landsins 19. ágúst 2018 og stundi nú nám við háskólann. Þá hafi hún yfirgefið landið þann 20. nóvember 2018 vegna vanlíðunar sonar síns í heimaríki og komið aftur þann 5. desember 2018. Hafi hún nú einnig sótt um dvalarleyfi fyrir son sinn og hafi hann hafið nám í grunnskóla hér á landi. Vísar kærandi til þess að samkvæmt 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga sé heimilt að víkja frá skilyrðum 1. mgr. ákvæðisins ef ríkar sanngirnisástæður mæli með því og telur hún að beita bera undanþágunni í máli sínu.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga er útlendingi sem þarf vegabréfsáritun til landgöngu ekki heimilt að dveljast hér á landi lengur en áritunin segir til um nema sérstakt leyfi komi til. Öðrum útlendingum sé óheimilt án sérstaks leyfis að dveljast hér lengur en 90 daga frá komu til landsins. Í 1. mgr. 50. gr. laganna er kveðið á um að útlendingur sem hyggist dvelja hér á landi lengur en honum sé heimilt skv. 49. gr. þurfi að hafa dvalarleyfi.

Í 8. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, er nánar fjallað um dvöl án dvalarleyfis. Þar segir í 1. mgr. 8. gr. að útlendingur, sem þurfi vegabréfsáritun til landgöngu, megi ekki dveljast hér á landi lengur en áritunin segir til um nema sérstakt leyfi komi til. Öðrum útlendingum sé óheimilt án sérstaks leyfis að dveljast hér lengur en 90 daga frá komu til landsins. Dvöl í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu teljist jafngilda dvöl hér á landi. Samanlögð dvöl á Schengen-svæðinu megi ekki fara yfir 90 daga á 180 daga tímabili. Þá segir í 2. mgr. 8. gr. að dvalartími útlendings sem er undanþeginn áritunarskyldu reiknist frá þeim degi er hann kom inn á Schengen-svæðið. Ef útlendingurinn hefur dvalarleyfi í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu reiknist dvalartíminn frá þeim degi er hann fór yfir innri landamæri Schengen-svæðisins.

Af framangreindum reglum leiðir að útlendingar sem hafa dvalarleyfi sem er gefið út af ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu mega dveljast hér á landi í 90 daga frá komu til landsins. Þá má samanlögð dvöl hér á landi ekki fara yfir 90 daga á 180 daga tímabili.

Kærandi er ríkisborgari Bandaríkjanna og þarf því ekki vegabréfsáritun til landgöngu hér á landi. Kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi hér á landi. Þegar kærandi lagði inn umsókn um dvalarleyfi vegna náms þann 31. maí 2018 hafði hún dvalið hér á landi frá 27. nóvember 2017, eða í um sex mánuði, en á þeim tíma yfirgefið landið í eitt skipti, frá 21. til 30. maí 2018. Því er ljóst að kærandi hafði dvalið hér á landi lengur en henni var heimilt á grundvelli áritunarskyldu þegar hún sótti um dvalarleyfi.

Í 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga kemur fram sú meginregla að útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti skuli sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins og er honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt. Frá því skilyrði er heimilt að víkja ef umsækjandi um dvalarleyfi er undanþeginn áritunarskyldu eða hann er staddur hér á landi og aðstæður hans falla undir a-c lið 1. mgr. 51. gr. Varða stafliðirnir m.a. þær aðstæður þar sem umsækjandi er maki eða sambúðarmaki íslensks ríkisborgara, sbr. a-lið, barn íslensks ríkisborgara, sbr. b-lið, eða er umsækjandi um dvalarleyfi á grundvelli 61., 63. eða 64. gr. laga um útlendinga, sbr. c-lið. Í 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga segir að heimild til dvalar þegar umsækjandi sé undanþeginn áritunarskyldu gildi þar til umsækjandi hafi dvalið í 90 daga á Schengen-svæðinu. Líkt og fyrr greinir er ljóst að kærandi hafði dvalið lengur en 90 daga á Schengen-svæðinu þegar hún lagði inn umsókn um dvalarleyfi þann 31. maí 2018 og þannig ljóst að ákvæði 2. mgr. 51. gr. á ekki við í hennar tilfelli.

Í 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að heimilt sé að víkja frá 1. mgr. 51. gr. í öðrum tilvikum en þar eru talin upp ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Í athugasemdum við 51. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. að í 3. mgr. sé heimild til að undanskilja umsækjendur frá skilyrðum 1. mgr. ef ríkar sanngirnisástæður mæli með því og sé ætlunin að ákvæðinu sé beitt þegar tryggja þurfi samvistir fjölskyldna eða þegar miklir hagsmunir séu í húfi. Í ljósi þess að um undantekningarákvæði er að ræða telur kærunefnd að skýra beri ákvæðið þröngt.

Þrátt fyrir að gögn málsins beri með sér að aðstæður kæranda hér á landi hafi verið erfiðar á árunum 2016 til 2017, einkum vegna ofbeldis sem hún varð fyrir af hálfu sambýlismanns síns, bera gögn málsins ekki annað með sér að hún hafi ekki átt í sambandi við umræddan mann síðan hún kom hingað til lands þann 27. nóvember sl. Hafa þau atvik því ekki þýðingu við mat á því hvort ríkar sanngirnisástæður mæli með því að víkja beri frá ákvæði 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Að öðru leyti fær kærunefnd ekki séð að ríkar sanngirnisástæður séu fyrir hendi í málinu.

Í 4. mgr. 51. gr. segir að ef umsækjandi um dvalarleyfi sem dvelur hér á landi sækir um dvalarleyfi án þess að vera undanþeginn því að sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins skv. 1. og 2. mgr. skuli hafna umsókninni á þeim grundvelli. Það sama eigi við ef umsækjandi kemur til landsins áður en umsókn er samþykkt. Með vísan til framangreinds verður ákvörðun Útlendingastofnunar, um að synja kæranda um dvalarleyfi með vísan til 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga, því staðfest.

Samkvæmt framansögðu hefur kærandi ekki dvalarleyfi hér á landi. Kæranda er því ekki heimil áframhaldandi dvöl hér á landi og ber henni að yfirgefa landið innan 7 daga frá móttöku úrskurðarins. Athygli kæranda er vakin á því að ef hún yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa henni, sbr. a-lið 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                              Anna Valbjörg Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum