Hoppa yfir valmynd
29. maí 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

9. fundur aðgerðahóps um launajafnrétti

Fundarheiti og nr. fundar: 9. fundur aðgerðahóps um launajafnrétti
Staður og stund:
Velferðarráðuneyti 29. maí kl. 14.30 -16.00
Málsnúmer:
VEL12100264

Mætt: Benedikt Valsson (BV,Samband íslenskra sveitarfélaga ), Hannes G. Sigurðsson (HGS,  SA), Sonja Ýr Þorbergsdóttir (SÝÞ, BSRB), Oddur S. Jakobsson (OSJ, KÍ), Sverrir Jónsson (SJ, FJR), Maríanna Traustadóttir (MT,  ASÍ), Birna Hreiðarsdóttir, formaður (BH) og Rósa G. Erlingsdóttir starfsmaður aðgerðahópsins.

Forföll: Guðlaug Kristjánsdóttir (GK, BHM), Sverrir Jónsson (SJ, FJR. boðaði forföll)
Fundarritari:
 Rósa G. Erlingsdóttir (RGE)

Dagskrá:

1.            Fundargerð 8. fundar borin undir fundarmenn

Fundargerðin samþykkt án athugasemda.

Undir fyrsta lið var rætt stuttlega um dagskrá fundarins og verkefnin framundan.

A.    Samráðshópur um jafnlaunavottun
Starfsmaður hópsins sat 2. fund samráðshóps um jafnlaunavottun sem fulltrúi aðgerðahópsins og greindi frá verkefnum hópsins.

B.    Fundur aðgerðahóps um launajafnrétti með formanni VR
Fundur formanns og starfsmanns aðgerðahópsins með Ólafíu B. Rafnsdóttur, formanni VR, og Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra VR, sem veitt hefur jafnlaunavottunarverkefni VR forystu verður  5. júní nk. 

C.   Um hlutverk og erindi aðgerðahóps um launajafnrétti.
Umræður voru um hlutverk og erindi aðgerðahópsins.  Ákveðið var að fela RGE ritun minnisblaðs þar sem fram komi tildrög verkefnis, hlutverk og erindi hópsins. Lagt verði til að undirbúið verði erindisbréf fyrir hópinn þar sem verkefni hans verði skilgreind og samþykkt af ráðherra. 

2.            Margrét K. Indriðadóttir deildarstjóri hjá Hagstofu Íslands mætir á fundinn

Frásögn af því sem kom fram í máli Margrétar

BiH kynnti starfssemi aðgerðahópsins fyrir Margréti en eitt af megin verkefnum hans er að vinna að samræmingu og framkvæmd launarannsókna. Í því verkefni felst kortlagning, söfnun og greining gagna um innlendar og erlendar rannsóknir fyrir skýrslu hópsins sem liggja mun til grundvallar vinnu hans. Markmið þessa verkefnis er að ráðist verði í heildstæða könnun um kynbundinn launamun á vinnumarkaði þeas rannsókn sem nái til vinnumarkaðarins í heild. 
Hópurinn hefur m.a horft til rannsóknar Hagstofu Íslands á leiðréttum launamun kynjanna á almennum vinnumarkaði  í samstarfi við SA og ASÍ frá árinu 2010. Rannsóknin, sem byggð er á gagnasöfnum Hagstofunnar, var framkvæmd í tengslum við kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins í febrúar 2008. Rannsóknin náði til áranna 2000-2007. Rannsókn þessi var gerð í kjölfar samkomulags og er ekki hluti af opinberri hagskýrslugerð Hagstofunnar. 
Hagstofan birtir einnig niðurstöður á óleiðréttum launamun kynjanna sem byggir á aðferðafræði Structure of Earnings Survey (SES) sem er launarannsókn á vegum evrópsku Hagstofunnar, Eurostat. Þær niðurstöður eru hluti af opinberri hagskýrslugerð Hagstofunnar og verða gefnar út einu sinni á ári. Í dag ná þær upplýsingar til áranna 2008-2012.
Niðurstöður, bæði á leiðréttum og óleiðréttum launamun, byggja á gögnum úr launarannsókn Hagstofu Íslands. Rannsóknin er byggð á úrtaki fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana með tíu eða fleiri starfsmenn. Launaupplýsingar eru fengnar um öll störf og er gagna aflað mánaðarlega rafrænt frá launagreiðendum í úrtaki. Þau atriði sem safnað er í launarannsókninni eru þegar til staðar í launahugbúnaði. Safnað er ítarlegum upplýsingum um laun, launakostnað, greiddar stundir ásamt ýmsum bakgrunnsþáttum starfsmanna og launagreiðanda. Margrét greindi stuttlega frá gagnasafni launarannsókna og öðrum gagnasöfnum Hagstofunnar, um aðferðafræði við útreikning á launamun kynjanna og hvað sé því til fyrirstöðu að ráðast í rannsókn á launamun kynjanna sem næði til vinnumarkaðar í heild sinni. 

A.   Útreikningar Hagstofunnar skv. aðferðafræði Eurostat: Óleiðréttur launamunur kynjanna 2008-2012

Í útreikningi á óleiðréttum launamuni kynjanna (unadjusted gender pay gap) er borið saman meðaltal launa karla og kvenna sem reiknuð eru niður á greiddar stundir í októbermánuði. Launahugtakið byggir á föstum reglulegum greiðslum auk yfirvinnu. Reiknað er tímakaup karla annars vegar og kvenna hins vegar og mismunur þess sem hlutfall af tímakaupi karla er túlkað sem óleiðréttur launamunur. Margrét segir að ekki sé þó alveg um óleiðréttan mun að ræða þar sem launin eru reiknuð niður á greiddar stundir og þannig leiðrétt að hluta miðað við fjölda vinnustunda. 
SES- rannsóknin er framkvæmd á fjögurra ára fresti og síðasta viðmiðunarár hennar var 2010. Árlega skila þær þjóðir sem taka þátt í SES-rannsókninni inn tölum um óleiðréttan launamun en gæði þeirra gagna er misjafn þar sem ekki búa öll lönd eins og vel og Ísland að framkvæmd sé samfelld launarannsókn alla mánuði ársins. Því byggir samanburður við lönd ESB á mælingu fyrir árið 2010. Samkvæmt niðurstöðunum 2010 var óleiðréttur kynbundinn launamunur tæplega 18% hér á landi sem er svipaður launamunur og að meðaltali í Evrópusambandinu, þ.e.a.s. konur eru með tæplega 18% lægri laun en karlar. 
Samkvæmt Margréti mun Eurostat ekki leggja í þá vegferð að rannsaka leiðréttan launamun kynjanna hjá aðildarþjóðum sínum einkum vegna þess hversu umdeilanlegt efnið er eins og hvaða skýringarbreytur eru valdar sem og hvaða tölfræðiaðferðum er beitt.

B.   Rannsókn Hagstofunnar á leiðréttum launamun kynjanna á almennum vinnumarkaði frá árinu 2010

Margrét lagði áherslu á að ekki er hægt að finna „hinn eina sanna launamun“ með rannsóknum því margir óvissuþættir geta haft áhrif á niðurstöður eins og gæði og meðhöndlun gagna, hvaða skýribreytur eru valdar og hvaða tölfræðiaðferðir eru notaðar. Markmið rannsókna á launamun kynjanna ætti því ekki að vera að finna einhverja eina stærð heldur frekar varpa ljósi á hvað geti lagt að baki þeim mun sem kemur fram á meðallaunum kynjanna og auka skilning á þeim skýringaþáttum sem áhrif hafa á launin. Þá er áhugaverðara að skoða þróun launamunar og sjá hvort hann sé að aukast eða minnka heldur en að einblína á eina stærð sem er alltaf háð óvissu. 

Rannsóknin frá 2010 er ein sú stærsta sem ráðist hefur verið í hér á landi. Ákveðið var að nota ekki eingöngu hefðbundna aðhvarfsgreiningu á þversniðsgögn eins og venjan hefur verið í rannsóknum hér á landi heldur að nota langsniðsgögn og byggja á tiltækum gögnum úr gagnasöfnum Hagstofunnar. Með langsniðsgögnum er átt við að framkvæmdar eru endurteknar mælingar á launum sömu einstaklinga yfir lengri tíma. Með þessum hætti er hægt að leggja mat á áhrif ómældra og jafnvel ómælanlegra þátta. Gagnasöfn að þessu tagi eru mjög auðug af upplýsingum og gefa færi á nákvæmri greiningu á launamun karla og kvenna en það gagnasafnið var auðgað með upplýsingum úr öðrum gagnasöfnum stofunnar.  Athuganir byggðu á launum 185 þúsund einstaklinga sem störfuðu á almennum vinnumarkaði á þeim árum sem rannsóknin náði til (2000-2007). Að sögn Margrétar var mjög tímafrekt var að auðga gagnasafn launarannsóknarinnar, til dæmis að afla upplýsinga um menntun einstaklinga en upplýsingar um menntun var sótt í margvísleg gagnasöfn Hagstofunnar. 

Í rannsókninni voru skoðaðar nokkrar aðferðir til að mæla launamun. Ein aðferðin er að bera saman meðaltal en borin voru saman meðaltöl þriggja mismunandi launasamsetninga, það er reglulegs tímakaups, reglulegs heildartímakaups og heildartímakaups. Samanburður á meðaltali launa kvenna og karla er yfirleitt settur fram sem hlutfall þar sem mismunur á launum kvenna og karla er reiknað sem hlutfall af launum karla.Til að gefa síðan enn betri mynd af stöðunni segir Margrét að reiknað hafi verið meðaltal lógóritma af launum en með því fá útgildi og öfgagildi ekki eins mikið vægi í meðaltalinu. Þá var einnig reiknuð hefðbundin aðhvarfsgreining á þversniðsgögn (árið 2007) sem og aðhvarfsgreining á langsniðsgögn (2000-2007).  Þar sem ekki er tekið tillit til einstaklingsáhrifa í gagnasafni í hefðbundinni aðhvarfsgreiningu þá var gerð flóknari aðhvarfsgreining á langsniðsgögn (GLS- RE) sem tók tillit til misdreifni einstaklinga. Þær niðurstöður voru skoðaðar enn frekar með því að sundurliða launamun í skýrðan og óskýrðan launamun en sundurliðun á launamun er aðferð sem hefur verið mikið notuð við að mæla mismun á milli hópa. 

Sem fyrr var varað við því að túlka niðurstöður sem eiginlegan launamismun þar sem ekki er hægt að útiloka tengsl milli breyta sem getur haft áhrif á niðurstöður, auk annarra óvissuþátta. Þá kom einnig fram að þótt niðurstöður úr flóknari aðhvarfsgreiningum á langsniðsgögnum gefi réttara tölfræðimat en hefðbundin aðhvarfsgreining þá sé það mat einnig bjagað þar sem í gagnasafninu reyndist fylgni milli einstaklingabreyta og annarra skýribreyta. Annað líkan gæti tekið á þessari bjögun, þ.e. fixed effect model, en til þess að geta fundið út launamun með því líkani þurfti að þróa það enn frekar. Þar sem rannsóknin var þegar orðin óhemju tímafrek var látið staðar numið í og eingöngu skoðuð ólík áhrif skýringarbreyta á laun karla og kvenna samkvæmt fixed effect líkani. Þar kom m.a. fram að karlar í samvist eru með 0,6% hærri laun en karlar sem eru ekki í samvist og eru þessi áhrif minni en hafa komið fram í öðrum rannsóknum.

Nokkrar umræður urðu og nefndarmenn spurðu Margréti út í gagnasöfn Hagstofunnar og aðferðafræði rannsóknar við mælingu á launamun kynjanna. Ef það á að endurtaka rannsókn frá 2010 þá þarf að ákveða hvaða aðferð (eða aðferðir) ætti að nota. Einnig þarf að eiga sér stað umræða um skýringarbreytur en í rannsókn frá árinu 2010 var ekki tekið afstaða til þess hvort valdar skýringarbreytur væru málefnalegar eða ekki. Við valið var eingöngu horft til þess að breytur væru hluti af gagnasöfnum Hagstofunnar og væru þekktar að hafa áhrif á laun. 

Umræða um skýribreytur

Lengi hafa verið deilur um hvaða skýringarbreytur séu málefnanlegar þegar kemur að því að skoða launamun kynjanna. Skýringarbreytur í rannsókninni frá 2010 voru lýðfræðilegar breytur (kyn, lífaldur, skráður fjöldi og aldur barna á heimili, samvist einstaklings, menntun, öryrkjastaða, ríksifangi, upprunaland og búseta) og starfstengdar breytur (starfsaldur í fyrirtæki og vinnumarkaði, stærð fyrirtækis, fjöldi vinnustunda, atvinnugrein, staðsetning fyrirtækis, starf (Ístarf 3ja stafa), iðnaðarmaður eða iðnemi, með mannaforráð, í fullu starfi, fái greidd pakkalaun, sé mánaðarmaður og borgi í stéttarfélag). Margrét sagði að erfitt sé að meta tímakaup þar sem vinnutími sé oft annað hvort of- eða vanmetinn. Þess vegna hafi verið ákveðið að reyna að meta hvort einstaklingar væru á pakkalaunum eða ekki þar sem slíkt fyrirkomulag er nokkuð algengt á íslenskum vinnumarkaði. Þá hafi verið farið niður á þriggja stafa Ístarf sem er nokkuð nákvæmt en ekki var farið niður á fjögurra stafa störf þar sem þá voru störf oft orðin kynhrein (nær eingöngu konur eða karlar í starfi). Hafa ber þó í huga að Ístarf flokkunin flokkar lík störf saman í starfaflokk þannig að í sama starfaflokk geta verið störf sem eru engu að síður ólík hvað varðar ábyrgð og umfang. Rætt var um að ekki sé hægt að notast við Ístarf flokkunina eingöngu við að skoða launamun kynjanna en það hafi orðið ljóst í vinnu tækninefndar um jafnlaunastaðal. Ástæðan sé starfslýsingar þeas lýsing á ábyrgð og inntaki starfa séu ófullnægjandi en þar sé um veigamikla skýringarbreytu að ræða.  

Í framhaldi var umræða um starfaflokkun og var vísað til svokallaðrar DISCO flokkunnar (DISCO-kode) sem danska hagstofan styðst m.a við við rannsóknir á kynbundnum launamun. DISCO er danska útgáfan að alþjóðlegum kvarða fyrir starfaflokkun sem heitir ISCO-08, International Standard Classification of Occupations frá 2008 sem unnin var af Alþjóðavinnumálastofuninni ILO og er svokölluð fimm stafa (flokka) starfaflokkun. DISCO er að mörgu leyti eins nema Danir hafa bætt við einum flokki til að ná utan um margbreytileika starfa á dönskum vinnumarkaði þeas mikla sérhæfingu stjórnunarstarfa. Til grundvallar liggur greining danska vinnumarkaðarins í 563 atvinnuflokka og síðan eru störf flokkuð samkvæmt ákveðnu ferli. Danir réðust í þessa vinnu eftir að jafnlaunalögunum var breytt þar í landi árið 2006 og sú skylda lögð á atvinnurekendur með fleiri en 35 launþega að skila Hagstofunni kyngreinanlegum launaupplýsingum árlega. 

Margrét var einnig spurð hvort hvenær hún teldi raunhæft að ráðast í rannsókn á leiðréttum launamun kynjanna sem næði til vinnumarkaðar í heild sinni byggt á gagnasöfnum Hagstofunnar. Hún sagði launarannsókn Hagstofunnar næði í dag til um 80% vinnumarkaðar og væri því orðin nægilega umfangsmikil til að alhæfa um vinnumarkaðinn í heild sinni. Mikil vinna hafi farið fram að samræma gögn frá fyrirtækjum, sveitarfélögum og stofnunum í launarannsókn. Þótt opinberi geirinn sé að skila inn gögnum í launarannsókn þá hefur ekki verið klárað að starfaflokka allar stofnanir ríkisins og er það verk í vinnslu. Búið er að atvinnugreinaflokka allan opinbera geirann og starfaflokka starfsmenn sveitarfélaga. Hægt væri að framkvæma sambærilega rannsókn og byggja á launarannsókn Hagstofunnar á næstu árum, jafnvel síðla árs 2014. Þar sem rannsókn á leiðréttum launamun kynjanna er ekki hluti af opinberri hagskýrslugerð Hagstofunnar mun Hagstofan ekki framkvæma slíka rannsókn nema að til komi samstarfssamningur við utanaðkomandi aðila. 

Í framhaldi af þessum umræðum var fram þá hugleiðing hvort aðgerðahópurinn gæti mótað tillögu að stjórnvöld stuðli að því að traust og samanburðarhæf tölfræði sér til staðar hér á landi. Vísað var í nýleg lög um ríkissáttarsemjara í Svíþjóð sem nú sér um að framkvæma rannsóknir á vinnumarkaðsmálum með reglubundnum hætti og skrifa skýrslur. Hann sæki hins vegar að sjálfsögðu öll gögn til sænsku hagstofunnar. 
Fram kemur að erfitt og þungt sé að breyta lögum, betra ef hægt er að breyta reglugerðum eða gera samkomulag um að einhver tiltekin stofnun hafi það hlutverk að birta rannsóknir með reglubundnum hætti.

3.         Verkefnaáæltun - umræða

Í lok fundar var rætt stuttlega um verkefnaáætlun og sagði RGE stuttlega frá helstu verkefnum og aðgerðum á hinum Norðurlöndunum, hjá ESB, í Kanada og Bandríkjunum. Þeirri umræðu verður haldið áfram síðar en RGE vinnur að samantekt vinnuskýrslu um launarannsóknir og „best practices“ varðandi verkefni og aðgerðir.  

Rósa Guðrún Erlingsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum