Hoppa yfir valmynd
30. mars 2018 Utanríkisráðuneytið

Herferð til kynningar á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun fela í sér fyrirheit um friðsælli, öruggari og almennt betri heim þar sem bæði velferð jarðarbúa og jarðarinnar sjálfrar eru í öndvegi. Þessi metnaðarfyllstu markmið sem þjóðir heims hafa sett sér um brýnustu viðfangsefni samtímans verða hins vegar ekki að veruleika nema við sjálf, íbúarnir á þessum hnetti, tökum markmiðin alvarlega. Til þess þarf almenningur að þekkja til þeirra og það er einmitt tilgangurinn með yfirstandandi herferð stjórnvalda þar sem kynntar eru fréttir úr framtíðinni, frá árinu 2030, sem vonandi flestir hafa séð á síðustu dögum.

Þegar Heimsmarkmiðin voru samþykkt af aðildarþjóðum Sameinuðu síðla árs 2015 sem framhald þúsaldarmarkmiðanna var lögð á það áhersla að markmiðin væru fólksins, ákveðin eftir mesta samráð sögunnar með beinni þátttöku milljóna manna og í þágu allra jarðarbúa. Kynning á sautján heimsmarkmiðum og 169 mælanlegum undirmarkmiðum hefur hins vegar víðast hvar í heiminum reynst erfitt og flókið verkefni sem sést best á því að á heimsvísu hafa skoðanakannanir sýnt að aðeins 28-45% fólks hafa heyrt af þeim. Það segir hins vegar ekkert til um það hvort fólkið þekkir markmiðin og fyrir hvað þau standa.

Verkefnastjórn íslenskra stjórnvalda um Heimsmarkmiðin undir forsæti forsætisráðuneytisins gekk til samstarfs við auglýsingastofuna Hvíta húsið um þessa fyrstu herferð til kynningar á Heimsmarkmiðunum. Markmiðin var að gera Heimsmarkmiðin „fræg“ á Íslandi, að allur þorri almennings vissi eftir herferðina af tilvist markmiðanna og gæti – ef áhugi væri fyrir hendi – aflað sér upplýsinga um innihald þeirra. Innan tíðar verður kannað hvernig til hefur tekist, hversu margir hafi heyrt af Heimsmarkmiðunum.

Eins og þið vitið sem hafið séð auglýsingar um Heimsmarkmiðin er í svokölluðum „Heimsfréttum“ sagðar fréttir frá árinu 2030, lokaári markmiðanna, í bæði gamansömum og alvarlegum tón. Logi Bergmann Eiðsson fréttaþulur, útvarps- og sjónvarpsmaður, les sjónvarpshluta fréttanna, sem birtast hafa líka á samfélagsmiðlum, en einnig hafa birst dagblaðaauglýsingar og netborðar á vinsælustu fréttaveitunum, mbl.is og visir.is.

Á vefnum – heimsmarkmidin.is – er hægt að sjá allt kynningarefnið sem birst hefur undanfarna daga auk þess sem þar er hægt að lesa sér til um markmiðin.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum