Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2012 Utanríkisráðuneytið

Ráðstefna um skapandi greinar og ESB

Silja Suntola, verkefnisstjóri Creative Finland við Alvar Aalto háskólann í Finnlandi
Silja Suntola, verkefnisstjóri Creative Finland við Alvar Aalto háskólann í Finnlandi

Fimmtudaginn 26. janúar fór fram ráðstefna um skapandi greinar og Evrópusambandið þar sem fjallað var um stefnu og framtíðarsýn ESB á sviði skapandi greina og reynslu einstakra aðildarríkja af stuðningi ESB á þessu sviði, meðal annars út frá byggðastefnu sambandsins. Ísland hefur í gegnum EES-samninginn tekið þátt í fjölmörgum áætlunum í listum, menningu, vísindum og menntun en víðtækari verkefni til atvinnuuppbyggingar í gegnum byggðasjóði sambandsins og tækifæri til að hafa stefnumótandi áhrif eru einungis í boði fyrir aðildarlönd. Ráðstefnuna sóttu um 75 manns, einkum fulltrúar stofnana á sviði menningar og skapandi greina, sveitarfélaga,  fyrirtækja og stjórnsýslu. 

Ragnar Siil, aðstoðarráðuneytisstjóri menningarmálaráðuneytis Eistlands og formaður vinnuhóps ESB um skapandi greinar, Andrew Erskine, ráðgjafi fyrir Creative Scotland hjá Tom Fleming Creative Consultancy og Silja Suntola, verkefnisstjóri Creative Finland við Alvar Aalto háskólann í Finnlandi, greindu frá framlagi skapandi greina til atvinnuuppbyggingar á norðlægum jaðarsvæðum ESB. Þá var greint frá stoðkerfi og verkefnum fyrir skapandi greinar á viðkomandi svæðum og löndum og með hvaða hætti ESB getur stutt verkefnin. Þá greindi Gunnar Magnússon, starfsmaður skrifstofu mennta- og menningarmála hjá framkvæmdarstjórn ESB frá núverandi stefnu og stuðningi ESB við skapandi greinar, og frá áformum um áætlunina “Creative Europe”. Glærur sem þau studdust við í erindum sínum eru hér. 

Margrét Sigrún Sigurðardóttir, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar skapandi greina við HÍ, stjórnaði pallborðsumræðum að fyrirlestrum loknum en með henni sátu Gunnar Magnússon, Jónas Björgvin Antonsson, stjórnarformaður Gogogic, Borghildur Sölvey Sturludóttir, stjórnarmaður Hönnunarmiðstöðvar Íslands og Einar Örn Benediktsson, stjórnarformaður Grapewire og formaður menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar. Þar var meðal annars rætt um áskoranir og tækifæri skapandi greina á Íslandi. Ása Richardsdóttir, talsmaður Samtaka skapandi greina á Íslandi, lauk ráðstefnunni með því að greina frá frá helstu verkefnum samtakanna á næstunni. 

Ráðstefnan var skipulögð af utanríkisráðuneytinu í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið, iðnaðarráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök skapandi greina, og studd af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins með TAIEX aðstoð, sjá nánar hér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum