Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Breyting á lögum um heilbrigðisstarfsmenn

Alþingishúsið
Alþingishúsið

Heilbrigðisstarfsmönnum verður heimilt að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstöð til 75 ára aldurs, með möguleika á framlengingu, í kjölfar breytinga á lögum um heilbrigðisstarfsmenn sem Alþingi samþykkti í gær. Auk þessa endurheimta áfengis- og vímuefnaráðgjafar starfsheiti sitt með lagabreytingunni.

Þann 1. janúar 2013 tóku gildi ein lög um heilbrigðisstarfsmenn og sérlög um einstakar starfsstéttir féllu úr gildi. Samkvæmt læknalögum gátu læknar starfað sjálfstætt til 75 ára aldurs og eftir það sótt um undanþágu til þess að starfa áfram, eitt ár í senn. Þetta breyttist með lögum um heilbrigðisstarfsmenn, þar sem eitt ákvæði gilti um alla heilbrigðisstarfsmenn og kvað á um að heilbrigðisstarfsmönnum væri óheimilt að reka eigin starfsstofu eftir sjötugt en þó með möguleika á framlengingu til tveggja ára að 76 ára aldri, senn samkvæmt undanþágu frá Embætti landlæknis.

Með lagabreytingunni hækka starfsaldursmörkin í 75 ár og verður heilbrigðisstarfsmönnum óheimilt að veita heilbrigðisþjónustu eftir þann aldur nema að fenginni undanþágu frá Embætti landlæknis. Að uppfylltum skilyrðum getur embættið veitt undanþágu til allt að þriggja ára í senn í fyrsta skipti en eftir það til eins árs í senn.

Áfengis- og vímuefnaráðgjafar

Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa hefur gert athugasemdir við starfsheiti sitt sem breytt var með lögum um heilbrigðisstarfsmenn í janúar 2013 í „áfengis- og vímuvarnarráðgjafar“. Með lagabreytingunni nú er orðið við óskum félagsins og starfsheitið fært til fyrra horfs; áfengis- og vímuefnaráðgjafar. Breytingin byggist meðal annars á þeim rökum félagsins að stéttin vinni ekki aðeins að áfengis- og vímuvörnum heldur stundi ráðgjöf á sjúkrastofnunum og göngudeildum fyrir áfengissjúklinga og vímuefnafíkla ásamt fjölskyldum þeirra. Áfengis- og vímuvarnir séu því einungis lítill hluti starfs stéttarinnar.

Skýrari gjaldtökuheimild vegna starfs- og sérfræðileyfa

Breyting verður á ákvæði um heimild embættis landlæknis til gjaldtöku vegna afgreiðslu og meðhöndlunar á umsóknum um starfsleyfi og sérfræðileyfi. Heimildin snýr að innheimtu gjalds af EES-borgurum og er markmiðið að gera núgildandi heimildir til gjaldtöku skýrari og markvissari.

Gildistaka 1. júlí

Lögin sem samþykkt voru á Alþingi í gær og fela í sér framangreindar breytingar öðlast gildi 1. júlí 2014.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira