Hoppa yfir valmynd
11. maí 2019 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Mikilvægi nýsköpunar og vísindasamstarfs á norðurslóðum rætt í Shanghai

Lilja Alfreðsdóttir mennta– og menningarmálaráðherra á ráðstefnu Hringborðs norðursins í Shanghai - myndMynd / Arctic Circle

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði alþjóðlega ráðstefnu Hringborðs norðursins í Shanghai í dag og fjallaði í ræðu sinni um mikilvægi vísindasamstarfs og nýsköpunar fyrir stefnumótun og framþróun á norðurslóðum.

„Þekkingar- og nýsköpun eykur lífsgæði okkar allra. Samstarf á sviði vísindarannsókna, og ekki síst þeim sem snúa að málefnum norðurslóða þar sem við eigum ríkra hagsmuna að gæta, skiptir okkur miklu máli nú og til framtíðar,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. „Við höfum meðal annars átt farsælt samstarf við Kína á fjölmörgum rannsóknasviðum og það ríkir gagnkvæmur skilningur á mikilvægi þess að viðhalda því og þróa það áfram.“

Ísland tók formlega við formennsku í Norðurskautsráðinu fyrr í vikunni og er yfirskrift formennskuáætlunar Íslands næstu tveggja ára „Saman til sjálfbærni á norðurslóðum“. Norðurskautsráðið hefur fest sig í sessi sem mikilvægasti samráðsvettvangurinn um málefni norðurslóða og alþjóðapólitískt vægi formennskunnar hefur aukist á undanförnum árum.

Meginstoð í tvíhliða samskiptum Íslands og Kína snýr að norðurslóðasamstarfi landanna, en það byggir á rammasamningi sem undirritaður var af utanríkisráðherrum landanna í opinberri heimsókn Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína til Íslands árið 2012. Viljayfirlýsing utanríkisráðuneytisins og Hafmálastofunar Kína um vísindasamstarf á sviði heimskauta- og hafrannsókna var síðan undirrituð á grundvelli hans.

Megináherslan í norðurslóðasamstarfi Íslands og Kína er á vísinda- og rannsóknarsamstarf á sviði háloftarannsókna, loftslagsrannsókna, jarðvísinda, samgöngumála og hafrannsókna á heimskautasvæðum. Rannís hefur annast framkvæmd samstarfsins fyrir hönd Íslands en Heimskautastofnun Kína (PRIC) af hálfu Kína. Heimskautastofnunin er opinber rannsóknarstofnun staðsett í Shanghai og heyrir undir auðlindaráðuneyti Kína. Starf PRIC er þungamiðja norðurslóðarannsókna í Kína og starfrækir stofnunin rannsóknastöð á Svalbarða, fjórar rannsóknastöðvar á Suðurskautinu og rekur ísbrjótinn, Snædrekann (Xuelong). Á síðasta ári var opnuð norðurslóðarannsóknarmiðstöð að Kárhóli í Þingeyjarsveit í samstarfi PRIC og Rannís.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum