Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2015 Dómsmálaráðuneytið

Morgunverðarfundur um jafnt búsetuform barna

Innanríkisráðuneytið stendur fyrir morgunverðarfundi um skýrslu innanríkisráðherra um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum. Fundurinn verður haldinn í Iðnó í Reykjavík fimmtudaginn 12. nóvember klukkan 9 til 10.30. Boðið verður uppá morgunverðarhressingu.

Hinn 12. maí 2014 var samþykkt þingsályktunartillaga á Alþingi þar sem Alþingi ályktaði að fela innanríkisráðherra í samstarfi við félags- og húsnæðismálaráðherra að skipa fimm manna starfshóp. Starfshópurinn skyldi kanna með hvaða leiðum mætti jafna stöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barna sinna með tilliti til réttinda, skyldna og skráningar sem fylgja lögheimili barns og skila þinginu skýrslu þess efnis.

Á fundinum verður farið yfir niðurstöðu starfshópsins um að tekið verði upp í barnalögin ákvæði þar sem foreldrum, sem fara sameiginlega með forsjá barns og ákveða að ala það upp saman á tveimur heimilum, verði veitt heimild til að semja um skipta búsetu barns að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ólöf Nordal, innanríkisráðherra flytur ávarp í upphafi fundar. Þórhildur Líndal, formaður starfshópsins, mun gera skýrslunni skil og fjalla um helstu niðurstöður hennar ásamt því að Guðmundur Steingrímsson, alþingismaður og flutningsmaður þingsályktunartillögunnar, tekur til máls.

Þeir sem sækja vilja fundinn eru beðnir um að senda skráningu á netfangið [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum