Hoppa yfir valmynd
22. desember 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samningur um Rannsóknasetur í barna- og fjölskylduvernd

Félagsmálaráðuneytið á aðild að samstarfssamningi sem sjö aðilar hafa gert við félagsvísindadeild Háskóla Íslands um stofnun og rekstur Rannsóknaseturs í barna- og fjölskylduvernd við félagsráðgjafaskor Háskóla Íslands.

Setrið verður staðsett við Félagsvísindastofnun. Þeir aðilar sem taka höndum saman um að styrða rekstur rannsóknasetursins eru félagsmálaráðuneytið,  Barnaverndarstofa, sem er undirstofnun félagsmálaráðuneytisins, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Þjóðkirkjan, Reykjanesbær og Efling – stéttarfélag.

Eftirfarandi upplýsingar um Rannsóknasetur í barna- og fjölskylduvernd er að finna á vef Háskóla Íslands:  

„Mikilvægt er að afla sem áreiðanlegastrar þekkingar á samhengi þeirra samfélagsáhrifa sem skapa barnafjölskyldum mismunandi uppeldisaðstæður, heilbrigði, afkomu og lífsgæði. Fyrirliggjandi þekking um aukna tíðni margvíslegra vanlíðunareinkenna, kvilla og hegðunarraskana hjá börnum og unglingum kallar á enn frekari rannsóknir, m.a hvað snertir greiningu lífshátta og samspil áhrifaþátta innan og utan fjölskyldu.

Vaxandi gróska er í rannsóknarverkefnum á sviði barna- og fjölskyldurannsókna í félagsráðgjöf við félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Námskeið í fjölskyldufræðum eru kennd á BA-og MAstigi og sérstök námslína til starfstengds fjölskyldumiðaðs meistaraprófs, MSW er í boði. Velferðarsvið (áður Félagsþjónustan) Reykjavíkur kostar lektorsstöðu í barnavernd, framkvæmdasjóður aldraðra kostar lektorsstöðu í öldrunarrannsóknum og unnið er að uppbyggingu rannsókna og kennslu á sviði sjálfboðastarfa (NGO) og opinberrar þjónustu með styrk frá RKÍ. Rannsóknasetur um barna –og fjölskylduvernd er vettvangur fyrir samræmda starfsemi í rannsóknum, fræðslu og kennslu er snerta fjölskylduvernd.

Með stofnun Rannsóknaseturs í barna-og fjölskylduvernd við félagsvísindadeild Háskóla Íslands er komið á móts við ákall stjórnvalda, almennings og vinnumarkaðar um frumkvæði vísindamanna og fagfólks að markvissum viðbrögðum í fjölskyldumálefnum.

Meginmarkmið rannsóknaseturs um barna og fjölskyldurannsókir er að efla fjölskyldu-og barnavernd á grundvelli vísindalegra rannsókna og vera víðtækur vettvangur rannsókna á sviði fjölskyldu-og barnaverndar. Sviðið fjölskyldurannsóknir tekur til rannsókna á fjölskyldumálefnum og aðstæðum barna á víðum grundvelli, svo sem: á félagslegum og tilfinningalegum aðstæðum og uppeldisskilyrðum barna og barna með sérþarfir; ungmenni/unglingar og málefni ungmenna; um fjölskyldusamskipti (siðfræði, formgerð og eðli náinna samskipta); lífsskeiðaþróun/fyrirbæri; félagsleg mismunun eftir fjölskyldugerð (einst. frásk.foreldr.); aðstæður fjölsk./barna af erlendu bergi brotin, áföll, kreppur og breytingar í málefnum barna- og fjölskyldna; starfslok, öldrun og málefni aldraðra; samþætting starfs-og fjölskyldulífs; þróun fjölskyldustofnunarinnar; löggjöf og stefnumótun; aðferðaþróun og tilraunaverkefni; þjónustuúrræði og stuðningur í málefnum barna og fjölskyldna, þmt. aldraðra og öryrkja.

Rannsóknasetrið þjónar margþættum tilgangi en fyrst og fremst að efla rannsóknir á félags-og tilfinningalegum aðstæðum barna og fjölskyldna á Íslandi, og stuðla að virkara rannsóknar- og þróunarstarfi fræðigreinarinnar innan háskólans og í samstarfi við aðila á vettvangi, en einnig í norrænu/alþjóðlegu samstarfi. Í þessu felst m.a að samhæfa og þróa þekkingar-og gagnagrunn um málefni barna og fjölskyldna í bæði fagfræðilegum og fjölskyldupólitískum tilgangi og styrkja undirstöðu fyrir skipulegt rannsóknayfirlit og rannsóknagæðamat. Starfseminni er ætlað að skapa farveg fyrir kynningu á umfangi og niðurstöðum rannsókna í félagsráðgjöf til fræðasamfélagsins, fjölmiðla og almennings og gera þær sýnilegri. þannig verða niðurstöður rannsókna í félagsráðgjöf áhrifaríkari fyrir hagsmuni almennings, vinumarkaðar og notendur í hinum ýmsu þjónustugeirum heilbrigðis-, félags-,skóla-og réttarkerfis og annara sviða félagsráðgjafar sem snerta félagslega velferð og heill barna og fjölskyldna.“



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum