Hoppa yfir valmynd
28. desember 2005 Innviðaráðuneytið

Reglugerð um fasteignaskatt

Í kjölfar breytinga á II. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga hefur félagsmálaráðuneytið, í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og Fasteignamat ríkisins, endurskoðað reglugerð um fasteignaskatt.

Flestar breytingar frá eldri reglugerð, nr. 945/2000, eru til samræmis við þær breytingar sem gerðar voru á tekjustofnalögum nr. 4/1995 á haustþingi. Má þar fyrst nefna að undanþágum frá greiðslu fasteignaskatts hefur þannig fækkað verulega. Þær nýju fasteignir sem nú verða skattskyldar eru flestar í eigu ríkissjóðs og mun breytingin skila sveitarfélögum 600 milljónum króna á ári í auknum tekjum frá ríkinu þegar hún kemur að fullu til framkvæmda. Umræddar eignir verða í sérstökum gjaldflokki er nefnist b-flokkur.

Í öðru lagi munu breytingar á Landskrá fasteigna framvegis hafa áhrif á skattstofn innan árs. Þannig verður lagður fasteignaskattur á nýjar lóðir og ný mannvirki um næstu mánaðamót eftir skráningu þeirra í Landskrá fasteigna. Frá 1. janúar 2007 verður fasteignaskattur lagður á í Landskrá fasteigna og einnig verður mögulegt að hafa sama hátt á við álagningu fasteignagjalda. Sveitarstjórnir munu ráða fjölda gjalddaga, líkt og verið hefur.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að sveitarstjórnir geti veitt styrki til greiðslu fasteignaskatts af fasteignum þar sem fram fer starfsemi sem ekki er rekin í ágóðaskyni, svo sem menningar-, íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfsemi og mannúðarstörf, í stað þess að lækka eða fella fasteignaskatt niður. Skylt er sveitarstjórn að setja reglur um beitingu þessa ákvæðis.

Sveitarstjórnir geta þó áfram lækkað eða fellt niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Nýmæli er að sveitarstjórnum er gert skylt að setja reglur um beitingu þessa ákvæðis, svo sem um tekjumörk, tekjuflokka og hvort lækkun er í formi fastrar krónutölu eða hlutfalls af fasteignaskatti.

Nýmæli í lögunum er að sveitarstjórnum er heimilað að lækka eða fella niður fasteignaskatt af bújörðum á meðan þær eru nýttar til búskapar. Áfram er heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatt af útihúsum í sveitum ef þau eru einungis nýtt að hluta eða standa ónotuð. Sveitarstjórnir skulu einnig setja reglur um beitingu þessa ákvæðis.

Skjal fyrir Acrobat ReaderReglugerð um fasteignaskatt



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum