Hoppa yfir valmynd
22. desember 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 5/2006: Dómur frá 22. desember 2006

Ár 2006, föstudaginn 22. desember, var í Félagsdómi í málinu nr.  5/2006.

                                                           

Vélstjórafélag Íslands

gegn

Samtökum atvinnulífsins f.h.

Landssambands íslenskra útvegsmanna f.h.

Útvegsmannafélags Norðurlands vegna

Brims hf.

                                                                                                                                   

kveðinn upp svofelldur

 

D Ó M U R :

 

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 21. nóvember sl.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson og Valgeir Pálsson.

 

Stefnandi er Vélstjórafélag Íslands, kt. 690269-3419, Borgartúni 18, Reykjavík.

 

Stefndi er Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Borgartúni 35, Reykjavík, f.h. Landssambands íslenskra útvegsmanna, kt. 420269-0649, Borgartúni 35, Reykjavík, f.h. Útvegsmannafélags Norðurlands, kt. 431096-3239, Fiskitanga, Akureyri, vegna Brims hf., kt. 670269-4429, Fiskitanga, Akureyri.

 

Dómkröfur stefnanda 

i.   Að viðurkennt verði að Brim hf. hafi brotið gegn ákvæði 3. mgr. greinar 5.12. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands með því að tryggja ekki eftirtöldum félagsmönnum Vélstjórafélags Íslands 30 klukkustunda hafnarfrí, að loknum veiðiferðum frystitogarans Harðbaks EA-3, skipaskrárnúmer 1412:

 

-Böðvari A. Eggertssyni, kt. 200960-4249, yfirvélstjóra, Óðni Traustasyni, kt. 211053-3729, öðrum vélstjóra og Lúðvík Trausta Gunnlaugssyni, kt. 310357- 3169, fyrsta vélstjóri, 8. mars 2004.

-Böðvari A. Eggertssyni, yfirvélstjóra og Óðni Traustasyni öðrum vélstjóra, 31. mars 2004.

-Lúðvík Trausta Gunnlaugssyni, yfirvélstjóra og Óðni Traustasyni, fyrsta vélstjóra, 28. apríl 2004.

-Böðvari A. Eggertssyni, yfirvélstjóra og Lúðvík Trausta Gunnlaugssyni, fyrsta vélstjóra, 20. maí 2004.

-Böðvari A. Eggertssyni, yfirvélstjóra, Óðni Traustasyni, fyrsta vélstjóra og Guðmundi Þór Sigurðssyni, kt. 030168-3569, öðrum vélstjóra, 23. júní 2004.

-Böðvari A. Eggertssyni, yfirvélstjóra, Óðni Traustasyni, öðrum vélstjóra og Lúðvík Trausta Gunnlaugssyni, fyrsta vélstjóra, 10. ágúst 2004.

-Böðvari A. Eggertssyni, yfirvélstjóra og Guðmundi Þór Sigurðssyni, fyrsta vélstjóra, 24. ágúst 2004.

-Böðvari A. Eggertssyni, yfirvélstjóra og Guðmundi Þór Sigurðssyni, fyrsta vélstjóra, 8. september 2004.

-Böðvari A. Eggertssyni, yfirvélstjóra, Lúðvík Trausta Gunnlaugssyni, fyrsta vélstjóra og Guðmundi Þór Sigurðssyni, öðrum vélstjóra, 13. október 2004.

-Lúðvík Trausta Gunnlaugssyni, yfirvélstjóra, Óðni Traustasyni, fyrsta vélstjóra og Guðmundi Þór Sigurðssyni, öðrum vélstjóra, 27. október 2004.

-Böðvari A. Eggertssyni, yfirvélstjóra, Óðni Traustasyni, fyrsta vélstjóra og Guðmundi Þór Sigurðssyni, öðrum vélstjóra, 18. nóvember 2004.

-Böðvari A. Eggertssyni, yfirvélstjóra, Óðni Traustasyni, öðrum vélstjóra og Lúðvík Trausta Gunnlaugssyni, fyrsta vélstjóra, 14. desember 2004.

-Böðvari A. Eggertssyni, yfirvélstjóra, Óðni Traustasyni, fyrsta vélstjóra og Guðmundi Þór Sigurðssyni, öðrum vélstjóra, 29. janúar 2005.

-Böðvari A. Eggertssyni, yfirvélstjóra, Lúðvík Trausta Gunnlaugssyni, fyrsta vélstjóra og Guðmundi Þór Sigurðssyni, öðrum vélstjóra, 11. febrúar 2005.

-Böðvari A. Eggertssyni, yfirvélstjóra og Guðmundi Þór Sigurðssyni, fyrsta vélstjóra, 13.  mars 2005.

-Lúðvík Trausta Gunnlaugssyni, yfirvélstjóra, Óðni Traustasyni, fyrsta vélstjóra og Guðmundi Þór Sigurðssyni, öðrum vélstjóra, 31. mars 2005.

-Böðvari A. Eggertssyni, yfirvélstjóra, Óðni Traustasyni, fyrsta vélstjóra og Guðmundi Þór Sigurðssyni, öðrum vélstjóra, 18. apríl 2005.

-Böðvari A. Eggertssyni, yfirvélstjóra, Lúðvík Trausta Gunnlaugssyni, fyrsta vélstjóra og Guðmundi Þór Sigurðssyni, öðrum vélstjóra, 4. september 2005.

 

ii.   Að viðurkennt verði að Brim hf. hafi brotið gegn ákvæði 3. mgr. greinar 5.12. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands með því að tryggja ekki eftirtöldum félagsmönnum Vélstjórafélags Íslands, 30 klukkustunda hafnarfrí að loknum veiðiferðum frystitogarans Kaldbaks EA-1, skipaskrárnúmer 1395:

 

-Vali Georg Finnssyni, kt. 030745-4509, yfirvélstjóra og Reyni Rósantssyni, kt. 300942-3349,  fyrsta vélstjóra, 1. desember 2005.

- Vali Georg Finnssyni, yfirvélstjóra og Reyni Rósantssyni, fyrsta vélstjóra, 1. febrúar 2006.

 

iii.   Að Brim hf. verði gert að greiða stefnanda févíti að fjárhæð kr. 7.258.900.- eða aðra lægri fjárhæð eftir mati Félagsdóms samkvæmt grein 1.56. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands, sem renni í félagssjóð stefnanda, vegna áðurgreindra 20 brota á ákvæði greinar 5.12. í kjarasamningnum.

 

iv.   Að Samtök atvinnulífsins, fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna, fyrir hönd Útvegsmannafélags Norðurlands vegna Brims hf., verði dæmd til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu.

 

Dómkröfur stefnda 

Stefndi krefst sýknu af dómkröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað.

Til vara að krafa stefnanda verði lækkuð verulega og hvor málsaðila beri sinn kostnað af málinu.

 

Málavextir

Að sögn stefnanda eru málsatvik sem hér segir:

Brim hf., gerir út Kaldbak EA-1, skipaskrárnúmer 1395 og Harðbak EA-3, skipaskrárnúmer 1412, báðir 941 brúttórúmlesta skuttogarar.

Eftirtalda daga var landað úr Harðbaki EA-3 og haldið aftur til veiða að lokinni löndun, án þess að vélstjórum skipsins, þeim félagsmönnum stefnanda sem tilgreindir eru í dómkröfum stefnu (lið nr. i), væri tryggt kjarasamningsbundið 30 klukkustunda lágmarks hafnarfrí: 8. mars, 31. mars, 28. apríl, 20. maí, 23. júní, 10. ágúst, 24. ágúst, 8. september, 13. október, 27. október, 18. nóvember og 14. desember 2004. Jafnframt 29. janúar, 11. febrúar, 13. mars, 31. mars, 18. apríl og 4. september 2005.

Þann 1. desember 2005 og 1. febrúar 2006 var landað úr Kaldbaki EA-1 og haldið aftur til veiða að lokinni löndun, án þess að vélstjórum skipsins, þeim félagsmönnum stefnanda sem tilgreindir eru í dómkröfum stefnu (lið nr. ii), væri tryggt kjarasamningsbundið 30 klukkustunda lágmarks hafnarfrí.

Af yfirliti Fiskistofu Íslands má sjá staðfestingu þess að landað var úr skipum stefnda umrædda daga. Af lögskráningarvottorðum má svo sjá að þeir vélstjórar sem tilgreindir eru í dómkröfu stefnu, félagsmenn stefnanda, voru við störf í skipum stefnda í umræddum veiðiferðum sem og þeim er á eftir komu.

Kvartað var við stefnanda á árinu 2005 vegna margendurtekinna hafnarfrísbrota fyrirsvarsmanna Brims hf., vegna útgerðar á Harðbaki EA-3 og Kaldbaki EA-1. Að beiðni formanns stefnanda var Brimi hf. ritað bréf 24. febrúar 2006 og þess krafist að útgerðin greiddi stefnanda févíti, vegna brota útgerðarinnar á ákvæði greinar 5.12. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands.  Gerð var krafa um greiðslu févítis fyrir hvert og eitt af þeim tuttugu kjarasamningsbrotum stefnda sem tilkynnt höfðu verið til stefnanda. Í bréfi stefnanda sagði orðrétt:

Við mat á afstöðu Vélstjórafélags Íslands til þessarar kröfu er fyrst og síðast litið til ítrekaðs og einbeitts brotavilja útgerðar. Eru að mati félagsins engar forsendur til þess að veita nokkurn afslátt af févítiskröfu sökum þess að hér er um mörg brot að ræða, enda er ekki kveðið á um að taka skuli tilliti til þess í framangreindum kjarasamningi.

Í bréfi lögmanns Brims hf. 6. mars 2006 sagði að löndunarfyrirkomulag Harðbaks EA-3 og Kaldbaks EA-1 væri „ekki í samræmi við grein 5.12 kjarasamnings Vélstjórafélags Íslands“. Í bréfinu var vísað til meints óskráðs samkomulags milli útgerða á Norðurlandi og stefnanda, um að ekki yrðu gerðar athugasemdir við að fyrirkomulag hafnarfría væri ekki í samræmi við framangreint kjarasamningsákvæði. Var einnig vísað til þess að fyrirkomulag hafnarfría flestallra annarra ísfiskveiðiskipa fyrir Norðurlandi væri með sama eða svipuðum hætti og hjá fiskiskipunum Harðbaki EA-3 og Kaldbaki EA-1.

Með tölvupóstbréfi til lögmanns Brims hf. 15. maí 2006 var þess óskað að tekin væri skýrari afstaða til fram kominnar kröfu stefnanda um greiðslu févítis vegna áðurgreindra kjarasamningsbrota. Svar lögmannsins var á þann veg að stefnanda var nauðsynlegt að höfða mál þetta.

 

Málsástæður stefnanda

Stefnandi kveðst byggja á eftirfarandi málsástæðum:

Samkvæmt ákvæði 3. mgr. greinar 5.12. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og stefnanda skal hafnarfrí aldrei vera skemmri tími en 30 klst. að lokinni útivist hverju sinni.  Ákvæði þetta sé að finna í kafla 5.10. í kjara-samningnum en sá kafli beri fyrirsögnina „Togarar“. Ákvæði þetta sé bæði ófrávíkjanlegt og skyldubundið og m.a. í ljósi þess séu fráleitar staðhæfingar lögmanns Brims hf. í bréfi 6. mars 2006 þess efnis að stefnandi hefði heimilað undanþágur frá ákvæðinu, samkvæmt einhverju óskráðu og óljósu samkomulagi, enda sé stefnanda, hverju sem öðru líður, óheimilt að samþykkja kjarasamningsbrot sem þessi. Í bréfi Brims hf. segir jafnframt að varðandi hafnarfrí við millilandanir skipa á ísfiskveiðum sé vitað að flestöll ísfiskveiðiskip á Norðurlandi hafi svipað fyrirkomulag á löndunum og hafnarfríum og skipin Harðbakur EA-3 og Kaldbakur EA-1 og séu nefnd nokkur skip í því sambandi. Í bréfinu segi svo orðrétt: „Skip þessi vinna eftir löndunarfyrirkomulagi, sem er ekki í samræmi við grein 5.12 kjarasamnings Vélstjórafélags Íslands.“ Þrátt fyrir að viðurkenna umrædd hafnarfrísbrot hafi útgerðin ekki boðist til þess að ljúka málinu utan réttar með greiðslu févítis í félagssjóð stefnanda.

Févítiskrafa stefnanda byggir á ákvæði greinar 1.56. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands. Í ákvæðinu segir að  kjarasamningsbrot varði útgerðarmann févíti er renni í félagssjóð Vélstjórafélags Íslands. Févíti nemi 362.945 kr. fyrir hvert þeirra brota sem um ræðir í máli þessu.

Við ákvörðun févítis verði að mati stefnanda að líta til ítrekaðra brota og einbeitts brotavilja fyrirsvarsmanna Brims hf. Útgerðinni hafi verið fullkunnugt að engin undanþága hefði verið veitt frá hafnarfrísákvæði þágildandi kjarasamnings. Engin réttlæting felist í því að benda á aðrar útgerðir sem hugsanlega hafi einnig gerst brotlegar við hafnarfrísákvæði þágildandi kjarasamnings. Brim hf. hafi áður brotið gegn gildandi kjarasamningum, sbr. m.a. dómar Félagsdóms nr. 4 og 5 frá 16. júní 2005, en þeir dómar og þau viðurlög sem af dómunum leiddu virðist ekki hafa breytt viðhorfi útgerðarinnar til gildandi kjarasamninga.

Stefnandi kveðst byggja á kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands, aðallega ákvæðum greina 1.56 og 5.12. Um málskostnað er vísað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Um kröfusamlag er vísað til 27. gr. sömu laga. Einnig vísast til laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeildur, m.a. 44. gr laganna, og 1. gr. laga nr. 55/1980.

 

Málsástæður  stefnda

Af hálfu stefnda er tekið fram varðandi málavexti að heimahöfn skipanna Harðbaks EA-3 og Kaldbaks EA-1 sé Akureyrarhöfn, en hafnarfrí, er stefnandi telur að stefndi hafi brotið, sé væntanlega í kjölfar „millilandana“ á Eskifirði, Grundarfirði og Seyðisfirði. Það fyrirkomulag sé í samræmi við framkvæmd til fjölmargra ára, sem fyrir löngu hafi orðið að venju og sé nú staðfest með kjarasamningi.

Til stuðnings sýknukröfu vísar stefndi til þess að stefnanda hafi verið ljóst til margra ára, líkt og öðrum forsvarmönnum stéttarfélaga skipverja, (Félags skipstjórnarmanna og Sjómannasambands Íslands),  að stofnast hafi réttarvenja um „millilandanir” skuttogara frá Eyjafirði.

Samkvæmt þeirri venju þá sé útivist skipa í skilningi 3. mgr. greinar 5.12. kjarasamnings ekki lokið við „millilandanir” skuttogara, þar á meðal skuttogaranna Harðbaks EA og Kaldbaks EA. Skipin Harðbakur EA og Kaldbakur EA hafi verið að veiðum (útivist) í um tvær vikur, að meðtöldum „millilöndunum”. Útivist ljúki með komu skips til heimahafnar að liðnum 14 til 17 dögum. 

Hluti ákvæðis 5.12. kjarasamnings hljóði svo:

„Hafnarfrí skal þó aldrei vera skemmri tími en 30 klst. að lokinni útivist hverju sinni. Útivist skipsins skal reiknast frá því að lagt er af stað með skipið úr höfn í veiðiferð til þess tíma sem skipið kemur til hafnar og hafnarfrí hefst.”

Réttarvenja til fyllingar kjarasamningsákvæðum þessum sé þannig að hugtakið höfn í ákvæðum þessum, sé heimahöfn skips, innan ákveðins tíma, að meðtalinni einni millilöndun. Bæði skipverjar og útgerð hafi þekkt venju þessa svo og stéttarfélög skipverja, þar á meðal stefnandi. Tími útivistar skuttogara, samkvæmt margra ára réttarvenju, (væntanlega frá árinu 1999) það sé frá heimahöfn til heimahafnar var 14 til 17 dagar, eða sá tími er fiskur gat verið í skipi án þess að skemmast.

Framkvæmd kjarasamningsákvæðis um hafnarfrí skuttogara, sem hafi orðið að venju, hafi verið staðfest skriflega í samningi milli stefnanda og Landssambands íslenskra útvegsmanna, dags. 30. desember 2005. Önnur stéttarfélög skipverja, sem starfi á skuttogurum, hafi einnig staðfest venju í nýlegum kjarasamningum.

Skuttogarar frá Eyjafirði „millilönduðu” afla utan heimahafnar á sama tímabili og stefnandi telur nú kjarasamningsbrot.

Túlkun orðsins „útivist” í ákvæði 5.12. kjarasamnings beri því að skoða í ljósi þessarar fyllingarreglu, sem stefnandi og félagsmenn stefnanda hafi ekki hreyft athugasemdum við, fyrr en með bréfi stefnanda 24. febrúar 2006.

Forsvarsmenn stefnanda þekki venjuna og hafi ekki gert athugasemd um gildi hennar fyrr en nú og þá með afturvirkum hætti með févítiskröfu að fjárhæð 7.258.900 krónur.

Það bendi til augljósrar þekkingar stefnanda á venju sem stofnast hafi að hann telur sér óþarft að leggja fram við þingfestingu stefnu, gögn frá höfnum, þar sem skipin Harðbakur EA og Kaldbakur EA millilanda afla. Stefnandi telji fyrirfram ótvírætt að tilgreind skip stefnda hafi ekki verið að lágmarki 30 klukkustundir í höfn að lokinni löndun. Það sé mat stefnanda vegna vitneskju hans um rótgróna venju er gildi um „millilandanir” allra íslenskra skuttogara. 

Stefndi muni sýna fram á tilvist réttarvenju og þá staðreynd að útgerð skipanna Harðbaks EA og Kaldbaks EA og skipverjum skipanna hafi verið ljós venja þessi og útgerð sé óheimilt að breyta venju. Þá muni verða í ljós leitt að réttarvenja þessi hafi skapast vegna augljósra hagsmuna bæði skipverja (stéttarfélaga) og útgerða af því að stöðva ekki skip langt frá heimilum skipverja.

Það sé mat lögmanns stefnda að framkvæmdastjóri stefnanda hafi ákveðið í kjölfar bréfs stefnda, dags. 3. febrúar 2006, að lögsækja stefnda, en ekki  útgerðir annarra skuttogara, sem stefnanda sé ljóst að einnig störfuðu á sama tíma (árið 2004 og 2005) eftir sambærilegu „millilöndunar” fyrirkomulagi og skipin Harðbakur EA og Kaldbakur EA.

Samkvæmt vinnurétti sé stefnanda óheimilt að breyta venju án tilkynningar til stefnda, með hæfilegum fyrirvara um ákvörðun sína. Um réttarvenjur sem fyllingarreglur í vinnurétti vísar stefndi til bókarinnar „Réttindi og skyldur á vinnumarkaði”, eftir Láru V. Júlíusdóttur, 2. útgáfa 1997,  og “Arbejdsret, 8 udgave 2002, Ole Hasselbalch.

Til stuðnings varakröfu um lækkun kröfu vísar stefndi til þess að félagsmenn stefnanda, starfsmenn stefnda, sem tilgreindir séu í stefnu, hafi ekki gert athugasemd við það form hafnarfría, sem stefndi hafi talið að venja hafi skapast um.

Ákvæði gildandi kjarasamnings aðila um févíti í grein 1.56. samningsins sé hámarksfévíti. „Kjarasamningsbrot varði útgerðarmann févíti allt að kr. 342.110.....”

Ef Félagsdómur komist að þeirri niðurstöðu að stefndi hafi brotið kjarasamning stefnanda, þá sé ástæða þess brots að efni venju sem stefndi telur að hafi myndast um hafnarfrí við „millilandanir” sé annað en stefnandi telur, eða að venja hafi ekki skapast.

Að mati stefnda beri að virða tilgreind brot stefnanda heildstætt, það er sem eitt brot. Stefnandi hafi vitneskju, eða beri sem ábyrgu stéttarfélagi að hafa vitneskju um það, að til fjölda ára hafi skuttogarar frá Eyjafirði og reyndar frá fleiri útgerðarhöfnum á Íslandi „millilandað” afla utan heimahafnar og farið til veiða að nýju, án þess að skip sé í höfn í 30. klukkustundir eftir löndun. Þrátt fyrir þessa vitneskju gerir stefnandi ekki athugasemd við stefnda, heldur safnar upp „brotum” til févítiskröfugerðar.

Févíti samkvæmt grein 1.56. kjarasamnings taki að mati stefnda til allra tilgreindra brota stefnda, en ekki til hverrar löndunar, eins og stefnandi gerir ráð fyrir í stefnu.

Stefnandi gæti eins miðað fullframið brot, við hverja klukkustund sem líði frá því að hafnarfrí átti að hefjast, eða fjölda þeirra félagsmanna stefnanda er brotið sé á að mati stefnanda.

Telji Félagsdómur að brot hafi verið framið felist eitt brot í því að stefndi veitti ekki hafnarfrí við „millilandanir” á tilgreindu tímabili. Stefndi vísar til dóms Félagsdóms F-7/2005.

Stefndi gerir kröfu til þess í varakröfu að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu, samanber 3. mgr. 130. gr. laga 91/1991.

Stefndi byggir kröfur sínar á almennum reglum vinnuréttar, ákvæðum laga 91/1991 um sönnun og sönnunargögn, samanber 69. gr. laga 80/1938.  Þá byggir stefndi á ákvæðum greinar 5.12. og 1.56. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands, dags. 30. desember 2005. Þá byggir stefndi á niðurstöðu Félagsdóms nr. F-7/2005.

Varðandi málskostnað vísar stefndi til ákvæðis 1. mgr. og 3. mgr. 130. gr. laga 91/1991.

 

Niðurstaða

Ágreiningslaust er með aðilum að skipin Harðbakur EA-3 og Kaldbakur EA-1, sem gerð eru út á vegum stefnda Brims hf. hafi í þeim tilvikum sem í stefnu eru tilgreind ekki stöðvað í 30 klukkustundir í höfn að lokinni löndun.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stofnast hafi „réttarvenja um millilandanir“ skuttogara frá Eyjafirði. Samkvæmt þeirri venju þá sé útivist skipa í skilningi 3. mgr. greinar 5.12. kjarasamnings ekki lokið við „millilandanir“ skuttogara. Þetta eigi við um skuttogarana Harðbak EA-3 og Kaldbak EA-1 sem hafi verið að veiðum (útivist) í um tvær vikur, að meðtöldum „millilöndunum“. Útivist ljúki með komu skips til heimahafnar að liðnum 14 til 17 dögum.

Samkvæmt skýru ákvæði 3. mgr. greinar 5.12. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og stefnanda skal hafnarfrí aldrei vera skemmri tími en 30 klst. að lokinni útivist hverju sinni. Samkvæmt 4. mgr. greinar 5.12. kjarasamningsins skal útivist skipsins reiknast frá því að lagt er af stað með skipið úr höfn í veiðiferð til þess tíma sem skip kemur til hafnar og hafnarfrí hefst. Svokallaðar „millilandanir“ eru ekki undanskildar lágmarkstíma um 30 klst. hafnarfrí. Þá hefur stefndi ekki sýnt fram á að stofnast hafi venja um túlkun greindra kjarasamningsákvæða þess efnis að túlka beri hugtakið höfn sem heimahöfn skips. Hefur og enga þýðingu í því sambandi þótt einstakar útgerðir á Norðurlandi hafi samið sérstaklega við félög sjómanna og skipstjórnarmanna um annað fyrirkomulag á hafnarfríum en greinir í kjarasamningi. Ekkert slíkt samkomulag hefur verið gert við stefnanda og er ekki á það fallist að slík venja hafi myndast. Er þeirri málsástæðu stefnda hafnað.

Til vara gerir stefndi kröfu til þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega, enda beri að virða brot stefnda heildstætt sem eitt brot.

Fyrir liggur að stefndi Brim hf. hefur í 20 skipti, eins og rakið er í stefnu, brotið gegn ákvæði 3. mgr. greinar 5.12 í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands með því að tryggja ekki tilgreindum félagsmönnum Vélstjórafélags Íslands 30 klukkustunda hafnarfrí í þeim tilvikum sem greind eru. Um er að ræða 18 tilvik varðandi skipið Harðbak EA-3 og 2 tilvik varðandi skipið Kaldbak EA-1. Verður því fallist á viðurkenningarkröfur stefnanda í málinu.        

Samkvæmt grein 1.56 í greindum kjarasamningi varðar kjarasamningsbrot útgerðarmann févíti allt að 342.110 krónum er renni í félagssjóð stefnanda. Í dómi Félagsdóms frá 21. desember 2005 í máli nr. 7/2005 er fjallað um eðli févítisákvæðis sem þessa í kjarasamningi og bent á að bersýnilega sé um að ræða ákvæði á einkaréttarlegum samningsgrundvelli. Þar segir að margvísleg álitamál geti komið upp við ákvörðun févítisgreiðslu og verulegur vafi leiki á því hvernig beri að skilgreina brot í þessu sambandi, þar á meðal hvenær beri að virða fleiri brot heildstætt, þ.e. sem eitt brot, eins og stefndi heldur fram í máli þessu. Þegar litið er til þess að um samkynja og áframhaldandi athafnir var að ræða af hálfu hins stefnda útgerðarfélags sem virðast hafa átt sér stað á grundvelli ákveðinnar túlkunar á því hvaða ákvæði um hafnarfrí giltu um veiðar skipanna er fallist á að líta beri á brotin heildstætt. Er þá einnig litið til þess að landanir með þessum hætti á frystitogaranum Harðbak EA-3 höfðu viðgengist um lengri tíma án þess að fyrir liggi að gerð hafi verið við það athugasemd af hálfu stefnanda.  Að þessu athuguðu þykir eftir atvikum rétt að líta svo á að um eitt brot sé að ræða varðandi hvort skip stefnda sem um er að ræða í máli þessu. Samkvæmt því ber að dæma stefnda Brim hf. til greiðslu févítis að fjárhæð 684.220 krónur er renni í félagssjóð Vélstjórafélags Íslands. Er þá miðað við þá grunnfjárhæð févítis, sem tilgreind er í kjarasamningi, enda hefur ekki verið sérstaklega rökstutt af hálfu stefnanda með hvaða hætti beri að framreikna þá fjárhæð.

Eftir framangreindum úrslitum þykir rétt að stefndi greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.

 

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Brim hf., braut gegn ákvæði 3. mgr. greinar 5.12. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands með því að tryggja ekki tilgreindum félagsmönnum Vélstjórafélags Íslands 30 klukkustunda hafnarfrí, að loknum veiðiferðum frystitogarans Harðbaks EA-3, skipaskrárnúmer 1412, tímabilið 8. mars 2004 til 4. september 2005 og frystitogarans Kaldbaks EA-1 tímabilið 1. desember 2005 til 1. febrúar 2006.

Stefndi, Brim hf., greiði 684.220 krónur í févíti er renni í félagssjóð Vélstjórafélags Íslands.

Stefndi, Samtök atvinnulífsins, fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna, fyrir hönd Útvegsmannafélags Norðurlands, vegna Brims hf., greiði stefnanda, Vélstjórafélagi Íslands, 200.000 krónur í málskostnað.

 

 

Eggert Óskarsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson

Valgeir Pálsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum