Hoppa yfir valmynd
8. mars 2017 Utanríkisráðuneytið

Barátta fyrir jafnrétti kynjanna hornsteinn í utanríkisstefnunni

Barbershop merkið
Barbershop

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er haldinn hátíðlegur víða um heim og í Bandaríkjunum munu konur leggja niður störf að íslenskri fyrirmynd til að krefjast viðurkenningar á réttindum sínum og mikilvægi þeirra í efnahagskerfi og þjóðlífi þar í landi. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir það sérstakt fagnaðarefni hversu mikið sé litið til Íslands sem forysturíkis í jafnréttismálum enda skipar Ísland ítrekað fyrsta sæti í alþjóðlegum samanburði. Í dag kom út einn slíkur listi hjá Economist þar sem litið er til stöðu kvenna á vinnumarkaði og vermir Ísland enn á ný efsta sætið: http://www.economist.com/blogs/graphicdetail/2017/03/daily-chart-0 

„Jafnrétti kynjanna hefur lengi verið einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu enda þykir sýnt að valdefling kvenna og jafnrétti kynjanna eru undirstaða sjálfbærrar þróunar og þátttaka kvenna í friðarferlum stuðlar að langvarandi friði. Jafnrétti er einnig eitt af meginþemum Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og lykilforsenda fyrir því að þau náist því án þátttöku kvenna verður ómögulegt að útrýma fátækt og hungri og heilbrigði sjávar og lands verður telft í tvísýnu,“ segir utanríkisráðherra. 

Á alþjóðlegum vettvangi hefur utanríkisþjónustan beitt sér sérstaklega í málefnum er varða kyn- og frjósemisheilbrigði og -réttindi, ályktun öryggisráðsins nr. 1325 um konur, frið og öryggi, þátttöku kvenna í loftlagsaðgerðum og síðast en ekki síst, virkri þátttöku karla í jafnréttisumræðunni. 

Oft er leitað í smiðju íslenskra stjórnvalda þegar unnið er að umbótum í jafnréttismálum. Nú síðast hefur jafnlaunastaðallinn, sem þróaður var í samvinnu aðila vinnumarkaðarins, þ.m.t. stjórnvalda, og áætlanir ríkisstjórnarinnar um að innleiða jafnlaunavottun hjá stærri fyrirtækjum vakið mikla athygli erlendis.

Utanríkisþjónustan hefur staðið fyrir svokölluðum rakarastofuviðburðum á vettvangi nokkurra alþjóðastofnana sem Ísland á aðild að, nú síðast í gær á vettvangi

Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE). Tilgangur þeirra er að til að efla rödd karla í þágu jafnréttis og vekja þá til umhugsunar um hag þeirra af jafnara þjóðfélagi. Utanríkisráðherra segir að hugmyndin um rakarastofuna falli vel að HeForShe-kynningarátaki UN Women, stofnunar SÞ um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna, sem forsætisráðherra er í forsvari fyrir og sett var af stað til að fá karlmenn um allan heim til að beita sér fyrir jafnrétti. Undanfarna mánuði hefur landsnefnd UN Women unnið svokallaða rakarastofuverkfærakistu fyrir utanríkisráðuneytið. Verkfærakistan á að gera öðrum kleift að halda rakarastofuviðburði og hvetja til umræðu um jafnrétti.

 

Verkfærakistan er hluti af HeForShe skuldbindingum íslenskra stjórnvalda og var formlega afhent framkvæmdastýru UN Women í New York fyrr í dag af Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra. Verkfærakistuna er að finna á vef HeForShe-átaksins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira