Hoppa yfir valmynd
30. mars 2017 Utanríkisráðuneytið

Forseti og utanríkisráðherra funduðu með Pútín

Forseti Íslands, utanríkisráðherra og Rússlandsforseti - mynd

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, áttu í dag fund með Vladimír Pútín Rússlandsforseta, í Arkhangelsk, þar sem þeir taka þátt í ráðstefnu um málefni norðurslóða. Tvíhliða samskipti ríkjanna, viðskipti, og ýmis alþjóðamál voru rædd á fundinum, m.a. innflutningsbann Rússa á íslenskar vörur og norðurslóðamál.

„Þetta var góður fundur. Samskipti okkar eiga sér langa sögu og varða allt frá viðskiptum og menningu til öryggismála. Þó við séum vissulega ekki sammála um allt, er mikilvægt að við gætum þess að eiga regluleg samskipti og ræða saman í hreinskilni,“ segir Guðlaugur Þór.

Samskipti Íslands og Rússlands ná langt aftur og varða ýmis svið. Nýlega lauk árlegu viðskiptasamráði ríkjanna og áhugi er t.d. á samvinnu íslenskra og rússneskra fyrirtækja á sviði nýsköpunar og jarðhita í austurhluta Rússlands. Þá er áhugi á frekara samstarf í tengslum við sjávarútveg til að fylgja eftir heimsókn tíu íslenskra fyrirtækja, m.a. tæknifyrirtækja, til Múrmansk fyrr í vetur.

Þá bar menningarsamstarf og íþróttir á góma en á næsta ári verður heimsmeistaramótið í fótbolta haldið í Rússlandi og ýmsir menningarviðburðir þar sem íslenskir listamenn taka þátt, eru fyrirhugaðir í Rússlandi á þessu ári; kvikmyndahátíð, ljósmyndasýning, heimsóknir tónlistarmanna og rithöfunda o.fl.

Þvingunaraðgerðir vestrænna ríkja og innflutningsbann Rússlands voru enn fremur til umfjöllunar, og benti Guðlaugur Þór á hversu umfangsmiklar gagnaðgerðir rússneskra stjórnvalda hefðu neikvæð áhrif á viðskipti ríkjanna og beindust einnig gegn rússneskum almenningi. Innflutningsbannið hefur meðal annars leitt til þess að fiskneysla í Rússlandi hefur dregist saman um 30%. Utanríkisráðherra nefndi líka málefni tengd rússneska matvælaeftirlitinu en bönn og flóknir ferlar hafa leitt til vandamála fyrir íslensk fyrirtæki um nokkurt skeið.

Málefni norðurslóða voru til umræðu en gott samstarf hefur á mörgum málefnasviðum, t.d. innan Norðurskautsráðsins og var á fundinum lögð áhersla á að svo yrði áfram.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum