Hoppa yfir valmynd
18. apríl 2017 Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór fundar með Boris Johnson

Guðlaugur Þór Þórðarson og Boris Johnson
Guðlaugur Þór Þórðarson og Boris Johnson

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti í dag fund með Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands í Lundúnum þar sem þeir ræddu útgöngu Breta úr Evrópusambandinu og leiðir til að efla samskipti Íslands og Bretlands i kjölfar útgöngunnar. „Þetta var afar jákvæður og gagnlegur fundur og mikill samhljómur ríkti,“ segir utanríkisráðherra. „Við vorum sammála um að styrkja enn frekar þau ríku tengsl sem við höfum átt í gegnum tíðina við Breta, sem eru meðal okkar nánustu bandamanna og vinaþjóða. Bretar eru að ganga í gegnum afar spennandi tíma umbreytinga í kjölfar Brexit og við vorum sammála um að það væru mikil tækifæri fólgin í þessari stöðu,“ sagði Guðlaugur Þór eftir fundinn.

Á fundinum fór utanríkisráðherra yfir viðskipti þjóðanna tveggja en Bretland er meðal mikilvægustu markaða fyrir íslenskar útflutningsvörur. Voru ráðherrarnir sammála um að viðskipti landanna í kjölfar útgöngu Breta verði byggð á grunni sem veitti jafngóðan eða betri markaðsaðgang og nú ríkir á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES). „Þessi mál eru augljóslega í mikilli deiglu en það var mikilvægt að heyra hversu mikið vægi bresk stjórnvöld leggja í öflug tvíhliða samskipti þjóðanna,“ segir utanríkisráðherra. Ráðherrarnir ræddu einnig þau tækifæri sem uppi væru í fríverslun í heiminum í dag og þörfina á auknu frelsi í alþjóðaviðskiptum.

Ráðherrarnir voru ennfremur sammála um að útvíkka reglubundinn samráðsvettvang ríkjanna um viðskiptamál til að ræða frekar sértæk sameiginleg hagsmunamál. Málefni sjávarútvegsins hafa verið á dagskrá samráðsfunda embættismanna ríkjanna og mun áhersla verða lögð á að efla enn frekar samstarf á sviði fiskveiðistjórnunar. Þá verður samstarf ríkjanna á vettvangi orku- og umhverfismála eflt. Samráðsvettvangurinn mun einnig taka til möguleika á nánara samstarfi ríkjanna í öryggis- og varnarmálum, bæði tvíhliða og á vettvangi Atlantshafsbandalagsins (NATO). „Þetta var afar góð niðurstaða og í raun staðfesting á því hversu mikilvæg samskipti ríkjanna eru,“ segir utanríkisráðherra.

Ráðherrarnir ræddu einnig stöðuna í alþjóðamálum, einkum og sér í lagi átökin í Sýrlandi og samskipti Rússlands við vestrænar þjóðir. Þá ræddu ráðherrarnir enn fremur stöðu mannréttinda í heiminum og viku sérstaklega að jafnréttismálum þar sem þeir sammæltust um að halda áfram að leggja sín lóð á vogarskálarnar við að styðja #HeforShe átak UN Women. „Þá var óhjákvæmilegt að ræða stuttlega stöðuna í breskum stjórnmálum með hliðsjón af fyrirhuguðum þingkosningum í júní. Það eru áhugaverðir tímar framundan í Bretlandi og mikil tækifæri í samskiptum okkar við Breta,“ segir Guðlaugur Þór.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira