Hoppa yfir valmynd
13. apríl 2023

Mál nr. 75/2023 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 75/2023

Fimmtudaginn 13. apríl 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 6. febrúar 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. nóvember 2022, um að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 1. nóvember 2022. Í umsókn kæranda kemur fram að hún hafi sagt upp starfi sínu. Með erindi Vinnumálastofnunar, dags. 11. nóvember 2022, var kæranda boðið að veita nánari skýringar á starfslokum sínum. Skýringar bárust stofnuninni 15. nóvember 2022. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. nóvember 2022, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt en með vísan til starfsloka hennar hjá fyrrum vinnuveitanda væri réttur til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. febrúar 2023. Með bréfi, dags. 20. febrúar 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 27. febrúar 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. mars 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi sagt upp starfi sínu hjá fyrrum vinnuveitanda og síðasti vinnudagur hennar hafi verið 31. ágúst 2022. Kærandi hafi haft vitneskju um tveggja mánaða biðtíma atvinnuleysisbóta. Hún hafi skilað inn umsókn um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þann 1. nóvember 2022 og hafi skráð síðasta vinnudag sinn þann 31. ágúst 2022. Vegna misskilnings hafi kærandi sótt um atvinnuleysisbætur tveimur mánuðum frá starfslokum en ekki síðasta vinnudegi, eða þann 1. september 2022. Niðurstaða Vinnumálastofnunar hafi verið þess efnis að kærandi ætti rétt á bótum eftir tveggja mánaða biðtíma frá umsóknardegi en ekki tveimur mánuðum eftir starfslok. Kærandi hafi sent Vinnumálastofnun bréf þar sem hún hafi beðið um endurskoðun á ákvörðun stofnunarinnar því að augljóslega hafi verið um misskilning hennar að ræða og algjör mistök. Vinnumálastofnun hafi hafnað erindi hennar að nýju.

Kærandi hafi hafið störf á nýjum vinnustað þann 16. janúar 2023. Í kjölfarið hafi hún afskráð sig af atvinnuleysisbótum. Kærandi hafi verið skráð með atvinnuleysisbætur í fjóran og hálfan mánuð og á þeim tíma fengið samtals 160.230 kr. greiðslu. Kærandi hafi ekki fengið greidda tekjutengingu þar sem hún eigi ekki rétt á slíku eftir þriggja mánaða bótatímabil. Hún hafi ekki fengið greiðslur atvinnuleysisbóta fyrr en 1. janúar 2023 svo að umrætt þriggja mánaða bótatímabil standist ekki.

Kærandi fari fram á að mál hennar verði endurskoðað í heild sinni. Hún telji að hún eigi rétt á bótum frá og með 1. desember 2022 í síðasta lagi og jafnframt tekjutengingu.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 1. nóvember 2022. Meðfylgjandi umsókn hennar hafi verið fylgiskjal þar sem kærandi hafi skýrt nánar frá aðstæðum sínum. Í skjalinu hafi komið fram að kærandi hafi sagt upp störfum hjá fyrri vinnuveitanda, B ehf., vegna samdráttar í rekstri fyrirtækisins. Í kjölfarið hafi henni staðið til boða að sinna stjórnun og daglegum störfum hjá fyrirtækinu, auk þeirra starfa sem hún hafi almennt sinnt. Kærandi hafi starfað sem sölustjóri hjá fyrirtækinu og því hafi þau störf sem henni hafi staðið til boða að sinna ekki verið innan hennar verksviðs. Kærandi hafi greint frá því að hún hafi hvorki verið ráðin til að sinna slíkum verkefnum né hafi hún treyst sér til þess. Af þeim sökum hafi kærandi ákveðið að segja upp starfi sínu. Hún hafi verið þeirrar trúar að lítið mál yrði fyrir hana að fá fljótlega aftur vinnu.

Með erindi, dags. 11. nóvember 2022, hafi Vinnumálastofnun óskað þess að kærandi afhenti staðfestingu á starfstímabili hjá fyrrum vinnuveitanda, B ehf. Vinnumálastofnun hafi jafnframt óskað eftir því að kærandi myndi veita stofnuninni frekari skýringar á ástæðum starfsloka hennar. Þann 15. nóvember 2022 hafi kærandi átt í samskiptum við starfsmann Vinnumálastofnunar símleiðis. Kærandi hafi greint frá því að hún hafi sagt upp störfum í ágúst vegna slæms vinnuumhverfis. Kærandi hafi hins vegar ekki sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta hjá stofnuninni strax í kjölfar starfsloka sinna því að hún hafi haldið að hún ætti að bíða í tvo mánuði. Kæranda hafi verið ráðlagt af starfsmanni Vinnumálastofnunar að útbúa skýringarbréf af þeim sökum og senda stofnuninni. Frekari skýringar kæranda hafi borist Vinnumálastofnun þann 15. nóvember 2022. Kærandi hafi greint frá því að sökum misskilnings hafi hún ekki sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta strax eftir starfslok. Kærandi hafi óskað eftir því að litið yrði fram hjá þeim misskilningi hennar.

Með erindi, dags. 16. nóvember 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar væri samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%. Með vísan til starfsloka hennar hjá B ehf. væri réttur hennar til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í tvo mánuði. Ranglega hafi verið tilgreint í ákvörðunarbréfi stofnunarinnar að réttur kæranda til atvinnuleysisbóta væri felldur niður frá og með 16. nóvember 2022. Hið rétta sé að réttur kæranda hafi verið felldur niður frá og með 1. nóvember 2022, eða frá dagsetningu umsóknar hennar. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Sama dag, eða þann 16. nóvember 2022, hafi kærandi skilað frekari skýringum til Vinnumálastofnunar. Skýringar kæranda hafi verið efnislega samhljóða þeim sem hún hafi áður veitt stofnuninni. Í skýringum kæranda hafi komið fram að um augljósan misskilning væri að ræða og óskaði hún þess að ákvörðun stofnunarinnar yrði endurskoðuð. Í kjölfarið hafi ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. nóvember 2022, verið tekin til endurumfjöllunar. Með erindi, dags. 17. nóvember 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að mál hennar hafi verið tekið fyrir að nýju með tilliti til nýrra gagna. Mat stofnunarinnar væri þó að staðfesta bæri fyrri ákvörðun frá 16. nóvember 2022.

Lög nr. 54/2006 gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í máli kæranda hafi hún sjálf sagt upp störfum hjá fyrrum vinnuveitanda sínum, B ehf. Kæranda hafi af þeirri ástæðu verið gert að sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 16. nóvember 2022, sem síðar hafi verið staðfest með ákvörðun, dags. 17. nóvember 2022. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi kæranda verið gert að sæta biðtíma frá og með 1. nóvember 2022. Kærandi hafi farið fram á það að sú ákvörðun stofnunarinnar yrði endurskoðuð, enda hafi hún vegna misskilnings ekki sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta strax í kjölfar atvinnuleysis síns. Hún hafi vitað að henni yrði gert að sæta biðtíma í tvo mánuði og því hafi hún ekki lagt inn umsókn til Vinnumálastofnunar fyrr en að tveimur mánuðum liðnum frá starfslokum hennar.

Í 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum sé heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verði atvinnulausir. Þá segi í 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum getur átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögum þessum. Biðtími eftir greiðslum atvinnuleysisbóta skv. X. kafla telst hluti tímabilsins. Hið sama á við þegar greiddar eru hlutfallslegar atvinnuleysisbætur, sbr. 17. eða 22. gr.“

Í athugasemdum við 29. gr. í frumvarpi með lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram að miðað sé við að það tímabil sem atvinnuleysisbætur séu greiddar hefjist þegar Vinnumálastofnun móttaki umsókn um atvinnuleysisbætur. Það sé því grundvallarskilyrði fyrir því að eiga rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga að hinn tryggði sæki um slíkt með umsókn til Vinnumálastofnunar.

Kæranda hafi verið gert að sæta biðtíma samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæðið sé svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur á sök á. Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1. mgr.“

Samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi þeir sem hafi sagt upp störfum sínum án gildra ástæðna ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir. Í ákvæðinu sé kveðið á um að biðtími skuli hefjast frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 1. nóvember 2022. Ákvörðun Vinnumálastofnunar þess efnis að kærandi skuli sæta biðtíma frá og með 1. nóvember 2022 sé því í samræmi við ákvæði 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála hafi kærandi jafnframt gert athugasemdir við það að hún hafi ekki fengið greidda tekjutengingu. Í 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um tekjutengdar atvinnuleysisbætur. Í 9. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að hver sá sem sæti biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæðum X. kafla laganna eigi ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum. Kærandi hafi því ekki átt rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að staðfesta beri ákvörðun stofnunarinnar, dags. 16. nóvember 2022, þess efnis að biðtími kæranda hafi átt að hefjast þann 1. nóvember [2022]. Sú niðurstaða leiði af 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt til greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta, sbr. 9. mgr. 32. gr. sömu laga.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 54. gr. laganna er svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Óumdeilt er að kærandi sagði upp starfi sínu hjá B ehf. en ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta frá 1. nóvember 2022 þar sem tímabil niðurfellingar bóta samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi þegar verið liðið þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun.

Í 9. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um umsókn um atvinnuleysisbætur og er 1. mgr. lagagreinarinnar svohljóðandi:

„Launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum er heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verða atvinnulausir. Umsóknin skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og henni skal meðal annars fylgja vottorð fyrrverandi vinnuveitanda, staðfesting um stöðvun rekstrar og önnur nauðsynleg gögn að mati Vinnumálastofnunar. Í umsókn skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum.“

Í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum. Í athugasemdum við 29. gr. frumvarps þess sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að miðað sé við að það tímabil sem atvinnuleysisbætur séu greiddar hefjist þegar Vinnumálastofnun móttaki umsókn um atvinnuleysisbætur.

Vinnumálastofnun tók við umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur 1. nóvember 2022 og á kærandi því ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir þann tíma, sbr. 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006. Niðurfelling atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 getur því einungis reiknast frá 1. nóvember 2022 þegar umsókn um atvinnuleysisbætur barst Vinnumálastofnun.

Í kæru gerði kærandi athugasemdir við að hún hefði ekki fengið greidda tekjutengingu. Í 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um tekjutengdar atvinnuleysisbætur. Þar segir í 9. mgr. að hinn tryggði sem sætir biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæðum X. kafla skuli ekki eiga rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum. Þar sem kærandi sætti biðtíma eftir atvinnuleysisbótum átti hún ekki rétt á greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta.

Með vísan til alls framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. nóvember 2022, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

_________________________________

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum