Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 404/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 404/2019

Miðvikudaginn 6. nóvember 2019

A

v/B

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 25. september 2019, kærði A , til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 3. júlí 2015, þar sem umönnun sonar kæranda, B, var felld undir 2. flokk, 43% greiðslur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umönnunarmati Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 3. júlí 2015, var umönnun sonar kæranda felld undir 2. flokk, 43% greiðslur, frá X til X. Þá var umönnun vegna sonar kæranda felld undir 2. flokk, 43% greiðslur, frá X til X með umönnunarmati, dags. 19. september 2018.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 25. september 2019.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því í kæru að sonur hennar hafi verið í 2. umönnunarflokki, 85% greiðslum, þangað til 3. júlí 2015 þegar greiðsluhlutfallið hafi verið lækkað með litlum sem engum skýringum. Kærandi hafi ítrekað reynt að fá svör frá Tryggingastofnun en hún hafi gefist upp á því og þá hafi hún ekki vitað að hægt hafi verið að kæra til úrskurðarnefndar fyrr en núna í ár.

Sonur kæranda þurfi töluverða umönnun og að mati kæranda tilheyri hann alls ekki núverandi flokki sem Tryggingastofnun hafi flutt hann í án skýrra svara, þ.e. lækkun úr 85% greiðslum niður í 43% greiðslur. Kærandi hafi leitað til ráðgjafa síns hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og einnig hjá félagsráðgjafa á þjónustumiðstöð sem báðir hafi sent Tryggingastofnun bréf um endurupptöku málsins án árangurs.

III. Niðurstaða

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. september 2019, fylgdi kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála. Í kæru kemur aftur á móti skýrt fram að kæra varði ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 3. júlí 2015 þar sem umönnun sonar kæranda var metin í 2. flokk, 43% greiðslur, frá X til X. Úrskurðarnefndin telur því ljóst að kæran lúti að síðarnefndu ákvörðuninni.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar almannatrygginga, forvera úrskurðarnefndar velferðarmála, og um tímalengd kærufrests.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 25. september 2019, en þá var kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar löngu liðinn.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

  1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
  2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Samkvæmt gögnum málsins leið meira en ár frá því að kæranda var tilkynnt um ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins þann 3. júlí 2015 og þar til kæra barst úrskurðarnefndinni þann 25. september 2019. Þegar af þeirri ástæðu skal kæru ekki sinnt, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Kæru er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála þar sem kærufrestur er liðinn.

Kæranda er bent á að ekkert virðist vera því til fyrirstöðu að hún geti sótt um umönnunargreiðslur til Tryggingastofnunar að nýju með því að skila inn nýrri umsókn. Í kjölfarið gæti hún kært nýja ákvörðun stofnunarinnar til úrskurðarnefndarinnar innan kærufrests, verði hún ósátt við niðurstöðuna.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum