Hoppa yfir valmynd
13. apríl 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 3/2016.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 4. apríl 2016

í máli nr. 3/2016:

Úti og inni sf. og

Landform ehf.

gegn

Hafnarfjarðarkaupstað,

STH teiknistofu ehf. og

Landmótun sf.

Með kæru 25. febrúar 2016 kæra Úti og inni sf. og Landform ehf. útboð Hafnarfjarðarkaupstaðar (hér eftir vísað til sem „varnaraðila“) auðkennt „Hönnun og ráðgjöf fyrir hjúkrunarheimili Sólvangi“. Kærendur krefjast þess að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila um að leita samninga við STH teiknistofu ehf. og Landmótun sf. Þá krefjast kærendur einnig að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila, auk þess sem krafist er málskostnaðar. STH teiknistofa ehf. gerir þær kröfur að öllum kröfum kærenda verði hafnað. Verður og að skilja greinargerð Landmótunar sf. svo að félagið geri sömu kröfur. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu varnaraðila og STH teiknistofu ehf. um afléttingu sjálfkrafa banns við samningsgerð samkvæmt 1. mgr. 94. gr. a. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

            Mál þetta lýtur að fyrrgreindu útboði varnaraðila þar sem óskað var eftir tilboðum í  hönnun og ráðgjöf vegna byggingar hjúkrunarheimilisins Sólvangs í Hafnarfirði.  Gert var ráð fyrir því að tilboðum yrði skilað í tveimur umslögum, þar sem annað þeirra skyldi geyma tilteknar upplýsingar um bjóðanda en hitt verðtilboð. Í grein 1.3.5.1 í útboðsgögnum kom fram að hönnunarstjóri skyldi vera fyrir allt verkefnið og að bjóðendur skyldu gera grein fyrir reynslu hans. Nánar tiltekið var eftirfarandi reynsla áskilin: „Meira en 5 ára reynsla af verkefnastjórnun, sem tekur til hönnunar hliðstæðra mannvirkja, það er hafi hannað a.m.k. byggingar í flokki 5 og 6, samkvæmt tímatöflum frá Framkvæmdasýslu ríkisins, gerð er lámarkskrafa [svo!] um hönnun á 1000 fermetra húsnæði, þannig að hafa hannað einbýlishús, uppfyllir ekki kröfur.“ Af gögnum málsins verður ráðið að tímatöflur þær sem greinin vísar til séu ekki til, en þess í stað hafi skjalið „Leiðbeiningar um samningsgerð“ fylgt með útboðsgögnum sem hliðsjónargagn, en leiðbeiningar þessar munu vera íslensk þýðing á erlendu riti á vegum Félags sjálfstætt starfandi arkitekta á Íslandi. Alls bárust tilboð frá 13 aðilum í útboðinu. Hinn 28. janúar sl. voru verðtilboð opnuð og þá kom í ljós að tilboð kærenda var næstlægst að fjárhæð, en tilboð STH teiknistofu ehf. og Landmótunar sf. var lægst að fjárhæð. Með tölvupósti 16. febrúar 2016 var tilkynnt að varnaraðili hygðist ganga til samninga við lægstbjóðanda í útboðinu. 

Kröfur kærenda byggja í meginatriðum á því að varnaraðila hafi verið óheimilt að taka tilboði STH teiknistofu ehf. og Landmótunar sf., þar sem tilgreindur hönnunarstjóri hafi ekki uppfyllt skilyrði greinar 1.3.5.1 um reynslu.

 

Niðurstaða

Svo sem áður segir er í grein 1.3.5.1 í útboðsgögnum gerð krafa um tiltekna lágmarksreynslu hönnunarstjóra af verkefnisstjórn sem taki til hönnunar hliðstæðra mannvirkja. Kemur fram í greininni að í þessu felist að hönnunarstjóri hafi hannað a.m.k. byggingar í flokkum 5 og 6 sem áður greinir. Af útboðsgögnum verður ráðið að umrætt útboð feli í sér kaup á hvers kyns hönnun og allri ráðgjöf vegna 3.900 m2 byggingar sem hýsa á mjög sérhæfða starfsemi.  Að mati kærunefndar útboðsmála verður því að skilja umrædda grein strangt og þá þannig að hún geri meðal annars þá kröfu til bjóðenda að þeir hafi innan sinna raða hönnunarstjóra sem skuli að lágmarki hafa hannað eina byggingu, 1000 fermetra eða stærri, bæði í flokkum 5 og 6, eins og þessir flokkar eru tilgreindir í „Leiðbeiningum um samningsgerð“ sem munu hafa fylgt útboðsgögnum, þó að undanskildum einbýlishúsum. Í umræddum leiðbeiningum kemur fram að undir 5. flokk falli sundlaugar, skólar, kennslurými, hótel, hjúkrunarheimili, kirkjur, bálfararstofur, rannsóknarstofuhúsnæði, þjónustuhúsnæði (heilsugæslustöðvar) og einbýlishús. Undir 6. flokk fellur húsnæði undir lyfjaframleiðslu/hreinrými, menningarhús, söfn og sjúkrahús (meðferðarhluti).

Af þeim gögnum sem fylgdu með tilboði STH teiknistofu ehf. og Landmótunar sf. verður einungis ráðið að boðinn hönnunarstjóri hafi hannað eina byggingu umfram 1000 fermetra að stærð sem falli í flokk 6 í framangreindum „Leiðbeiningum um samningsgerð“, þ.e. Kvikmyndasafn Íslands, sem sagt er hafa verið 1.978 m2 að stærð. Ekki verður hins vegar ráðið af fyrirliggjandi gögnum að boðinn hönnunarstjóri hafi tilskilda reynslu af hönnun bygginga í flokki 5 yfir áðurgreindum stærðarmörkum. Þannig verður ekki séð að hönnun á þaki, utanhúss klæðningu og einangrun Sólvangs eða hönnun á slökkvistöð höfuðborgarsvæðisins falli undir hönnun á byggingu í 5. flokki yfir tilskildum stærðarmörkum. Verður því að leggja til grundvallar, eins og mál þetta liggur fyrir nú, að STH teiknistofa ehf. hafi ekki uppfyllt kröfur greinar 1.5.3.1 um tilskilda reynslu hönnunarstjóra og varnaraðila hafi því verið óheimilt að taka tilboði félagsins og og Landmótunar sf. Að þessu virtu verður að hafna kröfu varnaraðila um að sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar, sem komst á með kæru í máli þessu, verði aflétt.

 

Ákvörðunarorð:

Hafnað er kröfu varnaraðila, Hafnarfjarðarkaupstaðar, um að aflétta stöðvun samningsgerðar vegna útboðs auðkennt „Hönnun og ráðgjöf fyrir hjúkrunarheimili Sólvangi“.

                                                                                    Reykjavík, 4. apríl 2016

                                                                                    Skúli Magnússon

                                                                                    Stanley Pálsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum