Hoppa yfir valmynd
24. maí 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fjárfesting í mannauði skilar bættum lífskjörum

Færni og alþjóðleg samanburðarhæfni menntakerfa og vinnumarkaða voru til umræðu á fundum Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem stödd er í París. Hún fundaði meðal annars með Andreas Schleicher, framkvæmdastjóra á sviði menntunar og færni hjá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) og Montserrat Gomendio yfirmanni færnimiðstöðvar OECD og fyrrum menntamálaráðherra Spánar.

Alþjóðleg samanburðarhæfni íslenska menntakerfisins hefur minnkað frá því að mælingar hófust árið 2000. Á fundunum var farið yfir helstu ástæður þess að lesskilningi, náttúru- og stærðfræðilæsi hefur hrakað hér á landi, hvernig brugðist sé við þeirri stöðu og horfur til framtíðar.

Sérfræðingar OECD bentu meðal annars á að styrkleiki íslenska menntakerfisins lægi í jöfnuði, í alþjóðlegum samanburði er minnstur munur á árangri milli skóla hér á landi. Brýnt væri að nýta þann styrk til hagsbóta fyrir menntakerfið í heild. Til þess að njóta ávinnings af alþjóðlegum viðskiptum þyrftu þjóðir að fjárfesta í menntun og þjálfun starfsfólks, nýta færni þess betur og samræma stefnu sína í atvinnu- og menntamálum.

Lilja Alfreðsdóttir fór yfir þau skref sem stigin hafa verið á síðustu mánuðum og ræddi um stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði. Þar bar meðal annars á góma mikilvægi kennara í því uppbyggingarstarfi sem framundan er hér á landi, tækifæri í tækninýjungum og nýsköpun og aukna meðvitund um mikilvægi fjárfestinga samfélagsins í menntun.

„Það er afar dýrmætt að geta horft á okkar árangur í alþjóðlegum samanburði og séð hvar við komum vel út og hvar sóknarfæri liggja. Það er margt sem við getum lært af nágrannaþjóðum okkar og nú þegar menntastofnanir og skólafólk horfa í æ ríkari mæli til aukins sveigjanleika menntakerfa, samstarfs og áherslu á færni er brýnt að við séum virkir þátttakendur í alþjóðasamstarfi á sviði menntamála,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

  • Fjárfesting í mannauði skilar bættum lífskjörum - mynd úr myndasafni númer 1
  • Fjárfesting í mannauði skilar bættum lífskjörum - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

9. Nýsköpun og uppbygging
4. Menntun fyrir öll
10. Aukinn jöfnuður

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum