Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Styrkir verkefni til að draga úr ofbeldi og takast á við afleiðingar þess

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur styrkt þrjú verkefni sem miða ýmist að því að draga úr ofbeldi á Íslandi eða takast á við afleiðingar þess. Um er að ræða sérhæfða sálfræðimeðferð fyrir gerendur kynferðisofbeldis, bætt aðgengi að þjónustu fyrir þolendur ofbeldis á landsbyggðinni og verkefni sem miðar að því að virkja karla í baráttunni gegn ofbeldi.

Taktu skrefið veitir sérhæfða sálfræðimeðferð

Taktu skrefið er úrræði fyrir fólk sem hefur áhyggjur af kynferðislegri hegðun sinni eða hefur beitt kynferðisofbeldi. Þar starfar hópur sálfræðinga með sérþekkingu á þessu sviði. Þjónustunni er ætlað að draga úr líkum á óviðeigandi og skaðlegri kynhegðun einstaklinga með því að veita þeim viðeigandi aðstoð.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið veitti samtökunum fjárframlag á síðasta ári til þess að koma þjónustunni á laggirnar. Samkvæmt nýja samningnum mun Taktu skrefið  áfram bjóða upp á sérhæfða sálfræðimeðferð fyrir einstaklinga sem sýnt hafa skaðlega kynferðislega hegðun eða hafa áhyggjur af kynferðislegri hegðun sinni, á netinu eða gagnvart öðrum. Samningurinn felur einnig í sér að unnið verði að áframhaldandi þróun vefsíðunnar taktuskrefid.is. Styrkurinn nemur sex milljónum króna.

Bjarkarhlíð þjónustar þolendur ofbeldis á Vesturlandi og Vestfjörðum

Bjarkarhlíð, þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis mun á árinu ráðast í tilraunaverkefni sem felst í því að bjóða upp á reglulega þjónustu fyrir þolendur ofbeldis sem búa á Vesturlandi og Vestfjörðum. Í Bjarkarhlíð er þolendum ofbeldis, 18 ára og eldri, veittur  stuðningur, ráðgjöf og fræðsla um eðli og afleiðingar ofbeldis. Bjarkarhlíð starfar eftir Family Justice Center-hugmyndafræðinni þar sem markmiðið er að bjóða upp á samhæfða þjónustu samstarfsaðila á einum stað, þar með talið einstaklingsviðtöl, lögfræðilega ráðgjöf, félagslega ráðgjöf og stuðning.

Samningurinn við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hljóðar upp á sex milljónir króna og Bjarkarhlíð er falin nánari útfærsla verkefnisins. Gert er ráð fyrir að verkefnið verði unnið í samráði við aðila á hverju svæði, einkum varðandi kynningu á þjónustunni, húsnæðisaðstöðu og fleira.

Stígamót – gegn ofbeldi

Styrknum til Stígamóta verður varið til verkefna sem eiga það sameiginlegt að virkja karla í baráttunni gegn ofbeldi og varpa ljósi á gerendur ofbeldis með einhverjum hætti. Bandamannanámskeið Stígamóta eru til að mynda námskeið fyrir karla sem vilja berjast gegn kynferðislegu- og kynbundnu ofbeldi. Áherslan hjá Bandamönnum næstu misseri verður einkum sú að bjóða karla sem vinna við kennslu, uppeldis- og æskulýðsstarf sérstaklega velkomna á námskeiðin.

Styrknum verður einnig varið til að undirbúa greiningu á gögnum Stígamóta um gerendur ofbeldis og þróa áfram þjónustuúrræðið Sjúkt spjall en það er nafnlaust netspjall fyrir ungmenni til að ræða áhyggjur af samböndum sínum, samskiptum eða ofbeldi. Styrkurinn til Stígamóta nemur tæpum fimm milljónum króna.

Stöðuskýrsla nýlega kynnt

Auk ofangreindra styrkja kynnti ráðherra nýlega stöðuskýrslu um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum