Hoppa yfir valmynd
9. september 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 330/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 330/2021

Fimmtudaginn 9. september 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 30. júní 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. júní 2021, um að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 22. desember 2019 og var umsókn hans samþykkt 28. janúar 2020. Í júní 2021 var kæranda boðið atvinnuviðtal hjá B sem kærandi hafnaði. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 16. júní 2021, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna höfnunar á atvinnuviðtali. Skýringar bárust frá kæranda samdægurs. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. júní 2021, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 30. júní 2021. Með bréfi, dags. 6. júlí 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð þann 5. ágúst 2021. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 9. ágúst 2021 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi fengið bréf frá Vinnumálastofnun 30. júní 2021 vegna viðtals sem hann hafi hafnað á þeim forsendum að hann hafi haldið að hann væri kominn með vinnu sem síðan hafi ekki gengið upp. Kærandi hafi skrifað útskýringu sama dag og hann hafi fengið fyrsta bréfið, dags. 16. júní 2021, þar sem hann hafi útskýrt ástæðuna fyrir höfnun á viðtalinu sem hafi verið viðtal vegna starfs sem hann hafi ekki sótt um og hafi verið á vegum átaksins „Hefjum störf“. Félagsmálaráðherra hafi sagt í fréttum 1. júní 2021 að það mætti hafna starfi einu sinni áður en bætur yrðu felldar niður í tvo mánuði. Kærandi hafi hringt í Vinnumálastofnun í gegnum þjónustuverið og spurt starfsmann út í þetta sem hafi sagt að það mætti aðeins einu sinni hafna starfi áður en viðurlög yrðu sett. Kærandi hafi aldrei hafnað starfi en hafi aðeins hafnað þessu viðtali en samt hafi bæturnar verið teknar af honum og honum tilkynnt það einum degi áður en bæturnar hafi átt að vera greiddar. Kærandi skilji ekki hvernig reglur geti verið settar og þær settar í fjölmiðla en svo sé ekki farið eftir þeim. Þetta sé gert með engum fyrirvara eða útskýringu annarri en þeirri að útskýring kæranda á höfnun á atvinnuviðtali sé ekki gild. Bæturnar séu felldar niður með eins dags fyrirvara og kæranda eiginlega hent út á götu. Kærandi geti ekki borgað leigu eða lifað næstu tvo mánuði og hreinlega viti ekkert hvað hann eigi að gera.

Í fréttum hafi félagsmálaráðherra sagt: ,,Atvinnuleitandi má hafna starfi einu sinni en eftir það eru bætur felldar niður, fyrst í tvo mánuði, næst í þrjá mánuði og loks varanlega“. Kærandi hafi misst bætur í tvo mánuði, þrátt fyrir að hann hafi ekki hafnað starfi og ef þessi höfnun á atvinnuviðtali væri gild sem höfnun á starfi ætti hann samt ekki að missa bæturnar nema hann myndi hafna starfi eða viðtali aftur. Kærandi skilji ekki hvernig þetta geti verið rétt.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að þann 4. júní 2021 hafi Greiðslustofu Vinnumálastofnunar borist þær upplýsingar að kærandi hafi hafnað því að mæta í atvinnuviðtal hjá B. Um hafi verið að ræða fullt starf sem hafi lotið að sölu- og markaðssetningu. Ferilskrá kæranda hafi verið send til umrædds atvinnurekanda þann 30. maí 2021. Samkvæmt upplýsingum frá B hafi kæranda ekki verið boðið umrætt starf þar sem hann hafi ekki haft áhuga á að mæta í atvinnuviðtal.

Með erindi, dags. 16. júní 2021, hafi verið óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda til höfnunar á starfi hjá B. Sama dag hafi Vinnumálastofnun borist skýringar kæranda. Kærandi kveðist hafa verið nýkominn úr öðru starfsviðtali sem hann hafi verið vongóður yfir og að um hafi verið að ræða möguleika á fullu starfi til framtíðar. Þá hafi kærandi greint frá því að sá aðili sem hann hafi talað við símleiðis frá B hafi virst áhugalaus. Kærandi hafi áréttað í skýringum sínum að hann væri virkur í atvinnuleit og væri að leita að tækifæri til að komast í starf til frambúðar.

Þann 30. júní 2021 hafi kæranda verið tilkynnt að skýringar hans vegna höfnunar á umræddu atvinnutilboði hafi ekki verið metnar gildar og að bótaréttur hans hafi verið felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Framangreind ákvörðun hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 30. júní 2021. Í kæru vísi kærandi til ummæla félagsmálaráðherra í fjölmiðlum þess efnis að atvinnuleitendur megi hafna starfi einu sinni áður en til viðurlaga komi í formi niðurfellingar bótaréttar. Kærandi kveðist ósáttur við ósamræmi í upplýsingum.

Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í tímabundnu atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða.

Í a-lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að eitt af skilyrðum þess að teljast tryggður samkvæmt lögunum sé að vera í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laganna komi fram að í virkri atvinnuleit felist meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit. Ríkar kröfur beri því að gera til þeirra sem hafni starfi á innlendum vinnumarkaði að þeir hafi til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.

Í 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög vegna höfnunar á starfi eða atvinnuviðtali. Ákvæðið sé svohljóðandi: 

,,Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Í athugasemdum með 57. gr. í greinargerð við frumvarp það er hafi orðið að lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega tekið fram að það að hafna því að fara í atvinnuviðtal eða sinna ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar hafi sömu áhrif og sú ákvörðun að taka ekki starfi sem býðst. Ástæðan sé einkum sú að atvinnuviðtal sé venjulega meginforsenda þess að hinum tryggða verði boðið starf. Fyrir liggi að kærandi hafi hafnað því að fara í atvinnuviðtal hjá B. Ágreiningur snúi að því hvort að ástæður kæranda vegna umræddrar höfnunar séu gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé Vinnumálastofnun gert að meta skýringar atvinnuleitanda vegna höfnunar á atvinnutilboði eða atvinnuviðtali með hliðsjón af þeirri ríku skyldu sem hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til að vera reiðubúnir að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu. Í 4. mgr. 57. gr. segir orðrétt:

,,Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Vinnumálastofnun sé þannig meðal annars heimilt að líta til aldurs hins tryggða, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laganna. Þá sé Vinnumálastofnun jafnframt heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfu um að hlutaðeigandi flytji búferlum.

Þær skýringar sem kærandi hafi veitt Vinnumálastofnun þann 16. júní 2021 snúi að því að kærandi hafi nýlega lokið atvinnuviðtali hjá öðrum atvinnurekanda og að það starf kynni mögulega hafa staðið honum til boða. Hafi kærandi af þeim ástæðum hafnað því að mæta í atvinnuviðtal hjá B.

Í athugasemdum með 57. gr. laganna í greinargerð með frumvarpi því sem hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar segi að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til ráðningar hins tryggða í ótímabundið starf við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu, enda þótt hinn tryggði hefji ekki störf þegar í stað. Beri þá meðal annars að meta hvort tíminn þangað til hinn tryggði hefji störf geti talist viðunandi eða hvort eðlilegra sé að líta svo á að hinum tryggða beri að taka starfinu sem í boði sé. Vinnumálastofnun búi ekki yfir frekari upplýsingum um það starf sem kærandi segi mögulega hafa staðið honum til boða, til að mynda hvenær hann hefði hafið störf eða hvert starfshlutfall hefði orðið. Aftur á móti liggi fyrir að kærandi hafi ekki verið ráðinn í það starf sem hann segi að hafi mögulega staðið honum til boða. Að mati Vinnumálastofnunar geti atvinnuleitendur almennt ekki hafnað atvinnuviðtölum á þeim forsendum að annað starf standi þeim mögulega til boða, og þá enn síður ef fyrir liggi að það starf sé háð mikilli óvissu. Skýringar kæranda, er snúa að því að honum hafi mögulega staðið annað starf til boða, séu því ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar, að mati Vinnumálastofnunar.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar velferðarmála vísi kærandi til ummæla félagsmálaráðherra í fjölmiðlum og gagnrýnir ósamræmi í upplýsingum. Þau ummæli sem ráðherra hafi haft uppi í fjölmiðlum, sem kærandi hafi vísað til í kæru, séu með vísan til ofangreindra lagasjónarmiða og ákvæða ekki rétt. Aftur á móti geti umrædd ummæli ráðherra hvorki talist til réttarheimildar né séu þau lagalega bindandi. Ákvæði 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé skýrt varðandi þau viðurlög sem atvinnuleitendur sem hafni starfi án gildra ástæðna þurfi að sæta. Vinnumálastofnun vilji að auki benda á, máli sínu til stuðnings, að við móttöku umsóknar um atvinnuleysistryggingar veiti Vinnumálastofnun öllum atvinnuleitendum leiðbeiningar um hvar finna megi upplýsingar um réttindi og skyldur atvinnuleitenda. Öllum atvinnuleitendum sé þannig vísað á heimasíðu Vinnumálastofnunar, þar sem meðal annars sé að finna skýrar upplýsingar um afleiðingar þess að hafna atvinnutilboði eða atvinnuviðtali, án gildra ástæðna. Verði að gera þær kröfur til atvinnuleitenda að þeir kynni sér réttindi sín og skyldur á meðan þeir þiggi greiðslu atvinnuleysistrygginga.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda vegna höfnunar á atvinnuviðtali hjá B geti ekki talist gildar í skilningi laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kæranda beri því að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laganna.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Þá segir svo í 4. mgr. 57. gr. laganna:

„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Í athugasemdum við 57. gr. í frumvarpi því er varð að lögunum kemur fram:

„Enn fremur þykir mikilvægt að það að hafna því að fara í atvinnuviðtal eða sinna ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar hafi sömu áhrif og sú ákvörðun að taka ekki starfi sem býðst. Ástæðan er einkum sú að atvinnuviðtal er venjulega meginforsenda þess að hinum tryggða verði boðið starf og þykir það mega leggja þá ákvörðun að jöfnu við því að hafna starfi. Verður að teljast óeðlilegt að hinn tryggði geti neitað því að fara í atvinnuviðtal án viðbragða frá kerfinu en þeir sem fóru í viðtalið og var boðið starfið þurfi að þola biðtíma eftir atvinnuleysisbótum taki þeir ekki starfinu.“

Óumdeilt er að kærandi hafnaði atvinnuviðtali en ágreiningur málsins lýtur að því hvort ástæður kæranda fyrir þeirri höfnun hafi verið réttlætanlegar í skilningi 4. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006. Kærandi hefur vísað til þess að hann hafi nýlega lokið öðru atvinnuviðtali og hafi verið vongóður um að fá það starf. Að mati úrskurðarnefndarinnar er ekki réttlætanlegt að hafna atvinnuviðtali á þeirri forsendu að annað starf sé mögulega fyrir hendi. Kæranda bar að sinna atvinnuviðtalinu þar sem óvissa var uppi um starfið sem hann var vongóður um að fá. Ummæli félagsmálaráðherra í fjölmiðlum hafa ekki áhrif á þá skyldu kæranda.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. júní 2021, um að fella niður bótarétt A, í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum