Hoppa yfir valmynd
29. júní 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 223/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 223/2023

Fimmtudaginn 29. júní 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. maí 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 1. febrúar 2023, vegna ofgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 1. febrúar 2023 og með vísan til 2. mgr. 41. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), var kærandi krafinn endurgreiðslu 128.584 kr. sem kærandi fékk greiddar vegna Fæðingarorlofs í apríl 2022. Með hinni kærðu ákvörðun var einnig ákveðið að krefjast 15% álags á umrædda fjárhæð.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 1. maí 2023. Með bréfi, dags. 3. maí 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins.

Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefnd velferðarmála afturkallaði Fæðingarorlofssjóður hina kærðu ákvörðun, með bréfi, dags. 8. júní 2023, með vísan til 1. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með bréfi, dags. 13. júní 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til bréfs stofnunarinnar. Kærandi svaraði ekki fyrirspurn nefndarinnar.


 

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að um misskilning sé að ræða hjá Vinnumálastofnun þar sem umrætt launauppgjör hafi verið vegna starfstímabils sem lauk fyrir töku fæðingarorlofs eða fyrir lok árs 2021. Umrædd laun hafi þar af leiðandi verið hluti af uppgjöri vegna starfsloka.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingaorlofssjóðs kemur fram að við endurskoðun málsins hafi komið í ljós að mistök voru gerð við mat á greiðslufjárhæð frá vinnuveitanda á sama tíma og kærandi var skráður í fæðingarorlof sem leiddi til of hárrar endurkröfu í málinu. Í samræmi við það hafi ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 1. febrúar 2023, verið afturkölluð, sbr. 1. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. bréf til kæranda dags. 8. júní 2023.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 1. febrúar 2023 þar sem kærandi var endurkrafin greiðslu sem hann hafði fengið úr Fæðingarorlofssjóði vegna aprílmánaðar 2022.

Í kjölfar kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála tók Fæðingarorlofssjóður þá ákvörðun að afturkalla hina kærðu ákvörðun með vísan til 1. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kveður á um að stjórnvald geti afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði, sem tilkynnt hafi verið aðila máls, þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila.

Með bréfi, dags. 10. mars 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til greinargerðarinnar. Engin svör bárust úrskurðarnefndinni.

Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof skal úrskurðarnefnd velferðarmála kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna.

Þar sem Fæðingarorlofssjóður hefur ákveðið að afturkalla hina kærðu ákvörðun verður ekki séð að ágreiningur sé til staðar á milli kæranda og stofnunarinnar. Með vísan til framangreinds er kæru þessari vísað frá úrskurðarnefndinni.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum