Hoppa yfir valmynd
14. júní 2013 Utanríkisráðuneytið

Réttindi samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks í Rússlandi

Neðri deild rússneska þingsins samþykkti með miklum meirihluta fyrr í vikunni frumvarp sem gerir umfjöllun um samkynhneigð ólöglega í Rússlandi. Að gefnu tilefni hefur utanríkisráðuneytið rætt við fulltrúa rússneskra stjórnvalda og áréttað stuðning Íslands við réttindi samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks. Því hefur einnig verið komið á framfæri við rússnesk stjórnvöld að mikilvægt sé að umræða um samkynhneigð sé upplýst og vinni gegn fordómum og ofbeldi. Hætta er á því að takmarkanir af því tagi sem frumvarpið felur í sér geri hið gagnstæða.

Fulltrúar alþjóðlegra mannréttindasamtaka og Evrópuráðsins telja ótvírætt að ákvæði frumvarpsins gangi gegn alþjóðlegum skuldbindingum rússneskra stjórnvalda svo sem Alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og Mannréttindasáttmála Evrópu. Íslensk stjórnvöld taka heilshugar undir þau sjónarmið og  telja mikilvægt að mannréttindi hinsegin fólks verði tryggð í Rússlandi í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum