Hoppa yfir valmynd
13. desember 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 556/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 13. desember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 556/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18110016

 

Kæra […]

og barna hennar

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 7. nóvember 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari Sómalíu ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. október 2018, um að synja umsóknum hennar og barna hennar, […], fd. […], ríkisborgara Sómalíu, […], fd. […], ríkisborgara Sómalíu, […], fd. […], ríkisborgara Sómalíu og […], fd. […], ríkisborgara Sómalíu (hér eftir nefnd kærendur) um fjölskyldusameiningu við […], fd. […], ríkisborgara Sómalíu (hér eftir nefndur A), á grundvelli 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga.

Kærendur krefjast þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og kærendum verði veitt heimild til fjölskyldusameiningar 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsatvik og málsmeðferð

Syni og bróður kærenda, […], var veitt alþjóðleg vernd á Íslandi þann 14. mars 2018 með ákvörðun Útlendingastofnunar. Þann 8. júní 2018 sóttu kærendur um fjölskyldusameiningu á grundvelli 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Með ákvörðun sinni dags. 24. október 2018 var umsókn kærenda um fjölskyldusameiningu synjað. Kærendur kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar Útlendingamála þann 7. nóvember 2018. Kærunefnd barst greinargerð kærenda þann 20. nóvember 2018.

III.        Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar kemur fram að heimild sé í 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga til veitingar alþjóðlegrar verndar fyrir aðstandendur einstaklinga sem hafi hlotið alþjóðlega vernd á Íslandi. Í 3. mgr. 45. gr. komi m.a. fram að ef barn undir 18 ára njóti alþjóðlegrar verndar þá eigi foreldrar og systkini barnsins sem séu undir 18 ára aldri jafnframt rétt til verndar. A hafi verið veitt alþjóðleg vernd á Íslandi þann 14. mars 2018 en hann sé fæddur þann […] og hafi því verið búinn að ná 18 ára aldri þegar hann hlaut alþjóðlega vernd. Af þeim sökum hafi skilyrði 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga ekki verið uppfyllt og var niðurstaða Útlendingastofnar að umsóknum kærenda skyldi synjað.


 

IV.        Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kærenda kemur fram að A hafi verið veitt alþjóðleg vernd á Íslandi þann 14. mars 2018. A hafi sótt um vernd þann 27. nóvember 2016 og hafi mál hans hafi því verið í meðferð hjá íslenskum stjórnvöldum í 479 daga. A hafi verið fylgdarlaust ungmenni við komu sína hingað til lands en hann hafi framvísað gildum skilríkjum þar sem fram hafi komið að hann sé fæddur þann […]. A hafi náð 18 ára aldri á meðan íslensk stjórnvöld hafi haft mál hans til meðferðar og sé ósanngjarnt að takmarka rétt hans til fjölskyldusameiningar á þeim grundvelli þar sem íslensk stjórnvöld beri ábyrgð á töfum á málsmeðferð í máli hans. Þá vísa kærendur í dóm Evrópudómstólsins nr. C-550/16, A og S gegn Staatssecretaris van Veiligheid en Justitie máli sínu til stuðnings. Í dóminum sé að sögn kærenda réttur fylgdarlausra barna, sem nái 18 ára aldri á meðan umsókn þeirra um alþjóðlega vernd sé til meðferðar, til fjölskyldusameiningar staðfestur. Það komi m.a. fram í framangreindum dómi að það sé ekki undir aðildarríkjum komið að ákveða við hvaða tímamark skuli miða heldur skuli miða við aldur umsækjenda þegar þeir sæki um alþjóðlega vernd.

Þá vísa kærendur til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 241/2016 máli sínu til stuðnings þar sem nefndin komst að þeirri niðurstöðu að við mat á aldri umsækjenda skuli miða við aldur við umsókn um alþjóðlega vernd. Samskonar sjónarmið séu fyrir hendi í málinu, þ.e. að réttaráhrif skuli miðast við aldur á þeim degi sem sótt sé um alþjóðlega vernd og um þau réttindi sem afleidd séu af þeirri vernd, þ.m.t. rétturinn til fjölskyldusameiningar. Kærendur halda því fram að aldurstakmark það sem fram komi í 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, sem sé grundvöllur synjunar Útlendingastofnunar, skuli túlkað með þeim hætti að sá einstaklingur sem sótt sé um að sameinast við skuli vera yngri en 18 ára við umsókn um alþjóðlega vernd. Þá hafi kærendur gríðarlega hagsmuni af því að geta sameinast A og mikilvægt sé að horfa heildstætt á málið með mannúð að leiðarljósi. Með tilliti til framangreinds skuli fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og veita fjölskyldunni rétt til sameiningar hér á landi á grundvelli 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga.

V.         Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf útlendingur að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 37. laga um útlendinga, sbr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Einungis er unnt að veita alþjóðlega vernd skv. 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ef umsækjandi er staddur hér á landi, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga.

Þá á útlendingur almennt rétt á alþjóðlegri vernd uppfylli hann tiltekin skilyrði um fjölskyldutengsl við útlending sem nýtur alþjóðlegrar verndar hér á landi, sbr. 2. mgr. og 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Í 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga segir:

Nú nýtur barn yngra en 18 ára alþjóðlegrar verndar samkvæmt kafla þessum og eiga þá foreldrar þess jafnframt rétt til verndar enda þyki sýnt að þeir hafi farið með forsjá barnsins og hyggist búa með barninu hér á landi. Nú hefur annað foreldrið farið með forsjá barns og nýtur það þá þessa réttar. Þá njóta þessa réttar systkini barnsins sem eru yngri en 18 ára, eru án maka og búa hjá foreldrunum eða foreldrinu.

Ákvæði laga um útlendinga hafa verið túlkuð á þann veg að unnt sé að veita umsækjendum alþjóðlega vernd skv. 2. og 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga þótt umsækjandi sé ekki staddur hér á landi.

Samkvæmt orðalagi ákvæðisins vaknar rétturinn til fjölskyldusameiningar skv. 3. mgr. 45. gr. aðeins ef barn það sem rétturinn er leiddur af nýtur alþjóðlegrar verndar. Athugasemdir við frumvarp til laga um útlendinga varpa ekki frekara ljósi á við hvaða tímamark skuli miða þegar metið er hvort fjölskylda þess sem nýtur alþjóðlegrar verndar eigi rétt á fjölskyldusameiningu samkvæmt ákvæðinu, svo sem hvort miða eigi aldur þess sem nýtur verndar við tímamarkið þegar hann kom fyrst til landsins og sótti um vernd, tímamarkið þegar hann fékk vernd eða þegar sótt er um fjölskyldusameiningu. Af framangreindu leiðir því að foreldrar eða ólögráða systkini einstaklings sem veitt er alþjóðleg vernd eftir að sá einstaklingur náði 18 ára aldri geta ekki byggt rétt til fjölskyldusameiningar á ákvæði 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, þó svo að einstaklingurinn hafi sótt um vernd áður en hann náði þeim aldri. 

Líkt og komið hefur fram var A, sem kveðst vera sonur kæranda og bróðir barna hennar, veitt alþjóðleg vernd hér á landi eftir að hann varð 18 ára gamall. Í kjölfarið sóttu kærandi og börn hennar um alþjóðlega vernd á grundvelli fjölskyldutengsla við útlending sem nýtur alþjóðlegrar verndar, sbr. 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að kærandi og börn hennar uppfylli ekki skilyrði 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga til fjölskyldusameiningar. Í 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga og athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum um útlendinga er ekki að finna undanþáguheimild frá framangreindu aldursskilyrði.

Í greinargerð halda kærendur því fram að stjórnvöld beri ábyrgð á töfum á máli A sem hafi orðið þess valdandi að hann náði 18 ára aldri á meðan á málsmeðferð stóð. Útlendingastofnun var gert að taka mál kæranda til efnismeðferðar með úrskurði kærunefndar dags. 10. október 2017. Útlendingastofnun veitti A alþjóðlega vernd með úrskurði dags. 14. mars 2018. Tók málsmeðferð umsóknar A um alþjóðlega vernd því rúma fimm mánuði eftir að umsókn hans var tekin til efnismeðferðar. Það er mat kærunefndar í ljósi almenns málsmeðferðartíma umsókna um alþjóðlega vernd að ekki hafi verið um óhóflega langa málsmeðferð að ræða og að málshraði hafi verið í samræmi við 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærendur vísa til úrskurðar kærunefndar nr. 241/2016 máli sínu til stuðnings en í þeim úrskurði var fjallað um álitaefni varðandi aldur umsækjenda er lúta að túlkun á 8. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (Dyflinnarreglugerðin). Framangreindur úrskurður hefur því ekki fordæmisgildi í málum er varða umsóknir um alþjóðlega vernd, þ.m.t. á grundvelli 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Vegna vísunar kæranda til dóms Evrópudómstólsins í máli C-550/16, frá 12. apríl 2018, tekur kærunefndin fram að dómurinn lýtur að túlkun ákvæða tilskipunar ráðsins nr. 2003/86/EC um réttinn til fjölskyldusameiningar sem hefur gildi fyrir aðildarríki Evrópusambandsins að Írlandi, Danmörku og Bretlandi undanskildum. Tilskipunin hefur ekki verið innleidd í íslenskan rétt og Ísland hefur ekki með þjóðréttarlegum samningi skuldbundið sig til að fylgja henni. Þá er ekki vísað til tilskipunarinnar sem lögskýringargagns í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga. Af framangreindu leiðir að tilskipunin hefur ekki þýðingu við túlkun 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga.

Í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið vísað til þeirrar viðurkenndu meginreglu þjóðaréttar að ríki hafa, með fyrirvara um alþjóðlegar skuldbindingar sínar, rétt til að stjórna aðgengi erlendra ríkisborgara að landsvæði sínu og dvöl þeirra þar. Af dómum Mannréttindadómstóls Evrópu verður jafnframt ekki ráðið að réttur til fjölskyldulífs skv. 8. gr. mannréttindasamnings Evrópu feli í sér skyldu ríkisins til að sameina fullorðinn flóttamann sem er með dvalarleyfi hér á landi við fjölskyldu sína sem býr í heimaríki með því að heimila fjölskyldu hans að koma hingað og dvelja hér á landi. Þá verður ekki talið að synjun á slíkri sameiningu gangi gegn ákvæðum 71. gr. stjórnarskrárinnar.

Kærandi og börn hennar eru ekki stödd hér á landi, hafa aldrei komið hingað til lands og hafa aldrei haft dvalarleyfi hér á landi. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að þau hafi verið í samvistum við A síðastliðin fimm ár. Það er því ljóst að þau geta ekki byggt sjálfstæðan rétt til fjölskyldusameiningar á 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða 71. gr. stjórnarskrárinnar. Sonur kæranda, A, hefur ekki stofnað til fjölskyldutengsla hér á landi á þeim tveimur árum sem hann hefur dvalist hér sem ákvörðun Útlendingastofnunar hefur áhrif á. Af þessum tveimur árum hefur hann haft dvalarleyfi í um níu mánuði. Þá hefur hann verið fjarri eigin fjölskyldu í um fimm ár eða frá þeim tíma sem hann yfirgaf heimaríki sitt. A hefur ekki þegið eða verið háður framfærslu eða öðrum stuðningi frá fjölskyldu sinni sem býr í heimaríki hans. Á þeim tíma sem hann dvaldist hér varð hann 18 ára gamall og nýtur því ekki lengur þeirra réttinda sem börn njóta á grundvelli aldurs.

Synjun Útlendingastofnunar á umsókn kæranda og barna hennar um alþjóðlega vernd er byggð á ákvæðum laga um útlendinga. Þó svo kærandi sé ungur að árum og að möguleikar hans til sameiningar við fjölskyldu sína utan Íslands séu takmarkaðir telur kærunefnd að í ljósi stöðu hans hér á landi, þeirra takmörkuðu tengsla sem hann hefur nú við fjölskyldu sína í heimaríki og raunhæfra möguleika hans á að byggja upp eigið fjölskyldulíf hér á landi, að synjun Útlendingastofnunar, að teknu tilliti til þess svigrúms sem stjórnvöld hafa, gangi ekki lengra en nauðsynlegt er til að tryggja lögmæta hagsmuni ríkisins tengdum skilvirkri stjórn landamæra ríkisins og aðgangi að landsvæði þess. Synjun Útlendingastofnunar á umsókn kæranda og barna hennar á fjölskyldusameiningu við A hér á landi samrýmist því 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að kærandi og börn hennar uppfylli ekki skilyrði fyrir alþjóðlegri vernd samkvæmt 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Erna Kristín Blöndal                                                                       Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum