Hoppa yfir valmynd
26. maí 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjölgun ferðamanna og meiri aukning í notkun erlendra korta

Flugferðum til og frá landinu og ferðamönnum sem hingað koma fjölgaði hratt í maímánuði. Líkur eru a að fjölgunin verði áfram mikil á næstu vikum ef tekið er mið af flugframboði og áætlunum um nýtingu hótela. Vísbendingar eru um að erlendir ferðmenn á Íslandi verji nú talsvert meira fé en var fyrir heimsfaraldur kórónuveiru en erlend kortavelta hefur aukist hraðar en fjöldi ferðamanna.

Komuflug til Keflavíkur hefur aukist mikið í mánuðinum og félögum sem hingað fljúga fjölgað. Á þetta ekki síst við um flug milli Íslands og Bandaríkjanna þar sem flogið er daglega frá nokkrum áfangastöðum. Bandarískum ferðamönnum fjölgar einnig mest allra þjóðerna en þeir eru nær allir með viðurkennt vottorð um bólusetningu eða fyrri sýkingu. Þá er mikill áhugi meðal Breta á ferðalögum til Íslands, en þann 17. maí varð Bretum heimilt að ferðast til útlanda í frí og er Ísland í hópi 12 landa sem þar í landi falla undir lágmarks takmarkanir.

 

Þá stefnir nýting hótela á höfuðborgarsvæðinu í að verða um þrefalt meiri út árið en á sama tíma í fyrra. Útlit er fyrir 30% nýtingu frá og með maí en í fyrra var hún tæp 10% á sama tímabili, sé miðað við stöðu bókana.

Erlend kortavelta aukist

Erlend kortavelta hér á landi hefur aukist síðan í mars. Að raunvirði er hún aðeins um 30% af því sem hún var á sama tíma 2019, en til samanburðar eru komufarþegar aðeins 9% af þeim fjölda sem sótti landið heim á sama tíma 2019. Því nálgast erlend kortavelta hraðar fyrri hæðir en fjöldi ferðamanna og er það vísbending um stóraukna neyslu hvers ferðamanns. Ekki er enn ljóst hvort aukin neysla skýrist af lengri dvöl ferðamanna eða vegna breytinga í samsetningu erlendra ferðamanna, en síðastliðna viku hafa 35% komufarþega verið frá Bandaríkjunum en þeir voru 23% árið 2019. Bandarískir ferðamenn eyða öllu jafna meiru hér á landi en ferðamenn frá öðrum löndum. Þeir dvelja gjarnan lengur og kaupa meiri afþreyingu. Árið 2019 varði bandarískur ferðamaður að meðtaltali 225 þúsund krónum á ferð sinni á Íslandi, og aðeins svissneskir ferðamenn eyddu meira fé hér á landi það árið. Breskir ferðamenn voru í 4. sæti á eftir Belgum, með um 205 þúsund krónur að meðaltali. Verði hlutdeild breskra og bandarískra ferðamanna hærri hér á landi í ár en áður er líklegt að meðaleyðsla á hvern ferðamann verði nokkuð meiri en fyrri ár.

Þjóðhagsspá Hagstofunnar sem liggur til grundvallar fjármálaáætlun fyrir 2022-2026 gerði ráð fyrir að til Íslands kæmu 722 þúsund ferðamenn á þessu ári. Nýútgefin þjóðhagsspá Landsbankans gerir ráð fyrir 800 þúsund ferðamönnum en spá Seðlabankans 660 þúsund. Á fyrstu fjórum mánuðum ársins voru ferðamenn aðeins 18 þúsund talsins. Fjöldi ferðamanna ræður þó ekki öllu um útflutningstekjur af ferðaþjónustu heldur skiptir eðli málsins samkvæmt máli hversu miklu fé ferðamenn verja hér á landi. Ef samsetning ferðamanna verður önnur í ár sem leiddi af sér hærri meðalneyslu hvers ferðamanns má áætla að færri ferðamenn þurfi til að uppfylla þjóðhagsspá Hagstofunnar.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum