Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 21/2019. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 15. ágúst 2019
í máli nr. 21/2019:
Jökulfell ehf.
gegn
RARIK og
Rósabergi ehf.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 11. júlí 2019 kærir Jökulfell ehf. samningskaup RARIK auðkennd „Hitaveita RARIK í Hornafirði – Lagning stofnpípu frá Hoffelli og að kyndistöð á Höfn“. Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun varnaraðila RARIK (hér eftir vísað til sem varnaraðila) um að ganga til samningskaupa við Rósaberg ehf. um fyrrnefnt verk og að lagt verði fyrir RARIK að auglýsa verkið að nýju. Til vara er þess krafist að fyrrnefnd ákvörðun verði ógilt og að tilboð sem bárust utan tilboðsfrests verði metin ógild. Þá er þess krafist að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Jafnframt er krafist málskostnaðar. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að stöðva hið kærða innkaupaferli þar til endanlega verður leyst úr málinu.

Í maí 2019 óskaði auglýsti varnaraðili útboð nr. 19007 „Hitaveita RARIK í Hornafirði – Lagning stofnpípu frá Hoffelli og að kyndistöð á Höfn“. Engin tilboð bárust og í kjölfarið ákvað varnaraðili að hefja samningskaupaferli þar sem þremur fyrirtækjum var boðið að skila inn verðtilboðum fyrir kl. 12:00, hinn 26. júní 2019. Kærandi var meðal þeirra sem skiluðu inn tilboði en 28. júní 2019 tilkynnti varnaraðili að hann hefði ákveðið að taka tilboði lægstbjóðanda, Rósabergs ehf. Tilboð kæranda var að fjárhæð 482.695.757 krónur með virðisaukaskatti en tilboð lægstbjóðanda var hins vegar að fjárhæð 413.068.608 krónur með virðisaukaskatti.

Málatilbúnaður kæranda byggir á því að Rósaberg ehf. hafi skilað tilboði sínu eftir að tilboðsfrestur rann út og því hafi tilboðið verið ólögmætt. Einnig telur kærandi að varnaraðili hafi vikið verulega frá skilmálum upphaflega útboðsins með því að gefa vilyrði fyrir lengri framkvæmdatíma. Þá hafi varnaraðili ekki tilkynnt þátttakendum um tilboð sem bárust og fjárhæðir þeirra. Varnaraðili telur að málið heyri ekki undir kærunefnd útboðsmála og því beri að vísa því frá nefndinni. Auk þess hafi samningskaup verið í samræmi við reglur og breyting á afhendingartíma verksins hafi ekki verið svo mikil að með því hafi verið vikið frá upphaflegum útboðsgögnum að verulegu leyti.

Niðurstaða

Samkvæmt 9. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup gilda lögin að meginstefnu til ekki um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu. Um þau innkaup gildir aftur á móti sérstök reglugerð nr. 340/2017 um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu („veitureglugerðin“). Reglugerðin fól í sér innleiðingu tilskipunar nr. 2014/25/ESB um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu í íslenskan rétt („veitutilskipunin“). Í máli þessu verður að miða við að varnaraðili teljist til veitustofnunar sem hafi með höndum starfsemi sem fellur undir veitureglugerðina. Þá verður að miða við að með hinum kærðu innkaupum hafi varnaraðili stefnt að gerð verksamnings í skilningi reglugerðarinnar. Reglugerðin gildir um innkaup á vörum, þjónustu eða verki er varðar starfsemi sem fellur undir reglugerðina þar sem áætlað verðmæti án virðisaukaskatts er jafnt eða meira en þær viðmiðunarfjárhæðir sem tilgreindar eru í 15. gr. hennar, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 179/2018. Viðmiðunarfjárhæð reglugerðarinnar nemur nú 721.794.800 krónum þegar um er að ræða verksamninga. Ljóst er að tilboð kæranda og lægstbjóðanda voru töluvert undir þeirri fjárhæð. Framangreind innkaup voru þannig undir áðurnefndri viðmiðunarfjárhæð og veitureglugerðin gilti því ekki um innkaupin.

Vald kærunefndar útboðsmála, að því er varðar opinbera aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu, takmarkast við þau mál sem falla undir veitureglugerðina. Samkvæmt framansögðu falla þau innkaup sem um er deilt utan nefndrar reglugerðar og ágreiningur aðila þar af leiðandi utan úrskurðarvalds kærunefndar útboðsmála. Af þeim sökum eru ekki fyrir hendi skilyrði fyrir stöðvun samningsgerðar að kröfu kæranda.

Ákvörðunarorð:

Hafnað er kröfu kæranda, Jökulfells ehf., um stöðvun samningsgerðar um verkið „Hitaveita RARIK í Hornafirði – Lagning stofnpípu frá Hoffelli og að kyndistöð á Höfn“.

Reykjavík, 15. ágúst 2019

Eiríkur Jónsson

Auður Finnbogadóttir

Sandra Baldvinsdóttir


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum