Hoppa yfir valmynd
10. október 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Opnari lyfjamarkaður

Guðlaugur Þór Þórðarson

Málþing á vegum Rannsóknastofnunar um lyfjamál og Lyfjafræðingafélags Íslands

Lyfjastefnan á Íslandi ? eru möguleikar að opna íslenska lyfjamarkaðinn?

10 október 2007 í sal Þjóðminjasafns.

 

Góðir fundarmenn.

Ég vil byrja á því að þakka fyrir að vera boðið að flytja hér ávarp á málþingi um Lyfjastefnu á Íslandi þar sem ætlunin er að ræða hvort möguleikar séu að opna íslenska lyfjamarkaðinn.

Spurningunni er fljót svarað: já ég tel vera möguleika að opna íslenska lyfjamarkaðinn og ég vinn að því.

Ríkisstjórnin er sammála um að unnið skuli að þessu markmiði. Fyrir viku síðan sagði forsætisráðherra í stefnuræðu sinni:

„Opna á lyfjamarkaðinn til að efla samkeppni, ná fram auknu framboði og lægra lyfjaverði og þar með lyfjakostnaði“.    

En hvers vegna þarf að opna íslenska lyfjamarkaðinn til að ná þessum markmiðum fram?

Ýmislegt má tína til.

Það er ljóst að íslenskur lyfjamarkaður er ekki að virka sem skyldi. Lyfjaverð er hærra á Íslandi en gerist og gengur á hinum Norðurlöndunum og langt yfir meðalverði lyfja í ríkjum Evrópubandalagsins. Þá er lyfjaframboð hér á landi með öðrum hætti en í stærri ríkjum markaðssvæðisins.

Ég hef ítrekað lýst því yfir að markmið mitt varðandi lyfjamarkaðinn á Íslandi er í grófum dráttum tvíþætt: Annars vegar að lækka lyfjakostnað ríkisins og hins vegar að lækka lyfjaverð til almennings. 

Ýmsar aðgerðir hafa verið undirbúnar til þess að ná þessu markmiði.

Þar má í fyrsta lagi nefna að aukið gegnsæi í verðlagningu lyfja er ein öflugasta leiðin til að efla samkeppni á lyfjamarkaði og innan ráðuneytisins er nú unnið að tillögum um hvernig best sé að haga þessum málum.

Í síðasta mánuði hófst innleiðing á sendingu rafrænna lyfseðla á landsvísu. Sá ávinningur sem þar skiptir mestu felst í auknu öryggi og bættri þjónustu. Það er hins vegar ljóst að rafræn lyfjagátt mun hafa áhrif á samkeppni á íslenskum lyfjamarkaði og einnig opna möguleika fyrir viðskipti með lyf á milli landa þegar fram líða stundir.

Á Íslandi er algengt að apótek sendi lyf innanlands og taki fyrir það gjald. Ég hef nefnt að lögleiðing á póstverslun með lyf almennt geti leitt til lægra lyfjaverðs. Sú gagnrýni hefur komið upp að með þessu væri verið að opna fyrir innflutning á fölsuðum lyfjum. Hér þarf að greina skýrt á milli póstverslunar með lyf frá apótekum sem starfa samkvæmt ströngum lögum og reglugerðum sem byggjast á tilskipun Evrópubandalagsins annars vegar og netverslunar með lyf hins vegar. Það er alveg ljóst og óumdeilanlegt að við erum hér að tala um hið fyrrnefnda.

Smæð íslenska lyfjamarkaðarins er talin ein helsta ástæða þess að takmarkaður áhugi er á innflutning ódýrari samheitalyfja til landsins. Þá auðveldar sú einokun og fákeppni sem að mati Samkeppniseftirlitsins ríkir á markaðnum, bæði í heildsölu og smásölu, ekki aðgengi nýrra aðila og nýrra lyfja að markaðnum.  Meðal leiða sem skoðaðar hafa verið til að bæta þessu stöðu er að ýta undir samnorrænan lyfjamarkað og ég mun taka málið upp á norrænum vettvangi í tengslum við fund Norðurlandaráðs síðar í þessum mánuði.

Ýmislegt annað hefur áhrif á lyfjaverð hér á landi. Þar má nefna að kröfur yfirvalda (sem eru í samræmi við reglur Evrópubandalagsins) til markaðsleyfa lyfja draga úr áhuga á innflutningi ódýrra samheitalyfja og þrýsta á hærra verð en yfirvöld eru tilbúin að sætta sig við.

Hér er m.a. átt við kröfuna um íslenskan texta á merkimiða og fylgiseðla lyfja sem er sjálfsögð neytendakrafa, en má hins vegar segja að virki sem tæknileg hindrun á markaðinum. Þessi krafa hefur m.a. leitt til þess að erfitt hefur reynst að veita sjúklingum aðgang að ýmsum nauðsynlegum lyfjum sem seljast í litlum mæli.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum vil ég veita undanþágu frá þeirri skyldu sem hvílir á markaðsleyfishafa við markaðssetningu lyfs að hverri pakkningu þess fylgi íslenskur fylgiseðill. Þess í stað yrðu fylgiseðlar á íslensku aðgengilegir á heimasíðu Lyfjastofnunar til útprentunar og afhendingar í apótekum við kaup á viðkomandi lyfi.  Þessu hefur til að mynda verið vel tekið af Samtökum aldraðra sem benda á að með þessari útfærslu verði þáttaskil hjá öldruðum og öðrum sem farið er að daprast sjón því útprentaðir fylgiseðlar í apótekum geta verið með mun stærra letri en því sem notað er á fylgiseðlum í lyfjapakkningum. Fyrir stóran hóp viðskiptavina verður því um að ræða mun betri þjónustu en hingað til hefur verið veitt.

Þá sé ég ekkert því til fyrirstöðu að þessi möguleiki verði í framtíðinni nýttur enn frekar, t.d. til að bjóða útlendingum sem ekki skilja íslensku, lyfjafræðilega þjónustu. Hér má nefna að í Bandaríkjunum er víða boðið upp á 5-6 mismunandi tungumál á fylgiseðlum í apótekum. Slíkt þykir þar sjálfsögð þjónusta og til þess fallin að auka öryggið. Mér þykir einsýnt að lyfjafræðingar með margra ára háskólamenntun að baki muni tryggja rétta afhendingu fylgiseðla í apótekum.

Lyfjakostnaður á Íslandi hefur aukist ár frá ári. Til að sporna við þeirri aukningu hefur verið ákveðið að semja sérstakan lyfjalista á vegum landlæknis og Tryggingastofnunar. Stefnt er að því að fyrsti hluti listans verði tilbúinn í næsta mánuði. Lyfjalistinn er ætlaður læknum til stuðnings við val á lyfjum til meðferðar á algengustu sjúkdómum.  Lyf á listann verða valin út frá faglegum og fjárhagslegum sjónarmiðum með það að markmiði að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri notkun lyfja.

Slíkir lyfjalistar hafa nú þegar sannað ágæti sitt og skilað árangri á heilbrigðisstofnunum, hjúkrunar- og dvalarheimilum. 

Tryggingastofnun og Landlæknisembættið munu hafa umsjón með lyfjalistanum í samvinnu við Félag íslenskra heimilislækna og sérgreinafélög sem tengjast viðkomandi lyfjaflokki t.d. Félag geðlækna þegar útbúa skal lyfjalista fyrir þunglyndislyf.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að stefnt skuli að einföldun á reglum almannatrygginga.

Núverandi fyrirkomulag á greiðslum almannatrygginga í lyfjakostnaði er gengið sér til húðar. Það er flókið og torskilið og virkar í sumum tilfellum neysluhvetjandi.

Til að fylgja eftir stefnu ríkisstjórnarinnar hef ég skipað nefnd undir formennsku Péturs Blöndal, alþingismanns, til að gera tillögu að réttlátari, einfaldari og gagnsærri þátttöku einstaklinga í kostnaði vegna lyfja og annarar heilbrigðisþjónustu með það að leiðarljósi að verja einstaklinga gegn of háum kostnaði.

Nefndinni verður falið að kanna hvort, og þá með hvaða hætti, hægt er að fella læknis-, lyfja-, rannsóknar-, sjúkraþjálfunar- og annan heilbrigðiskostnað undir eitt niðurgreiðslu- og afsláttarfyrirkomulag þannig að þátttaka einstaklinga í heilbrigðiskostnaði verði takmörkuð hvort sem kostnaðurinn fellur til utan eða innan heilbrigðisstofnana og hver sem þörf fyrir heilbrigðisþjónustu er.

Góðir fundarmenn

Svo það fari ekki á milli mála vil ég taka fram að ekki stendur til að draga úr þeim öryggiskröfum, sem gilda um lyf og lyfjaþjónustu í samræmi við þær reglur sem gilda á evrópska efnahagssvæðinu.

 

Þá vil ég einnig taka fram að þær breytingar, sem ég tel nauðsynlegt að ráðast í eru í fullu samræmi við hinar þrjár meginstoðir Lyfjastefnu ráðuneytisins til 2012, þ.e. :

 

  • Að tryggja öruggt aðgengi allra landsmanna að nauðsynlegum lyfjum.
  • Að tryggja öryggi, gæði og virkni lyfja og lyfjaþjónustu.
  • Að tryggja skynsamlega og hagkvæma notkun lyfja.

 

Ég vil ítreka þakkir fyrir að fá að ávarpa ykkur á þessu málþingi. Ég hef gert mér far um að hitta og ræða við hagsmunaaðila í lyfjamálum og hlusta eftir þeirra hugmyndum. Í kjölfarið hef ég fengið góðar ábendingar sem margar endurspeglast í þeim hugmyndum sem ég hef rakið hér. Vonandi munum við áfram eiga gott samstarf að framfaramálum í þessum mikilvæga málaflokki.

 

(Talað orð gildir)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum