Hoppa yfir valmynd
7. júní 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Ný sýn á heilabilun - einstaklingurinn í öndvegi

Guðlaugur Þór Þórðarson

Málþing um heilabilun í tilefni útgáfu bókarinnar
„Ný sýn á heilabilun - einstaklingurinn í öndvegi“

7. júní 2007

Ágætu ráðstefnugestir

Það er mér sönn ánægja að ávarpa ykkur á þessu málþingi sem haldið er í tilefni af útkomu bókar sem nú hefur verið þýdd á íslensku og fjallar um nýja sýn á einstaklinga með heilabilun. Í bókinni er skyggnst á bak við sjúkdóminn og lögð áherzla á persónuna sem vill týnast í einkennum sjúkdómsins og mun bókin hafa hreyft við mörgum sem vinna við umönnun þessa sjúklingahóps. Mér hefur einnig verið tjáð að höfundur bókarinnar, Tom Kitwood, hafi verið þekktur fyrir nýyrðasmíð sína í enskri tungu og því hefur það ekki verið létt verk sem Svava Aradóttir hjúkrunarfræðingur tók sér fyrir hendur að snara henni á íslensku. Málþingið sýnir svo að ekki verður um villst hversu mikilvægt mál er hér um að ræða.

Málefni heilabilaðra er eitt af stóru málunum í heilbrigðisþjónustu við aldraða og spannar allt frá sjúkrahúsþjónustu með deildum og móttökum til margháttaðrar hjúkrunarheimilisþjónustu. Þessi málaflokkur er stór og mun augljóslega vaxa umtalsvert á næstu árum og áratugum og þurfum við öll að vera viðbúin því. Í ráðuneytinu hefur því verið unnið að stefnumótun á þessu sviði til framtíðar þar sem til grundvallar liggur sú sýn sem kemur fram í lögum um málefni aldraðra „að aldraðir eigi völ á þeirri heilbrigðis- og félagslegu þjónustu sem þeir þurfa á að halda og að hún sé veitt á því þjónustustigi sem er eðlilegast miðað við þörf og ástand hins aldraða. Einnig er markmið laganna að aldraðir geti, eins lengi og unnt er, búið við eðlilegt heimilislíf en að jafnframt sé tryggð nauðsynleg stofnanaþjónusta þegar hennar er þörf“.

Í stefnumótun ráðuneytisins er lögð áhersla á mikilvægi þess að þjónustan verði sem best aðlöguð að þörfum þessa sjúklingahóps og er skipulag þjónustunnar nú til sérstakrar skoðunar við þá endurskoðun laga um málefni aldraðra sem nú er unnið að. Lögð er áhersla á aukningu þjónustu á sviði dagþjálfunar og er áætlað að þeirri þjónustuþörf verði fullnægt á höfuðborgarsvæðinu síðar á þessu ári. Einnig er lögð áhersla á uppbyggingu sérdeilda fyrir heilabilaða á hjúkrunarheimilum þar sem mið er tekið af reynslu af sambýlum og minni einingum sem þegar hafa verið starfræktar á nokkrum heimilum. Sérstaklega verður skoðað hvernig hægt er að efla þjónustu fagfólks við þennan sjúklingahóp á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar. Það málefni sem hér er til umræðu fellur því vel að því sem nú er verið að vinna að í ráðuneytinu.

Í samstarfssamningi ríkisstjórnarinnar er sagt að málefni aldraðra verði flutt í félagsmálaráðuneytið. Þetta er ekki mjög afmarkaður málaflokkur því málefni aldraðra eru oft einnig málaflokkur allra annarra. Það tekur því tíma að útfæra þetta til fulls en sú vinna er þó hafin. Eins og gefur að skilja verður þá aðallega litið til þess sem fellur undir félagsþjónustu og það er ljóst að málefni hjúkrunarheimila verða áfram á könnu heilbrigðisráðuneytisins.

Málefni heilabilaðra er eitt af eilífðarverkefnunum og við erum stöðugt að leita að nýjum og betri lausnum. Án ykkar sem á þessu sviði vinna komumst við þó lítið áfram því frá ykkur koma hugmyndirnar og það er svo okkar verk að sníða þær að þeirri þjónustu sem fyrir er og búa til ný og betri úrræði.

Ég óska ykkur svo velfarnaðar í öllum ykkar störfum og vona að þessi dagur verði ykkur notadrjúgur.

Talað orð gildir.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum