Hoppa yfir valmynd
18. október 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Þjóðhagslegt gildi lyfja

Guðlaugur Þór Þórðarson

Málstofa um gildi lyfja í þjóðhagslegu og

heilsuhagfræðilegu tilliti

miðvikudaginn 17. október 2007 kl. 12:30.

Ágætu málstofugestir!

Það er mér mikið ánægjuefni að fá tækifæri til þess að ávarpa þessa samkomu. Fundarefnið gefur tilefni til þess að hugað sé að því hvernig staðið er að stefnumótun og áætlanagerð í heilbrigðismálum og hvernig heilsuhagfræðin getur orðið að liði í stefnumörkun til framtíðar.

Víðtæk áætlanagerð og stefnumótun í heilbrigðismálum hefur átt erfitt uppdráttar á Íslandi. Þetta stafar líklega af því að heilbrigðiskerfið einkenndist um langt skeið af dreifðri uppbyggingu þjónustunnar, einangrun stofnana og erfiðum samgöngum. Segja má að enginn einn aðili hafi þá markað meginstefnuna í heilbrigðismálum heldur kom frumkvæðið frá mörgum aðilum. Þetta stjórnunarform hafði vissulega ákveðna kosti en jafnframt þann megingalla að ekki kom fram nein samræmd heildarstefna.

Sú skoðun var jafnframt ríkjandi að áætlanagerð og setning markmiða væri nokkuð sem ekki ætti við í heilbrigðiskerfinu. Verkefni heilbrigðis-þjónustunnar væru fyrst og fremst faglegs eðlis og hlytu eðli málsins samkvæmt að lúta sínum eigin lögmálum. Ekki væri mögulegt að setja sér markmið eða fylgja fyrirfram gerðum áætlunum á sama hátt og til dæmis er gert í samgöngu-, iðnaðar- eða orkumálum.

Seinustu ár hefur hlutur heilsuhagfræðinnar vaxið verulega í allri stefnumörkun innan heilbrigðiskerfisins, bæði hér á Íslandi og í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Heilsuhagfræði snýst samkvæmt mínum skilningi einfaldlega um það um hvernig við skiptum á sem skynsamlegastan hátt takmörkuðum gæðum heilbrigðiskerfisins á milli aðila í samfélaginu.

Í þessu ferli er stuðst við ýmsar kenningar heilsuhagfræðinnar og má þar nefna hina svonefndu kostnaðar/ávinnings greiningu (Cost-benefit analysis). Þessi greining setur peningavirði á kostnað og ávinning. Í þeim heimi takmarkaðra gæða og fjármuna sem við lifum í, er álit margra sérfræðinga að þessi aðferð henti betur en margar aðrar nálganir til þess að ákvarða hvaða meðferð eða úrræði henti best í hverju tilviki fyrir sig.

Í dag eru gerðar kröfur til þess að heilbrigðisþjónustan móti sér ákveðna framtíðarsýn og að meginhlutverk hennar sé skilgreint. Sömuleiðis er þess krafist að heilbrigðisþjónustan setji sér markmið og fylgi skipulegum áætlunum til þess að ná þeim. Núgildandi heilbrigðisáætlun til ársins 2010 tekur til að mynda til heilbrigðismarkmiða, þjónustumarkmiða, gæðaþróunar, rannsókna, menntunar, fjármála, stjórnunar, skipulags og stefnu í starfsmannamálum.

Fyrir dyrum stendur að ráðast í gerð nýrrar heilbrigðisáætlunar og mun hún væntanlega ná til ársins 2020. Þegar er hafin vinna á ýmsum sviðum sem koma mun að góðum notum við gerð áætlunarinnar. Á liðnu sumri hafði ég frumkvæði að því að ráðist yrði í athugun á væntanlegri þróun heilbrigðisútgjalda á næstu árum og áratugum. Fyrstu niðurstöður liggja nú fyrir í vinnuhandriti og þær gefa til kynna að með hliðsjón af lýðfræðilegum breytingum á Íslandi verði nokkur vöxtur á hlutfalli heilbrigðisútgjalda í þjóðarframleiðslunni.

Hlutdeild heilbrigðisútgjalda er í dag 9-10% af vergri þjóðarframleiðslu, eða sem svarar til um 100 milljarða króna. Miðað við þessa útreikninga erum við í hópi þeirra þjóða sem veita mestu fjármagni til heilbrigðisþjónustu. Hlutfallið af vergi þjóðarframleiðslu er hæst í Bandaríkjunum eða um 15%.

Um miðbik þessarar aldar má gera ráð fyrir að hlutdeild heilbrigðisútgjalda hafi aukist í u.þ.b. 13% af vergri þjóðarframleiðslu á Íslandi. Aldurssamsetning íslensku þjóðarinnar skiptir hér miklu máli, en hins vegar þarf að taka tillit til fleiri þátta, til dæmis framfara í læknisfræði, nýrra lækningatækja og ekki hvað síst nýrra og áhrifaríkari lyfja. Hér gætum við vissulega hagnýtt okkur betur kosti heilsuhagfræðinnar og sérstaklega tel ég að aðferðin um greiningu kostnaðar og ávinnings geti komið að góðum notum.

Svo farið sé nánar útí efni málþingsins um þjóðhagslegan ávinning af notkun lyfja, þá er því er því stundum ranglega haldið fram að heilbrigðisyfirvöld og þeir sem vilja stuðla að skynsamri og hagkvæmri lyfjanotkun, séu á móti nýjum lyfjum og líti eingöngu á þau sem fjárhagsleg útgjöld en komi ekki auga á ávinning sjúklinga. Þetta er auðvitað mikil einföldun því að allir vita að framfarir í lyfjafræði og læknisfræði hafa leitt til betri heilsu, betri lífsgæða hjá einstaklingum og aukins heilbrigðis meðal almennings.

Lyf hafa komið að góðum notum við að bæta heilsu og líðan fólks ásamt breyttu lífsmunstri, meiri hreyfingu og bættu mataræði. Þróun ákveðinna lyfja upp úr seinni hluta síðustu aldar gerði að verkum að fleira fólk varð frískara, legum og aðgerðum á sjúkrahúsum fækkaði og heilbrigðiskostnaður varð minni en ella hefði orðið. Með hjálp lyfja hefur fólki verið bjargað og komið til heilsu, nægir þar að nefna tilkomu sýklalyfja.

Ýmsar aðrar tegundir lyfja, til dæmis magalyf og geðlyf, svo nokkuð sé nefnt, hafa bætt heilsu margra og dregið verulega úr kostnaði við heilbrigðismál. Magalyfin hafa komið í stað flókinna magaskurðaðgerða og legu sjúklings á sjúkrahúsi í allt að sex vikur. Og geðlyfin, sérstaklega svokölluð létt geðlyf, hafa gert fjölda fólks kleift að lifa sambærilegu lífi og aðrir þegnar þjóðfélagsins.

Að mínu áliti er okkur of tamt að líta á þá fjármuni sem varið er til heilbrigðis- og velferðamála eingöngu sem útgjöld. Við gleymum því einfaldlega eða komum ekki auga á þá staðreynd að fyrirtæki á heilbrigðissviði hafa undanfarin ár verið einn helsti vaxtarbroddurinn í atvinnulífinu. Uppruni og velgengni þessara fyrirtækja byggist að miklu leyti á góðu heilbrigðiskerfi og vel menntuðu starfsfólki. Útrás íslensks atvinnulífs snýst greinilega ekki bara um banka, fjármálastofnanir og orkufyrirtæki.

Í þessu samhengi vil ég nefna eitt dæmi til skýringar. Tvö íslensk fyrirtæki, Actavis og Össur, sem náð hafa síðustu árin, hvort á sínu sviði, leiðandi stöðu á alþjóðamarkaði, velta nú margfaldri þeirri upphæð sem menn gerðu ráð fyrir að mögulegt væri fyrir aðeins fáeinum árum. Samkvæmt upplýsingum Kauphallarinnar um afkomu þessara fyrirtækja á fyrri hluta þessa árs má gera ráð fyrir því að í heild verði velta þessara fyrirtækja samanlagt u.þ.b. 145 milljarðar kr. á árinu 2007. Þessi upphæð samsvarar því sem ríkið ver til heilbrigðis- og tryggingamála á þessu ári.

Þegar litið er á uppbyggingu og þróun fyrirtækja á heilbrigðissviði síðasta áratuginn hafa átt sér stað miklar framfarir á mörgum sviðum eins og fyrr er getið. Fjölmörg íslensk fyrirtæki hafa af miklum krafti haslað sér völl á ákveðnum sérsviðum, og það jafnvel á erlendum mörkuðum, en á sama tíma hefur ekki tekist að hlúa nægjanlega vel að þeim gróðri sem e.t.v. gæti skapað enn fleiri tækifæri til nýsköpunar og stuðlað að enn meiri verðmætaaukningu í þjóðfélaginu.

Það er í ljósi þessa sem ég hef í samvinnu við ráðherra menntamála og iðnaðar gengið frá samkomulagi um að láta gera úttekt á framtíðarmöguleikum á sviði nýsköpunar í tengslum við heilbrigðisþjónustuna og leiðum til að auka verðmætasköpun og bæta þjónustu á þessu sviði. Viðfangsefnið nær til nýsköpunar á sviði heilbrigðisvísinda í víðum skilningi svo og tækniþróunar og nýsköpunar sem tengist heilbrigðisþjónustu.

Góðir gestir.

Það er mikilvægt að vinna skipulega að auknum rannsóknum og þróunarstarfsemi í tengslum við heilbrigðisþjónustu, og ekki síður að tryggja að góðar hugmyndir komist í framkvæmd. Sú forysta sem íslenskir lyfjaframleiðendur hafa sýnt í nýsköpun og landvinningum á erlendri grund ættu að geta orðið öðrum til eftirbreytni.

Takk fyrir.

(Talað orð gildir)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum