Hoppa yfir valmynd
17. mars 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Einföldun á regluverki í þágu smávirkjana

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skrifað undir reglugerð sem ætlað er að bæta rekstrarumhverfi smávirkjana. Reglugerðin er hluti af tillögum starfshóps sem ráðherra orkumála skipaði árið 2020 með það að markmiði að bæta starfsumhverfi smávirkjana, með sérstakri áherslu á gjaldtöku vegna tenginga þeirra við dreifikerfi raforku.

Í reglugerðinni er fjallað með ítarlegum og skýrum hætti um kerfisframlag vegna tenginga gjaldtöku og dreifikerfis, undir formerkjum einföldunar, jafnræðis og aukinnar skilvirkni. Er þar m.a. lagt til að við útreikning á kerfisframlagi smávirkjana (þ.e. gjaldtökuvið að tengjast dreifiveitu) verði miðað við 30 ára afskriftartíma í stað 20 ára eins og nú er. Sú breyting mun að öllu jöfnu mun leiða til lægra kerfisframlags og meiri sveigjanleika í rekstri og fjárfestingum.

„Það er ánægjulegt að geta átt þátt í því að stuðla að bættu rekstrarumhverfi smávirkjana með breytingu á reglugerð um framkvæmd raforkulaga. Smávirkjanir eru mikilvægar þar sem þær stuðla að bættu orkuöryggi og verðmætasköpun í héraði. Með því að bæta starfsumhverfi smávirkjana stuðlum við að meiri fjölbreytni í orkukerfinu sem er í samræmi við orkustefnu. Við viljum skapa skilvirkt, einfalt og gegnsætt ferli og það er mikilvægt að jafnræðis sé gætt óháð stærð aðila á markaði,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.  

Starfshópurinn skilaði skýrslu til ráðherra árið 2021 og hafa tillögur hópsinsverið settar í framkvæmd. Auk reglugerðarbreytingarinnar nú má þar nefna stofnun vettvangs dreifiveitna fyrir gerð tæknilegra skilmála fyrir smávirkjanir, vinnu á vegum Landsnets um breytingar á gjaldaumhverfi varðandi innmötunargjald virkjana og einföldun í framkvæmd eftirlits með smávirkjunum hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Markmið þessara breytinga er að samræma og einfalda rekstrarumhverfi smávirkjana á mismunandi dreifiveitusvæðum, greiða fyrir samskiptum notenda og dreifiveitna við tengingar og stuðla að frekari þróun í vinnslu og viðskiptum með raforku í þágu orkuskipta.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum