Hoppa yfir valmynd
9. janúar 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 3. - 9. jan. 2004



Tilmæli til yfirlækna LSH að búa sig undir að veita aukna þjónustu á næstu dögum
Framkvæmdastjóri lækninga beinir þeim tilmælum til yfirlækna á Landspítala - háskólasjúkrahúsi að búa sig undir að leitað verði eftir aukinni þjónustu spítalans á næstu dögum. Þetta kemur fram í bréfi forstjóra og framkvæmdastjóra lækninga til heilbrigðisyfirvalda og fleiri, vegna deilu Læknafélags Reykjavíkur og Tryggingastofnunar ríkisins. Í bréfinu segir m.a. að viðbúið sé að einhver hluti þeirra sjúklinga sem leitað hafa til sérfræðinga á stofu muni leita annað, komum sjúklinga muni því fjölga á heilsugæslustöðvar og til sérfræðinga LSH. Ennfremur segir að sjúkrahúsið muni hér eftir sem hingað til sinna bráðveiku fólki á bráðamóttökum spítalans. Þess megi vænta að sjúklingar með önnur vandamál en bráðavandamál leiti til heimilislækna eða á Læknavaktina og geti heimilislæknar sem þurfi á sérfræðiaðstoð að halda haft samband við vakthafandi sérfræðing viðkomandi sérgreinar á LSH sem muni aðstoða eftir föngum.
Nánar...

Vegna ályktunar Geðlæknafélags Íslands
Formaður samninganefndar Læknafélags Reykjavíkur staðfesti með bréfi dags. 3. desember 2003 að ,,LR telur alla samninga LR og TR um sérgreinalækna úr gildi fallna 31.12.03 og að hvorugur aðila sé þá bundinn hinum að neinu leyti". Um þetta er fjallað á heimasíðu Tryggingastofnunar og segir að þar að það sé ,,einfaldlega ekki rétt sem fram hefur komið að Tryggingastofnun ríkisins (TR), samninganefnd heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis eða heilbrigðisráðuneytið hafi numið úr gildi sjúkratryggingar almennings gagnvart sérfræðilæknum. Það gerðist þegar samningar voru látnir renna út."

Mat á áhrifum barnalaga
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur sett á fót vinnuhóp sem falið er það hlutverk að meta áhrif nýrra barnalaga nr. 76/2003 og ESB-dóma á aðra löggjöf hér á landi og framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins að því er varðar meðlagsgreiðslur stofnunarinnar. Einnig hefur vinnuhópurinn það hlutverk að gera tillögur að lagabreytingum ef talin er þörf fyrir þær. Hópnum er ætlað að skila tillögum til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fyrir 1. mars 2004. Formaður hópsins er Vilborg Þ. Hauksdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Aðrir fulltrúar eru: Sólveig Guðmundsdóttir, yfirlögfræðingur í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Edda Andrésdóttir og Hildur Sverrisdóttir, báðar lögfræðingar hjá Tryggingastofnun ríkisins.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
9.janúar 2004

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum