Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2018 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Mótun heildarlöggjafar um net- og upplýsingaöryggi

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í dag, mótun heildarlöggjafar um net- og upplýsingaöryggi sem er næsta skref til eflingar netöryggis á Íslandi.

Í kynningu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kom fram að netöryggi væri eitt brýnasta mál ríkja í okkar heimshluta enda væri Netið orðið einn helsti vettvangur skipulagðrar glæpastarfsemi og að iðnnjósnir hafi skaðað heilu atvinnugreinarnar. Talið er að kostnaður af völdum netglæpa hér á landi sé varlega áætlaður vera hundruð milljóna króna á ári.

Heildarlöggjöf um net- og upplýsingaöryggi mun ná til þeirra sem veita nauðsynlega stafræna þjónustu og er slík löggjöf nauðsynleg vegna innleiðingar á tilskipun Evrópusambandsins um sameiginlegar kröfur til öryggis net- og upplýsingakerfa innan ESB, NIS-tilskipunin. Gildissvið fyrirhugaðrar löggjafar er umfangsmikið og er samráð við hagsmunaaðila að hefjast auk þess sem opið samráð verður haft á Netinu. Miðað er við að leggja umrætt frumvarp fram á haustþingi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið fékk Háskólann í Oxford til að meta stöðu netöryggis í íslensku samfélagi og skilaði hann skýrslu um mat á 24 þáttum og um 120 ráðleggingum um umbætur. Netöryggisráð mótar nú tillögur sem byggjast á þessum ráðleggingum og verða þær bráðlega kynntar. Þá var hinn 25. janúar síðastliðinn undirritaður þjónustusamningur Netöryggissveitar Póst- og fjarstkiptastofnunar við stjórnsýsluna um netöryggisþjónustu og er gert ráð fyrir að hliðstæðir samningar geti siglt í kjölfarið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira