Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Niðurstaða dóms í lyfjamáli ekki aðalatriði

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra

Heilbrigðisráðherra segir niðurstöðu héraðsdóms í máli einstaklings gegn ríkinu vegna lifrarbólgulyfsins Harvoni staðfesta að lagaramminn sem byggt var á í umræddu máli haldi og að starfshættir hins opinbera hafi verið lögmætir. Aðalmálið nú sé þó að tryggja greiðari aðgang fólks að mikilvægum lyfjum eins og hér um ræðir.

Kröfur stefnanda voru þríþættar, þ.e. að felld yrði úr gildi ákvörðun Lyfjagreiðslunefndar um að synja umsókn um einstaklingsbundna greiðsluþátttöku fyrir stefnanda í lyfinu Harvoni vegna lyfjameðferðar við lifrarbólgu C, að viðurkennt yrði að stefndu væri skylt að veita viðkomandi aðgang að lyfinu vegna nauðsynlegrar meðferðar við lifrarbólgu C og loks til vara að ólögmætt hefði verið að synja um einstaklingsbundna greiðsluþátttöku stefnanda í lyfinu með vísan til skorts á fjármagni. Ekki var fallist á neina af framangreindum kröfum í niðurstöðu Héraðsdóms.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir niðurstöðu dómsins m.a. staðfesta þá meginreglu stjórnarskrárinnar að fjárstjórnarvaldið sé hjá Alþingi og að ekkert gjald megi greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. „Niðurstaða dómsins er þó ekki aðalmálið núna, heldur að tryggja greiðari aðgang að mikilvægum lyfjum eins og hér um ræðir fyrir þennan sjúklingahóp. Að því er unnið af hálfu ráðuneytisins í samvinnu við Landspítala og ég vonast til að kynna farsæla lausn áður en langt um líður“ segir ráðherra.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira